151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, ég vil ekki bæta endalaust við en ég gat um grundvallarþætti sem við hefðum átt að bæta meira í. Það er ekkert í breytingartillögunum til aldraða eða öryrkja umfram fjölgun þeirra. Það er ekkert í breytingartillögunum til nýsköpunar, fjárfestingar eða atvinnusköpunar. Það er ekkert í breytingartillögunum til sveitarfélaganna. (SÞÁ: Jú.) Ekki í breytingartillögunum. Og það er enn verið að halda í aðhaldskröfuna á sjúkrahús og hjúkrunarheimili. Það er ekki verið að bæta í umhverfismálin fyrir utan styrkinn til minkabænda sem er ekki umhverfismál fyrir fimm aura. Það sem meiri hluti fjárlaganefndar gerir, umfram það sem ríkisstjórnin tefldi fram, er að veita aukna fjármuni til Þjóðlagaseturs, til Flugsafns Íslands, til Oddafélagsins, til Prentsögusetursins. Það er líka einhver rannsóknarbátur í Vestmannaeyjum. Það er aukið fjármagn til varnarmála sem er kannski áhugavert fyrir Vinstri græna. Með þessum tillögum er ekki verið að mæta þeirri gagnrýni sem við fengum í umsögn eftir umsögn. Hv. þingmaður veit það alveg.

Að setja 3 milljónir, 6 milljónir og 5 milljónir hingað og þangað um landið er ekki að mæta þeim pólitísku áskorunum og gagnrýnispunktum sem við fengum. Hvað fengum við, um 50 umsagnir? Þær voru frá stórum aðilum, allt frá verkalýðsfélögum, yfir í Öryrkjabandalagið, yfir í Landssamband eldri borgara. Þetta eru hópar sem eru ekki ánægðir með afrakstur meiri hlutans. Þetta eru ekki hópar sem kalla endalaust eftir fjármunum. En það er verið að kalla eftir auknum fjármunum, ekki síst á þessum tímum, og það er réttlætanlegt að taka lán fyrir þeim. Það er enginn að tala um að hækka skatta. Önnur ríki eru að gera þetta. Við erum að fá ráðleggingar um að auka lántökur og taka lengri tíma til að greiða niður hallann. Það getum við gert. Ríkissjóður hefur fullt færi á því að gera það, milda höggið og hugsa svolítið (Forseti hringir.) til framtíðar, fjárfesta í fólki og fyrirtækjum. Á það hefur vantað og það eru ekki bara orð mín sem staðfesta það. (Forseti hringir.) Það eru orð hinna (Forseti hringir.) sem hafa skoðað þetta frumvarp, (Forseti hringir.) fyrir utan þetta þinghús.