151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:31]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég var mjög hreinskilinn hvað það varðar að fjármagna þá hluti sem ég var að tala um. Við tökum það að láni. Peningarnir vaxa ekki á trjánum, þeir verða til í atvinnulífinu. Við þurfum að vaxa upp úr þessari kreppu. Við þurfum að fjárfesta í okkur sjálfum og í atvinnulífinu. Á það hefur skort, ekki bara að mínu mati heldur margra annarra hagsmunaaðila. En, já, við eigum að auka lántökur okkar. Það er hagstætt að gera það. Það er verið að gera það. Ég veit að hallinn er mikill en ég er að segja að aðstæður kalla á að hann verði aðeins meiri svo að við komumst fyrr upp úr þessu, svo að við getum auðveldað lífið hjá fólki sem á því þarf að halda.

Ég veit að það er vel meinandi fólk í öllum flokkum, að sjálfsögðu, og fólk er að reyna að gera sitt besta á erfiðum tímum. Þess vegna finnst mér svo sorglegt að við náum ekki meira saman í að hlusta á þá aðila sem eru í alvöru að ráða okkur heilt. Setjum meiri pening í atvinnuleysisbætur til að auðvelda fólki lífið, setjum meiri pening í nýsköpun og í umhverfismálin, fjölgum störfum meira en hér er gert. Sú litla aðgerð að fullfjármagna Tækniþróunarsjóð kostar 5 milljarða, það fer bara ekkert á hausinn við að setja 5 milljarða í Tækniþróunarsjóð og fullfjármagna hann. Hugsið ykkur hvað það væri flott. Þið fáið allt kredit ef það skref verður stigið.

Varðandi menninguna, við eigum að veðja meira á menninguna. Ég er sammála hv. þingmanni um að við eigum að veðja á menninguna. Þess vegna skil ég ekki, ég er búinn að halda tíu ræður um það, af hverju endurgreiðsluhlutfallið í kvikmyndagerð hefur ekki verið hækkað. Þetta er smávegis á ská en það kannast allir við þessa umræðu í þessum sal. Þetta er eitt pennastrik, myndi hafa margfeldisáhrif varðandi störf og aukna listsköpun og annað slíkt. Það eru svo mörg dauðafæri sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa fengið (Forseti hringir.) en hafa ekki nýtt. Þeir hafa á bak við sig pólitískan vilja þjóðarinnar og nánast allra flokka hér til að gera meira.