151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[12:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Við erum að ræða stærsta þingmálið, fjárlögin. Eðli málsins samkvæmt birtist flest pólitík landsins í því skjali. Því miður er hvorki verið að fjölga störfum í nægilegum mæli í þessum fjárlögum né taka utan um þann hóp sem hefur misst atvinnuna. Þá eru þessi fjárlög ekki hin græna bylting sem hér hefur verið margboðuð og enn eru fjárfestingar of litlar. Hér tala tölurnar sínu máli, herra forseti.

Förum yfir þetta skipulega. Svokallað fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar nemur 1% af landsframleiðslu. Það dugar að sjálfsögðu engan veginn til að mæta dýpstu kreppu Íslands í 100 ár. Viðbótin í umhverfismál er 0,1% af landsframleiðslu. Takið eftir þessu, 0,1% er viðbótin í umhverfismál milli fjárlaga. Það er augljóst að flokkar á þingi leggja ólíkan skilning í orðin „græn bylting“ ef þetta á að teljast það. Viðbótin í nýsköpun er 0,3% af landsframleiðslu. Þetta eru óhagganlegar tölur. Við getum ekki rifist endalaust um tölur. Þetta eru tölur sem eru fengnar beint úr fjárlagafrumvarpinu sjálfu. Að setja 0,3% af landsframleiðslu í nýsköpun á tímum sem þessum er brandari, því miður, því nýsköpun er lykilorð í kreppu. Það er of lítið og of naumt skammtað þegar kemur að þessum lykilþáttum.

Atvinnuleysi, sem er helsti óvinur okkar í dag, á að minnka með þessu fjárlagafrumvarpi um 1 prósentustig. Ef ég rýni — og við fengum þessar tölur í vinnu fjárlaganefndar — í fjárfestingarátakið, eins og það er kallað, þá eiga beinu störfin sem verða til að vera um 1.200. Það er of lítið, herra forseti, þegar við erum að kljást við sögulega mikið atvinnuleysi þar sem um 20.000–25.000 Íslendingar og aðrir eru atvinnulausir. Því til viðbótar hafa 18.000 störf horfið af vinnumarkaðnum þannig að vinnumarkaðurinn hefur minnkað og störfum fækkað, fólk yfirgefur vinnumarkaðinn af mörgum ástæðum, m.a. af því að enga vinnu við hæfi er að finna, eða litla. Síðan er stór hópur atvinnulaus og takið eftir rúsínunni í pylsuendanum: Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu sjálfu renna 85% af þeim störfum sem verða til í fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar til karla. Hvernig stendur á því að fjárfestingarátak sem ríkisstjórnin er montin af fer í gegnum þrjá stjórnmálaflokka vitandi að 85% þeirra starfa sem verða til renna til karla? Það er staðreynd. Þetta kemur beint frá fjármálaráðuneytinu sjálfu.

Herra forseti. Öllum er ljóst að það þarf að gera miklu betur og koma hjólum atvinnulífsins af stað. Við þurfum að beita ríkisfjármálunum með miklu myndarlegri hætti en hér er gert. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, OECD og Alþjóðabankinn hafa verið að hvetja ríki heims til að verja miklum fjármunum til að styðja við atvinnulífið og stofnanir hins opinbera. Þess vegna er réttlætanlegt að mati Samfylkingarinnar að auka fjárveitingarnar enn meira. Ég veit að hallinn er mikill en það er réttlætanlegt í svona stöðu. Það er meira að segja æskilegt. Svo greiðum við hallann á lengri tíma en hér stendur til. Við höfum tíma, við erum að kljást við 100 ára kreppu. Höggið á Íslandi er eitt það mesta í Evrópu og við þurfum að hafa, því miður, meiri halla og taka lengri tíma til að greiða hann niður. Það er góð hagfræði og góð pólitík.

Herra forseti. Nú eru vextir lágir. Það er tiltölulega hagstætt fyrir ríkissjóð að skuldsetja sig. Það kemur að skuldadögum en ríkið er í allt annarri stöðu en fyrirtæki, heimili eða sveitarfélög þegar kemur að skuldsetningu því við þurfum að vaxa upp úr þessari kreppu, við höfum öll heyrt þann frasa, en til að geta vaxið upp úr henni þarf að beita ríkisfjármálunum með miklu myndarlegri hætti þegar kemur að grænum skrefum, fjárfestingu, nýsköpun og opinberri þjónustu. Stundum kostar pening að búa til pening og því fyrr sem hjólin fara að snúast, því fyrr fáum við tekjur til baka.

Ég nefndi atvinnuleysi áðan. Það er helsta áskorun okkar í dag. Við höfum aldrei haft svona mikið atvinnuleysi. Það er meira en í bankahruninu. Atvinnuleysi er eitur í beinum allra. Það stefnir í að 20.000–25.000 manns verði atvinnulaus um jólin. Atvinnuleysi er ömurlegt fyrir þann sem lendir í því. Auðvitað er það fjárhagslegt högg en það er líka félagslegt högg. Það hefur heilsufarslegar áskoranir í för með sér. Hvað þýðir að 20.000 manns séu án atvinnu, eða 25.000? Tölur þurfa samhengi. Það eru fleiri störf en samanlagt á Akureyri, öllum Austfjörðum og Vestfjörðum. Fari atvinnuleysi upp í 30.000 manns eins og sumar spár gera ráð fyrir getum við bætt Reykjanesbæ við þann dapurlega samanburð.

Við þurfum að búa til störf, bæði hjá hinu opinbera og í einkageiranum. Við eigum ekki að mæta ákalli um að styrkja opinbera þjónustu — hvort sem það er að fjölga hjúkrunarfræðingum, lögreglumönnum, félagsráðgjöfum, skólaliðum, sjúkraliðum eða vísindamönnum, öllu þessu fólki sem vinnur hjá hinu opinbera og býr til verðmæti og gerir verðmætasköpun einkamarkaðarins mögulega — með hroka eins og mér finnst fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hafa gert og tala um að það sé versta hugmynd sem hann hafi heyrt og tala síðan um blóðuga sóun hjá hinu opinbera, að við þurfum bara að hlaupa hraðar. Hvers konar skilaboð eru það, herra forseti, frá fjármálaráðherranum, formanni Sjálfstæðisflokksins? Hvers konar skilaboð eru það frá hinum stjórnarflokkunum, Vinstri grænum og Framsóknarflokknum, sem þegja undir þessum orðum?

Atvinnuleysisbætur eru enn þá of lágar. Auðvitað er verið að setja mikla fjármuni í atvinnuleysisbætur en það helst að sjálfsögðu í hendur við hið aukna atvinnuleysi. Mér fannst það hlægilegt þegar félagsmálaráðherra var nánast að stæra sig af því að engin ríkisstjórn hefði sett jafn mikið í atvinnuleysisbætur. Já, það er af því atvinnuleysi hefur aldrei verið jafn mikið. Fólk á rétt á atvinnuleysisbótum. Þrátt fyrir þau skref sem ríkisstjórnin hefur verið að stíga þá er þetta of lítið. Við getum ekki ætlast til þess, herra forseti, að fólk lifi á 260.000 kr. eftir skatt á mánuði. Enginn ráðherra myndi treysta sér til að lifa á svo lágri upphæð. Við höfum nú þegar nógu stóra hópa sem þurfa að lifa á svona lágum upphæðum. Það eru öryrkjar, það er hluti eldri borgara og námsmanna. Af hverju erum við að fjölga í þeim hópi sem getur í rauninni ekki tekið þátt í samfélaginu með sama hætti og við hin vegna þess að hann hefur ekki efni á því? Við búum í dýru landi og það er ekki bara hið rétta í stöðunni að hækka atvinnuleysisbætur til að gera lífið aðeins auðveldara fyrir þetta fólk, fyrir þennan stóra massa, heldur líka góð hagfræði því stundum fer góð hagfræði og pólitík saman. Ef við hækkum atvinnuleysisbætur þá eyðir fólk þeirri hækkun, það á ekki annarra kosta völ. Þeir peningar sem fara til atvinnulausra eða öryrkja eða eldri borgara sem eru neðar í tekjustiganum fara strax út í hagkerfið og fara strax að vinna. Peningar sem eru á hreyfingu og fara í neyslu og fara í vinnu í hagkerfinu skapa auð. Það eru margfeldisáhrif peninga. Svo fáum við skatta á móti því við erum með virðisaukaskatt og tekjuskatt o.s.frv. Þetta er svo skynsamlegt núna.

Við getum jafnvel hækkað atvinnuleysisbæturnar tímabundið ef það er einhver málamiðlun. Ég gef ekkert fyrir þau rök sem hafa heyrst frá Sjálfstæðismönnum og öðrum um að ef við hækkum atvinnuleysisbætur of mikið muni fólk bara sleppa því að leita að vinnu. Það er enga vinnu að finna við hæfi, eða litla, og þess vegna eiga þau rök ekki við. Ég stúderaði í sumar heilmargar rannsóknir varðandi það hvort hækkun atvinnuleysisbóta drægi úr atvinnuþátttöku eða viljanum til að … [Sími hringir í þingsal.] Við vorum að tala um atvinnuleysi og atvinnuleysisbætur, háalvarlegt mál. Það er markmið okkar hér í þessum sal að auðvelda lífið hjá fólki. Við erum kosin til að auðvelda lífið á þessu landi. Við höfum tækin og tólin til þess, herra forseti. En aftur er máttleysið svo mikið. Eftir því sem maður stúderar meira svona kreppufræði þá sér maður að helstu mistökin sem ríkisstjórnir gera í svona ástandi eru að gera of lítið, í alvörunni. Það er að gera of lítið. Það er svo kostnaðarsamt að gera þetta máttlaust og of lítið. Ég veit að hér er hægt að slengja framan í mig: Já, en hvað með hallann? Ég veit það. Það kostar pening að mæta dýpstu kreppu í 100 ár. Það getur kostað pening að skapa störf og auðvelda lífið hjá fólki sem missir vinnuna eða lendir í örorku. Fjárfestingarátakið er 1%, finnst fólki það í alvörunni nægjanlegt? Það heitir meira að segja fjárfestingar- og uppbyggingarátak ríkisstjórnarinnar í þessum fjárlögum. Það er 1% af landsframleiðslu. Samtök iðnaðarins skrifuðu umsögn um þetta frumvarp. Það getur vel verið að fólk taki því með fyrirvara sem kemur frá stjórnarandstöðunni en Samtök iðnaðarins segja, með leyfi forseta:

„Í því sambandi lýsa SI áhyggjum af því sem fram kemur í fjármálaáætluninni að hlutdeild fjárfestinga hins opinbera af landsframleiðslu muni lækka á næstu árum.“

Ég veit ekki hversu marga tölvupósta og símtöl við höfum fengið frá fjölmörgum einyrkjum, ekki síst á sviði ferðaþjónustu, veitingahúsareksturs og lista og menningar, sem hafa lýst miklum áhyggjum af frekar máttlausum tilraunum ríkisstjórnarinnar til að ná til þessara hópa. Þetta er fólkið úti á akrinum. Það er eins og ríkisstjórnin hlusti ekki. Við erum búin að vera að vinna þetta frumvarp í þrjá mánuði. Svo koma breytingartillögur frá ríkisstjórninni upp á 53 milljarða. Fjárlaganefndin bætir tveimur við, í alls konar litlar krúsidúllur, bát í Vestmannaeyjum, fjármuni til minkabænda. Hvar er hið stórpólitíska hugrekki meiri hlutans í nefndinni til að hlusta á hagsmunaaðila, hvort sem það eru eldri borgarar, öryrkjar, námsmenn, Samtök iðnaðarins eða verkalýðshreyfingin?

Lítum á umhverfismálin. Ég gat aðeins um þau í inngangi mínum. Í morgun boðaði forsætisráðherra metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum. „Follow the money“ stendur einhvers staðar, með leyfi forseta. Eltum peningana. Hvað stendur í þessu plaggi, annars vegar frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár og svo fjármálaáætlun til næstu fimm ára? Hver er uppbyggingin í umhverfismálum hjá þessari ríkisstjórn? Hún er, eins og ég gat um áðan, 1% af landsframleiðslu á næsta ári. Helmingurinn af því fer í ofanflóðavarnir. Gott mál, en ef við tökum það frá, hver er þá viðbótin í umhverfismálin milli ára? 0,05% af landsframleiðslu. Já, hér stendur 0,05%. Það er ódýrt að skrifa einhverjar greinar í Morgunblaðið og setja á sig græna skikkju. Hvar kemur það fram í frumvarpi fjárlaga næsta árs? Það kemur hvergi fram. Lítum til fimm ára. Stundum finnst mér eins og ráðherra hafi ekki einu sinni skoðað sínar eigin töflur. Hvað stendur í fjármálaáætluninni varðandi umhverfismál næstu fimm ár? Aukningin er um 4 prósentustig 2021–2125, á fimm árum. Er þetta í alvörunni að fara að svara kalli kjósenda um grænar áherslur? Þessar tölur eru hér, svart á hvítu. Er í alvörunni verið að segja okkur að það sé græn bylting? Nei, herra forseti.

Nýsköpunin er svo mikilvæg á þessum tímum. Við þurfum að fjárfesta í hugverki. Við þurfum að fjárfesta í nýsköpun. Ég set þessar tölur í samhengi því hægt er að slengja fram alls konar tölum. Þessar tölur þurfa samhengi. Það er samhengi sem ég bendi hér á: Viðbótin í nýsköpun er 0,3% af landsframleiðslu. Samtök sprotafyrirtækja skrifuðu okkur í nefndinni og sögðu, með leyfi forseta:

„Veturinn verður því kaldur fyrir sprotafyrirtæki sem hafa ekki aðra fjármögnunarkosti en styrki og má búast við að mörg framúrskarandi verkefni stöðvist vegna skorts á fjármögnun.“

Samtök iðnaðarins segja um þetta frumvarp:

„Metaðsókn var í Tækniþróunarsjóð í ágúst 2020 en aðeins tæp 8% verkefna hlutu styrk úr sjóðnum. Fjölmörgum frambærilegum verkefnum var neitað um styrk vegna þess að fjármagn var af skornum skammti.“

Þetta segja Samtök iðnaðarins. Af hverju fullfjármögnum við ekki bara Tækniþróunarsjóð? Allir hér inni hafa sagt að nýsköpun sé frábær. Af hverju fullfjármögnum við hann ekki? Búið er að bæta aðeins í en það er langt frá því að fullfjármagna sjóð sem er með fjölmörg verkefni sem fá hæstu einkunn til að uppfylla styrk en verður að hafna vegna skorts á fjármagni. Á sama tíma kemur eitthvert furðulegt frumvarp frá svokölluðum nýsköpunarráðherra um að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð og spara þannig 300 millj. kr. Stundum fer ekki saman hljóð og mynd, eins og oft er sagt í stjórnmálum og það er augljóst þegar kemur að umhverfismálum og nýsköpun og fjárfestingum.

Förum aðeins dýpra inn í þetta. Sveitarfélögin, sem sjá um nærþjónustu, skólamál, félagsmál, málefni fatlaðra, hluta af umhverfismálum, hafa sagt að fjárþörf þeirra sé um 50 milljarðar kr. á þessu ári og næsta. Ekki þarf að fjölyrða um það að ekki er komið nálægt þeirri kröfu í þessu frumvarpi eða þeim breytingartillögum sem eru gerðar við það. Reykjavíkurborg skrifar í umsögn um frumvarpið:

„Stefna ríkisins fram að þessu hefur gengið þvert á ráðgjöf OECD til aðildarríkjanna og það sem önnur norræn ríki eru að gera gagnvart sveitarfélögum …“

Kennarasamband Íslands lýsir miklum vonbrigðum með áætluð fjárframlög til framhaldsskóla í frumvarpinu. Fjárlaganefnd hefur fengið upplýsingar um húsaleigu framhaldsskóla. Nú eiga framhaldsskólar að greiða húsaleigu. Það virðist vera virkilega ógagnsætt. Í sumum tilfellum, alla vega samkvæmt þeim upplýsingum sem berast okkur, fer sú aukning sem verður sett til framhaldsskólanna að hluta til strax aftur til ríkisins, af því að skólarnir þurfa að greiða húsaleigu. Þetta þarf að gera miklu gagnsærra, a.m.k. gagnvart skólunum.

Lítið er gert fyrir heimilin í þessum aðgerðum, þessum Covid-aðgerðum. Hér er nú einhver listi, maður er með svo mörg blöð, um hvað hefur runnið beint til heimilanna. Það er ekki mikið. Við höfum áhyggjur af barnabótunum. Við þurfum að vera miklu örlátari á barnabætur. Þetta eru ekki stóru tölurnar en við erum alltaf að ræða um barnabætur. Það er of dýrt á Íslandi að vera með börn á framfæri. Samkvæmt fjármálaáætluninni á krónutala barnabóta ekki að breytast næstu fimm árin. Við þurfum að bæta í barnabætur og draga úr skerðingum. Við þurfum að vera barnvænt samfélag, við sjáum núna að barneignir á Íslandi hafa hrunið. Það er áhugavert og jafnframt áhyggjuefni að hér hafi barneignum fækkað allverulega.

Við þurfum að ná aðeins til heimilanna. Fram hafa komið hugmyndir um stuðningslán og auknar barnabætur. Vaxtabætur eru nánast horfnar hjá þessari ríkisstjórn af því að Sjálfstæðisflokkurinn er svo á móti þeim. Hvernig gerum við lífið betra fyrir fólk? Ég veit að við þurfum að fjármagna þetta, peningar vaxa ekki á trjánum. Við þurfum að hafa sanngjarnt skattkerfi og um það snýst pólitíkin. Hvert hefur verið forgangsmál þessarar ríkisstjórnar? Það hefur verið lækkun bankaskatts og erfðafjárskatts, breytingar á fjármagnstekjuskatti þannig að hann lækkar og lækkun veiðileyfagjalda. Þá hefur verið lækkaður sérstakur skattur á það þegar fyrirtæki kaupa stór skip. Það eru skattalækkanir sem gleymast ekki.

Fyrst ég nefni veiðileyfagjöldin þá er fróðlegt að skoða hvernig þau voru þegar þessi ríkisstjórn tók við og í hvað þau stefna á næsta ári þegar ríkisstjórnin fer frá. Þau hafa lækkað um 30% á kjörtímabilinu. Þau hafa farið niður ár frá ári en hækka aðeins á næsta ári. Alltaf var sagt að þau væru afkomutengd. Afkoman í sjávarútvegi hefur ekki versnað um 30% á þessum tíma, það get ég sagt ykkur. Það er mjög sjokkerandi og afhjúpandi að arðurinn sem sjávarútvegsfyrirtækin greiða eigendum sínum og fjölskyldum hefur á hverju einasta ári verið hærri en veiðileyfagjöldin. Munum að veiðileyfagjöldin eru aðgöngumiði að einum bestu og gjöfulustu fiskimiðum jarðar vegna þess að þjóðin á fiskveiðiauðlindina, ekki einstök fyrirtæki eða fjölskyldur. Ef veiðileyfagjöldin hefðu verið jafn há allt kjörtímabilið og þau voru þegar þessi ríkisstjórn tók við hefði ríkisstjórnin fengið 15 milljörðum meira í ríkiskassann.

Ég hef haldið margar ræður um veiðileyfagjöld. Sem dæmi um það hvernig ástandið hefur batnað hjá sjávarútveginum hefur eigið fé aukist um 60% á fimm árum. Samt hafa veiðigjöldin lækkað. Arðgreiðslurnar, þegar búið er að greiða allan kostnað og alla skatta, greiða tekjuskatt af hagnaði, voru yfir 60 milljarðar á fimm árum. Við sjáum að fjármunir sem renna til ákveðinna fjölskyldna og fyrirtækja í þessu landi eru svo miklir að þetta er farið að smitast í aðrar greinar hagkerfisins. Samþjöppunin og eignarhald þess mikla auðs sem er orðinn til í sjávarútveginum er farið að fara í aðrar greinar hagkerfisins. Það er áhyggjuefni. Þetta eru svo gríðarlegir fjármunir fyrir lítið samfélag, samþjöppun er næg fyrir á þessum fákeppnismarkaði sem við búum við, að við þurfum ekki að búa við þetta. Og í hvert einasta skipti sem maður opnar munninn um veiðileyfagjöld er sagt: Þið ætlið að drepa litla útgerðarmanninn, hvað með litlu fyrirtækin úti á landi? Það er enginn að tala um þau, herra forseti. Látum tölurnar tala sínu máli. 30 stærstu útgerðirnar greiða 80% veiðileyfagjaldsins. Við erum að tala um stórútgerðirnar. Það gengur ekki alltaf fyrir stórútgerðirnar, sem eru risastórar, sumar meira að segja á evrópskan mælikvarða, að fela sig á bak við lítil útgerðarfyrirtæki á Vestfjörðum. Við erum ekki að tala um að auka sérstaklega álögur á þau fyrirtæki, það er augljóst. En hagsmunagæslan er svo grímulaus þegar kemur að sjávarútveginum að þjóðin er löngu búin að sjá þetta.

Herra forseti. Ég fór aðeins í umhverfismálin. Ég tek út einn punkt hérna: Stundum finnst mér eins og fólk hafi ekki alveg lesið fylgiskjölin með breytingartillögunum. Ég hvet almenning og ekki síst fjölmiðla til að skoða fylgiskjölin því þar sjáum við breytingar á einstökum liðum. Ég er gagnrýninn á þessa ríkisstjórn varðandi umhverfismálin og það er áhugavert, og eiginlega dapurt, að sjá að framlög til náttúruverndar, skógræktar og landgræðslu lækka á næsta ári. Það er þvert á það sem við höfum heyrt ráðherrana segja. Þetta er í fylgiriti þeirra eigin fjárlaga. Verið er að lækka framlög til Samkeppniseftirlitsins á tímum þar sem samþjöppun mun hugsanlega aukast vegna erfiðleika í atvinnulífinu. Veit fólk það? Verið er að lækka fjárframlög til Ríkisútvarpsins. Voru Vinstri græn og Framsóknarmenn kosnir til að lækka framlög til Ríkisútvarpsins? Það er lækkun upp á 160 milljónir. Uppsagnir eru nú þegar hafnar þar. Þetta er bara dæmi um að skilaboðin eru skýr þegar kemur að fjármununum.

Menning og listir, hvað segir BHM um þær? BHM segir í umsögn, með leyfi forseta:

„Í ljósi þessa er það nokkurt áhyggjuefni að dregið er úr rekstrarframlögum til styrkja á sviði lista- og menningar í fjárlögum 2021.“

Landssamband ungmennafélaga segir að menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál megi ekki við skerðingum sem þessum, hvað þá á tímum sem þessum. Ég fagna því að íþróttastyrkirnir komi inn en skoðum fjármálaáætlunina, töfluna hérna, þessa ágætu, sem ég lifi fyrir. Einn af fáum málaflokkum þar sem er beinlínis krónutölulækkun á næstu fimm árum er hvaða málaflokkur? Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsstarf. Eltum bara peningana. Þá sjáum við hvaða pólitík nær í gegn og nær eyrum ráðherranna.

Samgöngumálin, hér er tafla yfir næstu fimm ár, þar er 31% lækkun á fimm árum, frá 2021–2025. Veit fólk það? Framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina frá 2021–2025 lækka um 23%. Við erum komin í fjármálaáætlunina sem verður væntanlega til umræðu í næstu viku en þetta tengist allt.

Herra forseti. Ég hef áhyggjur af mörgu eins og heyra má. Hlutverk mitt hér er að beita aðhaldi og benda á það sem betur má fara. Ég er í alvöru að reyna að brýna þessa ríkisstjórn til góðra verka. Í andsvari mínu við formann fjárlaganefndar áðan gerði ég aðhaldskröfuna að umtalsefni. Er ekki skrýtið að gera aðhaldskröfu til sjúkrahúsa, skóla og hjúkrunarheimila? Aðhaldskrafan til heilbrigðiskerfisins er 2 milljarðar. Er fólk í alvöru að segja að heilbrigðiskerfið muni ekki um 2 milljarða? Og í ofanálag er eldri halli Landspítalans upp á tæpa 4 milljarða. Landspítalinn sendi bréf til okkar í nefndinni og útlistaði hagræðingaraðgerðirnar. Formaður fjárlaganefndar sagði að þessi halli, ef honum yrði dreift á þrjú ár, myndi ekki þýða neinar breytingar. Í bréfinu til nefndarinnar eru bara víst útlistaðar breytingar. Það á að breyta kvenlækningadeildinni vegna hagræðingar næsta árs, loka endurhæfingardeildinni, og efla á móti dagdeildina reyndar, en það á að loka endurhæfingardeildinni og draga úr ómunum á hjartarannsóknastofu. Þetta eru svona 20 aðgerðir fyrir næsta ár. Við hefðum svo auðveldlega, með einu pennastriki, getað sagt: Landspítalinn þarf ekki að vinna upp þennan 4 milljarða kr. halla vegna þess að við höfum gert það áður. Við ákváðum 2017 að gera einmitt nákvæmlega það, áður en þessi ríkisstjórn tók við. Það hefur oft verið gert.

Landspítalinn ræður ekki eftirspurn eftir heilbrigðisþjónustu. Við veikjumst eða slösumst burt séð frá því hvað er sett í fjárlög. Það er eins og ríkisstjórnin gleymi því stundum. Landspítalinn, sem er endastöð íslensks heilbrigðiskerfis, þarf að taka við okkur þó að það kosti eitthvað. Þess vegna er halli. Þar er 4 milljarða kr. halli því við höfum verið að skammta of naumt í þau verkefni sem hann fæst við. Það er ekki eins og Landspítalinn sé að gera einhvern óþarfa. Það er ekki tilfellið. Það veit fólk á Landspítalanum og aðhaldskrafan er svo mikið stílbrot. Á næsta ári er engin aðhaldskrafa á dómstóla. Af hverju vill þessi ríkisstjórn hafa 0% aðhald á dómstóla en setja aðhald á sjúkrahús á næsta ári? Af hverju vill þessi ríkisstjórn setja aðhaldskröfu á spítalana á næsta ári en ekki eftir tvö ár? Þá fer aðhaldskrafan í núll. Maður hefði haldið að þarna hefði verið hægt að fresta aðhaldskröfunni. Ef menn eru svo hrifnir af aðhaldskröfum, af hverju gerum við þær ekki frekar eftir tvö ár?

Við erum búin að þenja heilbrigðiskerfið eins og hægt er vegna faraldursins. Spítalinn hefur flakkað á milli neyðarástands, hættuástands, hættustigs, neyðarstigs og óvissustigs. Eru þetta skilaboðin sem ríkisstjórnin er tilbúin að bera á borð? Við vorum öll kosin 2017 til að setja meiri fjármuni í heilbrigðiskerfið. Hver er aukningin á milli áranna 2020 og 2021? Þetta er frá Landspítalanum sjálfum, það eru 947 milljónir í raunaukningu til Landspítalans. Er það mikið eða lítið? Tölur þurfa samhengi. Raunaukningin í Landspítalann á næsta ári er 1,4%. Nú spyr ég: Finnst fólki það vera bylting og átak í heilbrigðismálum að auka fjármuni til Landspítala Íslands um 1,4%? Mættu þingmenn stjórnarflokkanna á kosningafundi og sögðu: Ég ætla að setja 1% aukalega í Landspítalann milli ára? Nei, að sjálfsögðu ekki, herra forseti. Mér finnst þetta stórmál varðandi aðhaldskröfuna. Sagt er á móti að aðhaldskrafan sé svo lítil, svo lág upphæð. Ef þetta er svona lítið, af hverju tökum við ekki bara kröfuna út? Ef þetta er svona lítið, af hverju erum við að láta Landspítalann glíma við gamlan halla sem kallar á hagræðingaraðgerðir á næsta ári í 20 liðum? Þetta vissi meiri hlutinn.

Við höfum haft þrjá mánuði til að stússast í þessu frumvarpi og hitt nánast alla. Breytingartillögurnar eru ekki merkilegar. Förum aðeins yfir þær. Í fyrsta lagi koma allar breytingartillögurnar frá ríkisstjórninni, 53 milljarðar koma frá ríkisstjórninni. Nefndin bætir 2 milljörðum við. 55 milljarðar, gott og vel, þetta er há tala. Brjótum þetta aðeins niður. Helmingurinn af þessum breytingartillögum eru hinir svokölluðu viðspyrnustyrkir og hlutabótaleiðin sem er margbúið að kynna á blaðamannafundum. Síðan er að finna þarna fjármuni, svo ég sé nú aðeins jákvæður líka, til að mæta aukinni aðsókn í skóla, gott mál. Þarna eru íþróttastyrkir, gott mál, fjármunir til að kaupa bóluefni, að sjálfsögðu gott mál, auknar sanngirnisbætur vegna illrar meðferðar á stofnunum ríkisins, gott mál, einstaka smáar félagslegar aðgerðir, 1 milljón upp í 40 hingað og þangað, gott mál. En hvað vantar í breytingartillögurnar? Hvað vantar í þennan 55 milljarða kr. breytingartillögupakka? Í rauninni er ekkert sett til viðbótar í breytingartillögum til aldraðra og öryrkja. Samfylkingin vill að sjálfsögðu taka undir þá kröfu sem eldri borgarar hafa sett fram um að þeir fái sömu hækkun og aðrir hópar fengu í lífskjarasamningnum. Við erum með breytingartillögu til að mæta því að fullu leyti að eldri borgarar fái tæplega 16.000 kr. hækkun í staðinn fyrir 9.000 kr. hækkun. Af hverju er það ekki bara lagað? Það eru 45.000 eldri borgarar sem ættu að taka eftir atkvæðagreiðslunni um fjárlög þegar þingheimur greiðir atkvæði um breytingartillögu Samfylkingarinnar um að setja aukna fjármuni til eldri borgara svo hægt sé að tryggja að sá hópur fái þarna 15.750 kr. sem hann kallar eftir og á skilið.

Í raun er ekkert sett til viðbótar í breytingartillögum til öryrkja umfram það sem er vegna fjölgunar þeirra. Talan hækkar af því að öryrkjum er að fjölga, og eldri borgurum. Hvar er raunaukningin sem við erum alltaf að kalla eftir og Öryrkjabandalagið hefur ítrekað bent á? Hér er umsögn um fjárlagafrumvarpið frá Öryrkjabandalaginu, þetta er ekki frá stjórnarandstöðunni. Öryrkjabandalagið segir um þetta fjárlagafrumvarp:

„Við erum skilin eftir. Það eru okkar fyrstu viðbrögð. Og það er vond upplifun. Og það er ljóst að áfram ríkir sú helstefna að halda fólki í fátækt.“

Þetta segir Öryrkjabandalag Íslands um fjárlagafrumvarp sem ráðherrar og einstakir þingmenn eru alltaf að stæra sig af að sé svo frábært. Hvað segir Þroskahjálp um fjárlagafrumvarpið?

„Verði frumvarpið og áætlunin samþykkt óbreytt af Alþingi þýðir það að örorkulífeyrisþegar dragast enn meira aftur úr hvað lífskjör varðar og eru dæmdir til áframhaldandi fátæktar.“

Það er ekki hægt að segja þessum hópi endalaust að búið sé að gera svo mikið fyrir hann, eins og stjórnarmeirihlutinn gerir alltaf. Hvert er markmið okkar í þessum sal? Það er að auðvelda fólki lífið. Við gerum það með sanngjarnari útdeilingu á sameiginlegum auði og fjármunum sem við innheimtum með skatttekjum eða þjónustugjöldum að uppistöðu. Fjárlögin eru 1.000 milljarðar. Hvernig stendur á því að þessir hópar eru í stöðugu strögli að ná endum saman? Öryrkjar eru sérstakur hópur að því leyti að við ákveðum kjör þeirra. Enginn kýs örorku. Við ákveðum upphæðirnar sem þetta fólk neyðist til að lifa á.

Við erum tíunda ríkasta land í heimi þrátt fyrir þessa kreppu. Við getum svo sannarlega tekið betur utan um þessa hópa. Í gær birtist ótrúlega áhugavert svar við fyrirspurn Loga Einarssonar til Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um eignastöðu. Ég hef ótrúlegan áhuga á þessu. Ég hef talað lengi um það hvað eignaójöfnuður á Íslandi er mikill. Tekjujöfnuðurinn er tiltölulega mikill. Það grípur ríkisstjórnin alltaf og segir að tekjujöfnuðurinn sé talsvert mikill á alþjóðavísu. Hann er það samkvæmt Gini-stuðlinum. Lítum á eignaójöfnuðinn. Hann er mikill á Íslandi á alþjóðavísu. Ríkustu fimm prósent Íslendinga, uppistaða þeirra kýs Sjálfstæðisflokkinn, eiga yfir 40% af hreinum eignum í landinu a.m.k. Þau eiga reyndar meira því hlutabréf þeirra eru skráð á nafnvirði en ekki markaðsvirði. Svo er þetta hópur sem á hugsanlega fjármuni á erlendum mörkuðum og í erlendum skattaskjólum. Tökum bara ríkasta prósentið, eða 0,1%, þessar tölur sýna svo vel, svart á hvítu, að í þessu landi búa tvær þjóðir. Þetta er þjóð hinna ofurríku sem fær iðulega aukið tillit og jafnvel skattalækkanir frá þessari ríkisstjórn. Ég nefndi sérstaklega forgangsatriði þessarar ríkisstjórnar í skattamálum, hvort sem það er erfðafjárskattur, fjármagnstekjuskattur, bankaskattur, stimpilgjöldin á stóru skipunum, veiðileyfagjöldin. Þetta eru skattar eða gjöld sem hinir ríku greiða fyrst og fremst. Við þurfum ekki, herra forseti, að halda þessum hópum, öryrkjum og eldri borgurum, námsmönnum, sjúklingum eða fátæku fólki, í þeirri stöðu sem þeir eru í. Það eru pólitískar ákvarðanir. Það er hægt að hafa miklu sanngjarnara skattkerfi til að fjármagna það sem til þarf.

Í breytingartillögum fjárlaganefndar er ekkert aukið í nýsköpunarmálin eða fjárfestingar til atvinnusköpunar. Þá er nú ekki úr háum söðli að detta til að byrja með. Ekkert er sett til sveitarfélaganna í breytingartillögunum, ekkert bætt í loftslagsmálin eða umhverfismálin. Reyndar er bætt aðeins í umhverfismálin. Ég ætla að nefna hvað það er, það er mjög sérkennilegt. (WÞÞ: Sóknaráætlanir.) Það er bætt í sóknaráætlanir, já, 100 milljónir í sóknaráætlanir en í umhverfismálin eru settar, takið eftir þessu, 80 milljónir til minkabænda. Að það sé umhverfismál er mér hulið en það sýnir svolítið forgangsröðina. Ég hef talað mjög skýrt fyrir því að við eigum að hætta minkarækt, hún er barn síns tíma, í minkarækt á Íslandi eru 24 störf. Það er enginn markaður fyrir þetta og við eigum bara að hjálpa þessum örfáu bændum að hætta, við eigum bara að borga þá út, svo ég tali hreina íslensku. Það er fáránlegt árið 2020 að rækta dýr á svona stóru plássi eins og tvenn fjárlög eru út af feldinum þeirra. Það er ekki eins og feldurinn sé hliðarafurð vegna kjötframleiðslu. Við borðum ekki minka. Við erum að rækta minka svo við getum fláð þá og sett í pelsa. Pelsar eru ekki nauðsynjavara og við eigum að hætta þessu. Svo koma fregnir um stökkbreytta veiru sem hefur núna í Danmörku farið frá manni til minks og aftur til manns. Það eru bara aukarök fyrir því að við eigum að hætta þessu. Auðvitað hefur minkarækt á Íslandi minnkað mjög mikið en mér finnst bara allt í lagi að tala mjög skýrt hér. Við þurfum ekki á minkarækt að halda, og þess vegna er sérkennilegt, sérstaklega kannski frá ríkisstjórn Vinstri grænna, að halda þessu á lofti. Hún setur 80 milljónir til minkabænda í breytingartillögum sínum en setur svo að sjálfsögðu líka 50 milljónir í fjáraukalögin sem við afgreiðum í næstu viku.

Við skulum setja þessar 80 milljónir til minkabænda í breytingartillögunum í samhengi. Ríkisstjórnin er að setja í breytingartillögum sínum sömu upphæð til minkabænda og hún tímir í að setja í styttingu biðlista hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, úr 340 börnum í 200. Það verða áfram biðlistar. Hvað gerir Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins? Hún tryggir að börn með alvarlegar þroskagreiningar fái greiningar og úrræði. Ætti þetta ekki að vera fremst á forgangslistanum? Lagðar eru 80 milljónir í að stytta biðlistana. En af hverju útrýmum við ekki biðlistum þarna? Ég er bara að setja þetta í samhengi. Forgangsröðunin er svo vitlaus. Þetta kemur úr sama potti. Það er margt í ríkisrekstri okkar sem kallar ekki á mikla fjármuni en við getum hæglega bætt. Ég hefði haldið að Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem þjónustar börn með greiningar ætti að vera ansi ofarlega og á undan mörgu öðru sem ég hef talað um, ekki bara minkabændunum.

Síðastliðið vor var þingið rosalega montið af sjálfu sér því að við samþykktum öll tillögu sem 23 þingmenn fluttu undir forystu Viðreisnar um að hér ætti að fjármagna sálfræðiþjónustu. Það er frábært mál, við eigum að vera löngu búin að innleiða sálfræðiþjónustu inn í kerfið okkar. Talað var um að það myndi kosta 1–2 milljarða. Gerum þetta. 1–2 milljarðar skipta máli. Vísbendingar eru um að fólki í þessu landi líði verr. Við þurfum að tryggja gott aðgengi að sálfræðiþjónustu. Á tólf daga fresti er framið sjálfsvíg á Íslandi. Á öðrum tólf daga fresti deyr annar einstaklingur úr ofneyslu lyfja. Við sjáum sjálfsskaða unglinga í hundraðatali. Við erum að sjá hér Norðurlandamet, jafnvel heimsmet í notkun á þunglyndislyfjum og kvíðastillandi lyfjum. Niðurgreiðum sálfræðiþjónustu. En hvað er í breytingartillögunum til að tryggja það? Ekkert. Fjármálaráðherra sagði í vor um leið og við samþykktum málið — þingið vill niðurgreiða sálfræðiþjónustu — að þingið þyrfti að tryggja fjármögnun. Fjárveitingavaldið er hér. Við erum ekki að tryggja fjármögnun. Við fáum þau svör að heilbrigðisráðherra sé tilbúinn til að setja 100 milljónir í verkefnið úr sjóði sem ráðuneytið hefur. Það er langt frá því sem var talað um. Niðurgreiðslan átti að kosta 1–2 milljarða. 100 milljónir úr sjóði í heilbrigðisráðuneytinu til að niðurgreiða sálfræðiþjónustu er ekki nóg, því miður. Ef við verjum auknu fjármagni í það myndum við meira að segja spara annars staðar þannig að það er margt sem betur má fara í þessu fjárlagafrumvarpi.

Herra forseti. Ég held að ég hafi farið yfir það helsta. Við í Samfylkingunni erum með 13 breytingartillögur sem verða hér til atkvæðagreiðslu á morgun eða laugardaginn. Það eru allt atriði sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa tekið undir. En hvað verður um breytingartillögur okkar? Þær eru iðulega felldar af því að þær koma frá stjórnarandstöðunni, sem 47% þjóðarinnar kusu. Við erum með umboð eins og þið, hv. þingmenn, en þetta verður áhugaverð atkvæðagreiðsla.

Herra forseti. Það er auðvelt að gagnrýna, ég veit það. Það er hlutverk okkar en engu að síður hefur Samfylkingin líka kynnt uppbyggjandi tillögur. Við erum með tillögur sem við kennum við ábyrgu leiðina þar sem við erum í alvörunni með markvissar og raunhæfar tillögur til að hjálpa okkur upp úr þessari kreppu. Það eru tillögur sem lúta að grænum skrefum, lúta að því að taka utan um þá hópa sem vantar hjálp, ekki síst á tímum kreppu, tillögur sem felast í fjárfestingu í opinberum störfum og einkarekstri. Við ætlum að veðja á kvikmyndaiðnað, við ætlum að veðja á nýsköpun, við ætlum að veðja á alls konar sprota. Þetta er metnaðarfullt og stórt plagg sem mér finnst að ríkisstjórnarflokkarnir ættu að taka til skoðunar því okkur er tíðrætt um að við séum í sama báti en stórir hópar í samfélaginu upplifa það ekki þannig. Ef við erum í sama báti þá skulum við sýna það í verki og sýna það með tölunum. Hlustum á fólkið sem finnur á eigin skinni hvernig er að draga fram lífið á Íslandi á 260.000 kr. eða minna á mánuði. Það eru okkar skjólstæðingar og kjósendur og það á að vera okkar markmið. Markmið okkar í stjórnmálum á að vera að auðvelda fólki lífið, gera lífið ódýrara og fjölbreytilegra. Þau markmið eru svo langt í frá uppfyllt ef við skoðum einmitt fjárlagafrumvarp þessarar ríkisstjórnar eða fjármálaáætlun.