151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Þetta er búin að vera mjög viðamikil vinna og mjög áhugaverð að mörgu leyti, sérstaklega þegar maður horfir til þess að þingi var seinkað til 1. október til að gefa ríkisstjórninni svigrúm til að koma með stefnu, nýja fjármálaáætlun og með stefnu sína í fjármálum hins opinbera og þar af leiðandi var því líka frestað að fjárlög kæmu fram. Síðan einhverjum sex mánuðum eftir að kófið hefst og fresturinn til að leggja fram fjármálaáætlun með stefnu stjórnvalda, sem er þar hluti af pakkanum, þá sér maður ekkert í þeirri stefnu um hvernig við komumst út úr því ástandi sem við erum í núna. Maður hefði haldið að það væri skylda stjórnvalda að setja stefnu fyrir okkur út úr ástandinu sem við erum í, ekki bara stefnu sem er tekin um að grípa allt eftir því sem það fellur. Það er viss tegund af krísustjórnun, að sjálfsögðu, og það þarf að gera líka en aðalatriðið er fyrir okkur að horfa til framtíðar og segja: Þetta er holan sem við erum að detta ofan í núna. Það er allt í lagi af því að við munum komast upp úr henni út af þessu og þessu og þessu. Af því að við leggjum áherslu á nýsköpun verður arðurinn og hagkvæmnin til þess að við getum mokað ofan í holuna aftur. En það eru engar sérstakar slíkar útskýringar.

Í fyrstu fjáraukalögunum voru lagðir um 1,5 milljarðar, eitthvað því um líkt, í nýsköpun sem er gott og blessað út af fyrir sig. Á sama tíma voru lagðir 3 milljarðar í markaðssetningu fyrir ferðamenn. Það bar vott um það sem stjórnvöld bjuggust við að myndi gerast, að þetta yrði snögg og skörp dýfa sem við myndum fljótlega komast upp úr aftur. Það var rosaleg bjartsýni. Miðað við þau lög sem við störfum eftir, lög um opinber fjármál, þá eiga stjórnvöld að sýna ákveðna varfærni. Þau eiga að hafa gagnsæi og stöðugleika sem grunngildi. Með það að sjónarmiði hefði verið betra að búast við því besta en undirbúa sig undir það versta. Það sem ríkisstjórnin gerði hins vegar var einfaldlega að búast við því besta og undirbúa sig fyrir það besta. En sú varð ekki raunin heldur gerðist það sem margir höfðu spáð fyrir um, það kom kreppa í kjölfarið. Það sem sagan segir okkur líka er að það er ekkert óalgengt að eftir eina bylgju í svona faraldri komi önnur, sérstaklega þegar það er ekki fyrirsjáanlegt að bóluefni verði komið, sem merkilegt nokk hefur staðist nokkurn veginn miðað við fyrstu spár hjá alþjóðlegum aðilum, að það tæki u.þ.b. ár að fá bóluefni. Það hefur staðist og það ferli hefur heppnast einstaklega vel. Það að stjórnvöld gerðu ekki ráð fyrir því að þau þyrftu að horfa upp á þetta ástand í heilt ár er mjög ámælisvert og það endurspeglast í þeirri fjármálaáætlun og fjárlögum sem við erum með hérna. Ríkisstjórnin ætlar einfaldlega að halda að sér höndum og bíða eftir að þetta klárist. Þá fari allt af stað aftur og verði eins og það var áður en faraldurinn barst hingað.

Þetta er ekki líklegt til árangurs, alls ekki. Það þarf að huga að þeim gjám og bilum sem fólk er að detta ofan í, fólk hefur ekki verið gripið. Það þarf að huga að framtíðarnýsköpun og það er ekki gert með skipulegum hætti, hvorki í fjármálaáætlun né í þessum fjárlögum. Við spurðum í fjárlaganefnd um stöðu mála varðandi t.d. nýsköpunarsjóði og það kom fram hjá Rannís að þar eru nokkrir sjóðir undir, eins og Rannsóknasjóður, Tækniþróunarsjóður, Innviðasjóður, loftslagssjóður. Farið var yfir hversu mikið var sótt um árið 2019 og 2020 í þá sjóði og hversu mikið var veitt úr þeim. Í Rannsóknasjóði voru 19% umsagna samþykktar, sem er nokkuð gott en ekki samkvæmt því sem mælt er með því að talað er um að 20–25% umsókna séu mjög góðar og þar með styrkhæfar. Ef árangurshlutfallið fer undir 20% er verið að hafna góðum umsögnum. En í því ástandi sem við erum í þá er alveg réttlætanlegt að ganga lengra, að teyga sig lengra og fara víðar í nýsköpun, kasta netinu á fleiri stöðum. Rannsóknasjóður er einmitt sérstaklega mikilvægur af því að hann undirbýr þær grunnrannsóknir sem liggja undir, sem skila árangri næsta áratug eða jafnvel lengur. Undirbúningurinn fyrir batann til langs tíma liggur t.d. í sjóðum eins og Rannsóknasjóði.

Síðan er það Tækniþróunarsjóður sem er með 13% úthlutunarhlutfall á árinu 2020. Þar var sótt um fyrir 9,4 milljarða og 8,2 milljörðum var hafnað, þ.e. veittur 1,1 milljarður. Þær upphæðir sem við lögðum til í minni hlutanum hefðu dekkað góðan hluta af þessu ásamt hinum sjóðunum líka og þau tækifæri sem þar eru til staðar hefðu verið komin af stað með betri stoð undir atvinnu heldur en nú sést. Fjallað er um styrki í Tækniþróunarsjóði til þróunarstarfs og rannsókna sem miða að nýsköpun í atvinnulífinu og að árangurshlutfall sjóðsins hafi verið nokkuð lágt undanfarin ár. Æskilegt árangurshlutfall sé á bilinu 25–30%, en raunin hafi aðeins verið 13% á árinu. Þarna eru tækifæri, glötuð tækifæri, tækifæri sem ríkisstjórninni bauðst að taka en sleppti.

Svo er það Innviðasjóður sem veitir styrki til kaupa á tækjum, gagnagrunnum, hugbúnaði, framleiðslutækjum og ýmsu svoleiðis. Þar er þetta aðeins betra, 38% umsókna samþykktar. Við erum samt bara tala um 340 milljónir. Þetta er svipað í loftslagssjóði, 161 milljónir veittar, eða 13% af því sem sótt var um. Þarna birtist áherslan á nýsköpun í loftslagsmálum okkur mjög augljóslega.

Þetta er það sem mig langaði til að fjalla aðeins um varðandi nýsköpunarframtíðina. Þarna voru vissulega tekin skref en tækifærin voru augljóslega fleiri og og miðað við aðstæður, jafnvel þótt ástandið hefði bara varað í stuttan tíma, hefði verið góð hugmynd að grípa þau nýsköpunartækifæri sem lágu á borðinu fyrir framan okkur. Það var ekki gert og ég harma þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar.

Í nefndaráliti mínu legg ég fram nokkrar einfaldar breytingar. Það hefði vissulega verið hægt að fara nákvæmlega í gegnum öll málefnasviðin og atriðin þar en sökum þess að bæði fjármálaáætlun og fjárlög eru í rauninni mjög ógagnsæ fyrirbæri, það er mjög erfitt að sjá hvort kostnaður sé í rauninni réttur miðað við þjónustukröfur sem búist er við, þá tók ég þá ákvörðun í byrjun að taka augljósu og einföldu breytingartillögurnar sem er ekkert hægt að deila um að þörf sé á. Þær eru svo sem fleiri. Það væri auðveldlega hægt að fara í sveitarfélögin. Það er hægt að gera ýmislegt annað þar líka sem væri hægt að útfæra á annan hátt þannig að við látum slíkar tillögur eiga sig eins og er. Þær þarfnast stærra samtals.

Þær breytingartillögur sem ég fjalla um í nefndaráliti mínu eru í fyrsta lagi 120 milljónir til Persónuverndar. Það kemur fram í ársskýrslu og bréfi forstöðumanns Persónuverndar að þörf sé á tíu stöðugildum til að framfylgja þeim lögum sem Alþingi hefur sett. Alþingi kemur saman og setur persónuverndarlög sem leggja ákveðnar kröfur á kerfið hjá okkur um að sinna þeim réttindum sem fylgja þeirri löggjöf. Það er Alþingi sem biður Persónuvernd um að sinna þessu en fjármagnar það síðan ekki. Ég myndi kalla það ákveðna hræsni, það er ákveðin sýndarmennska fólgin í því að setja lögin en fylgja því síðan ekki eftir með þeirri fjárheimild sem þarf til þess að lögin virki, til að byggja undir þau réttindi sem lögin veita okkur í landinu. Við erum að sýnast með lögunum, réttum fram aðra höndina og segjum að þarna séu ákveðin réttindi varin en hinni hendinni, sem heldur á peningunum, stingum við í vasann og segjum: Nei, þetta þarf ekkert í alvöru, þetta þarf bara á prenti. Þetta eru lög en þegar kemur að því að framfylgja þeim þá sleppum við því.

Næsta breytingartillaga varðar sjúkrahúsþjónustu. Það er vissulega víða ákveðinn skortur í heilbrigðisþjónustukerfinu en við einbeitum okkur sérstaklega að Landspítala – háskólasjúkrahúsi af þeirri einföldu ástæðu að þar er um að ræða vandamál vegna útreikninga sem fjármálaráðuneytið virðist gera. Þegar gerðir eru kjarasamningar fer ráðuneytið í gegnum þá og reiknar sig niður á hvað þeir muni kosta, uppfærir með launa- og verðlagsbreytingum og alls konar svoleiðis til stofnana hvað þeir kjarasamningar þýða í fjárheimildum. En síðan taka stofnanirnar stundum við rangri niðurstöðu. Það gleymdist að taka tillit til einhvers eða það var vanmat, kannski ofmat í sumum tilvikum, en í tilviki Landspítala – háskólasjúkrahúss, miðað við þau gögn sem við höfum séð, virðist hafa verið vanmat á kostnaði vegna kjarasamninga. Það eru önnur atriði þarna undir, t.d. fráflæðisvandinn sem í breytingartillögum ríkisstjórnarinnar tekst loksins næstum því að laga. Það má búast við því að það verði næstum því lagað. Það eru 1.350 milljónir sem eiga að leysa fráflæðisvandann, fara í aukin hjúkrunarrými o.s.frv., sem er samt ekki alveg vitað hvernig á að redda. Það þarf líklega eitthvert húsnæði, en það verður bara afgreitt seinna hvernig á að fara með þessar 1.350 milljónir. Þær eiga alla vega næstum því að leysa fráflæðisvandann. Sá fráflæðisvandi hefur leitt til aukins kostnaðar hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi vegna vangetu ráðuneytanna og ríkisstjórnarinnar við að leysa þann vanda. Það er búið að varpa á spítalann auknum kostnaði vegna þess að stefna stjórnvalda hafði ekki fyrir því að leysa þennan mjög svo fyrirsjáanlegan vanda í mörg ár. Þess vegna hefur kostnaðurinn safnast upp hjá spítalanum, í staðinn fyrir þar sem hann á heima, hjá ráðuneytunum, hjá ríkisstjórninni. Þar af leiðandi leggjum við til að þessi halli sem hefur safnast upp verði einfaldlega strokaður út, að hann falli ekki á rekstur og þjónustu Landspítala – háskólasjúkrahúss á næstu tveimur árum eins og er ætlast til að gerist. Mjög einföld og augljós breyting hvað það varðar.

Þriðja og síðasta breytingartillagan varðar lífskjarasamningana. Nú voru gerðir sérstakir lífskjarasamningar sem aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin hafa stært sig af, talið þetta vera alveg frábæra samninga. Ég er ekki alveg sammála því, t.d. hvað varðar styttingu vinnuvikunnar. Það er eiginlega bara verið að stroka út kaffitímana og færa þá til þannig að fólk taki þá þegar það er búið að vinna að mestu leyti, frekar en að þetta sé endilega stytting vinnuvikunnar. En látum það liggja milli hluta. Aðallega snerust lífskjarasamningar um hækkun lægstu launa, hlutfallslega meiri en hærri launa, með krónutöluhækkun. Í staðinn fyrir að hækka alla um 5% voru allir hækkaðir um 10.000. kr. Þegar sá sem er með 100.000 kr. fær 110.000 kr. í laun, 10% hækkun, þá er það ekki það sama og ef sá sem er með 1 milljón í laun fær 10.000 kr. hækkun, það er bara 1% hækkun. Áhrifin af þessari breytingu, þessari sérstöku ákvörðun um að gera kjarasamninga á þennan hátt, ekki með jafnri hlutfallshækkun heldur krónutöluhækkun, leiðir til þess að hækkunin sem við segjum að eigi að vera 10% verður að meðaltali 5%, þótt hún sé 10% fyrir þá lægst launuðu og kannski 1% fyrir þá hæst launuðu. Gefum okkur bara að það sé þannig. Það þýðir að þegar 69. gr. almannatryggingalaga, sem fjallar um að það eigi að taka mið af almennri launaþróun eða vísitölu neysluverðs, er undir þegar á að hækka bætur, hækka í rauninni framfærslu þeirra sem eru á lífeyri almannatrygginga, örorku eða atvinnuleysisbótum, hækka samkvæmt almennri launaþróun sem er þessi 5% tala en 10% talan eins og hún var fyrir þá lægst launuðu í þessu skáldaða dæmi hjá mér, þá ætti rauntalan, eftir því sem ég komst að við eftirgrennslan, að vera 7,1% en ekki 3,6% eins og hún er fyrir almannatryggingar í fjárlögum. Til þess að ná sömu áhrifum fyrir þá lægst launuðu, fyrir þá sem heyra undir lög um almannatryggingar, ætti hún að vera 7,1%, til að ná sömu krónutöluhækkun. Það er það sem á að endurspeglast í þessum breytingartillögum, að til ná þeim árangri þarf þessa hækkun, til að ná þeim tölum, á pari við lífskjarasamningana.

Það var tekin sérstök ákvörðun um að haga kjarasamningum á þennan hátt, kjarasamningum sem ríkið hefur verið aðili að með ýmiss konar aðgerðum, kjarasamningar þar sem aðilar vinnumarkaðarins komu og kölluðu eftir sérstaklega kröftugri aðkomu stjórnvalda til að hægt væri að leysa þann hnút, það þurfti sérstakri ákvörðun hjá ríkinu til að koma að þessum samningum, vera aðili að því að koma þeim í gang. Sú sama sérstaka ákvörðun er síðan ekki tekin þegar á að tala um framfærslu vegna almannatrygginga. Þá er tekin almenna ákvörðunin samkvæmt 69. gr. almannatryggingalaga um að hækka samkvæmt almennri þróun og hækka þá ekki um 7,1% eins og ætti að gera, eða 10% í skáldaða dæminu mínu, heldur um 5% eða réttara sagt 3,6% eins og er áætlað.

Það eitt og sér er dálítið áhugaverð nálgun á pólitíska stefnu, það er pólitísk ákvörðun að taka sérstaklega ákvörðun um hækkun á lægstu launum í kjarasamningum en taka ekki sömu sérstöku ákvörðun varðandi framfærslu samkvæmt almannatryggingum. Þess vegna er þessi breytingartillaga hjá okkur í Pírötum um að lagfæra þær tölur þannig að þær endurspegli lífskjarasamningana og það sé einhver samhljómur í stefnu stjórnvalda eða alla vega þingsins, af því að við erum með þingbundið lýðræði hérna, við á Alþingi erum með fjárveitingavaldið þegar allt kemur til alls. Ég skil að vissu leyti að svona kerfisfjárlög, þar sem framkvæmdarvaldið fer bara eftir lögum, komi til þingsins, fjárlög þar sem hækkunin er bara 3,6%. Þá er bara verið að fara eftir lögum. Það er fínt, allt í lagi. Það er ekki hluti af stefnu stjórnvalda að hækka umfram. Þetta er bara fjárlagafrumvarp þar sem er verið að fara eftir lögum, þar sem er verið að haka í boxin, það þarf að uppfæra þetta, það þarf að uppfæra launa- og verðlagsbætur, það þarf að uppfæra hitt og þetta, hérna eru bundnu útgjöldin sem var búið að samþykkja í ýmsum lögum o.s.frv. Þannig fjárlagafrumvarp fær þingið sem klórar sér í hausnum og segir: Nei, það var tekin sérstök ákvörðun í lífskjarasamningunum og það þýðir að túlkunin, miðað við lög um almenna launaþróun, er á skjön við þá sérstöku ákvörðun sem var tekin í lífskjarasamningunum. Það er greinilega einhver galli þarna þar sem ekki er tekið tillit til annars konar ákvarðana.

Það gerir það að verkum að ég er með þingmál í vinnslu sem einfaldlega afritar textann eins og hann lítur út varðandi hækkun launa þingmanna og setur hann í staðinn fyrir þann texta sem er í 69. gr., að tekið skuli tillit til krónutöluhækkana á sama hátt. Mjög einfalt en einhverra hluta vegna er ekki farið eftir þessari lógísku hugsun. Þannig að núna fær þingið þetta misræmi fyrir framan sig og ætti að taka ákvörðun út frá fjárveitingavaldi sínu, út frá löggjafarvaldi sínu. Við eigum að sjá það svart á hvítu að 69. gr. laganna passar ekki við framkvæmdina. Það var ákveðin sérstaklega önnur framkvæmd. Það er greinilegur galli í lögunum sem jú, kerfið er vissulega að fara eftir og skila í fjárlögum til okkar, að það sé verið að framfylgja lögum. Við sem erum löggjafarvaldið og fjárveitingavaldið eigum að sjá þennan galla og taka aðra ákvörðun. Ríkisstjórnin gerði það ekki. Ríkisstjórnin getur, umfram það sem er í lögum, tekið aðra stefnu, getur sagt: Já, allt í lagi, þetta er niðurstaða fjárlaga samkvæmt því að framfylgja lögum, uppfylla allar þjónustukröfur og allt það í samræmi við lög, en síðan getur hún sagt: En þetta er samt stefna okkar ofan á það. Og hún gæti verið: Af því að við tökum ákvörðun um að gera þetta svona í lífskjarasamningunum þá ætlum við líka að gera þetta svona í framfærslu samkvæmt almannatryggingum. En ríkisstjórnin gerði það ekki. Nú er komið að þinginu að spyrja sig þessarar spurningar: Á þingið að sjá að það er eitthvað gallað í 69. gr. almannatryggingalaga miðað við það hvernig framkvæmdin fór fram varðandi lífskjarasamninga?

Nú set ég breytingartillögurnar aðeins til hliðar. Ég er með ansi viðamikið nefndarálit, um 20 blaðsíður, ásamt fylgiskjölum. Ég vil beina athyglinni fyrst að fylgiskjölunum en þar á ég við ákveðið vandamál að stríða. Fjárlaganefnd fær til sín umsagnir, fær til sín kynningar ráðuneytanna, fær til sín fjárlagafrumvarpið, sem er alveg gríðarlega ógagnsætt og óaðgengilegt. Til þess að skilja hvað í ósköpunum er að gerast þá spyrjum við spurninga, t.d. af hverju hækkun almannatryggingalaga sé bara 3,6%, af hverju hún sé ekki einhver önnur o.s.frv. Fjárlaganefnd sendir spurningar til ýmissa stofnana og ráðuneyta og svör berast við þeim til fjárlaganefndar sem eru ekki aðgengileg fyrir umsagnaraðila. Þetta eru samt skjöl sem eru vistuð á þann hátt að það ríkir ekki trúnaður um þau. Þau eru í svokallaðri nefndagátt. Þau eru vistuð þar og þingmenn geta nálgast þau. Ef einhver biður með vísun í upplýsingalög o.s.frv. um að fá minnisblöð sem fara frá ráðuneytunum þá fær hann þau að sjálfsögðu. Það sem ég gerði var að taka öll þessi minnisblöð saman og setja þau í fylgiskjal með þessu nefndaráliti, til að gera spurningar fjárlaganefndar og svörin við þeim spurningum aðgengileg fyrir öll, til þess að það sé hægt að fá smá innsýn í það hvernig vinnan er í fjárlaganefnd, sem er önnur en hún lítur kannski út fyrir að vera með lokuðum nefndafundum og fullt af gestum og slíku.

Vandamálið er að formið á fyrirspurnum og svörum getur oft verið gallað. Ef fjárlaganefnd er að senda spurningar til ráðuneytanna eru það yfirleitt nefndarritar sem senda spurningarnar til viðkomandi ráðuneytisstjóra eða sá sem sér um málið fyrir hönd ráðuneytisins. Vandinn birtist síðan þegar svarið kemur kannski bara í tölvupósti. Þá eru það tölvupóstssamskipti með nöfnum og ýmsu svoleiðis en ekki formlegt minnisblað. Þá vandast málið aðeins af því að það er ekki hægt að birta tölvupóstinn sem slíkan í fylgiskjali án þess að fara að klippa og líma og slíkt, sem var ágætlega mikil vinna. Þetta var að gerast á síðustu stundu, við fáum fullt af svörum á síðustu stundu þannig að það eru ekki alveg öll svör eða spurningar í fylgiskjalinu hjá mér, því miður.

Þetta er í rauninni hvatning mín til þess að gera þetta ferli opnara og aðgengilegra og gagnsærra. Þegar fjárlaganefnd er að senda frá sér spurningar þá eiga þær að vera aðgengilegar öllum. Þegar svörin koma eiga þau að vera aðgengileg öllum, af því að svörin skipta oft ýmsa umsagnaraðila, bara fólk úti í bæ, mjög miklu máli. Svörin geta gefið því þá innsýn sem það vantar til að gera athugasemdir við fjárheimildir sem lagðar eru til í fjárlagafrumvarpinu af því að fjárlög og fjármálaáætlun eru mjög ógagnsæ plögg, eins og ég sagði. Þegar þingmenn biðja um nákvæmari svör getur það haft áhrif á það hvernig umsagnir við fáum frá aðilum sem hafa áhuga á viðkomandi málefnasviði eða málaflokki sem spurningin snýst um. En þetta er ekki aðgengilegt núna í rauninni þannig að það verður áhugavert að sjá hvort einhverjir sem hafa áhuga á vinnu þingsins kíkja yfir þær spurningar og svör og skoða hvernig það lítur út. Við klárum ekki fjárlög fyrr en væntanlega í næstu viku þannig að það verður kannski einhver tími til þess að klóra sér í hausnum og taka málið inn á milli 2. og 3. umr. ef það koma einhverjar ábendingar varðandi svörin. Við sjáum til með það.

Ég fjalla í nefndarálitinu mínu dálítið mikið um framtíðina. Við vitum öll að þær áskoranir sem við stóðum frammi fyrir í bæði síðustu og þarsíðustu kosningum voru gríðarlega miklar. Í kjölfar efnahagshrunsins 2007 og 2008 og árin á eftir var ekki mikið hugað að innviðauppbyggingu. Í fjárfestingu hins opinbera vantaði upp á viðhald. Það vantaði upp á þær áætlanir sem voru gerðar í uppbyggingu á samgöngum og ýmsu svoleiðis. Það var einfaldlega þörf á mikilli uppbyggingu. Þetta hef ég kallað innviðaskuld. Þetta skiptir mjög miklu máli af því að í kjölfarið á hruninu, þegar föllnu bankarnir voru gerðir upp og slitabúin skiluðu til ríkisins því sem kom á móti því sem ríkið lagði til þeirra, stofnun nýju bankanna o.s.frv., fór það uppgjör nær eingöngu í endurgreiðslu eða uppgreiðslu á peningalegum skuldum. Peningalegar skuldir eru mjög hentugar, þær eru mjög gagnsæjar upp á ýmislegt að gera, vextirnir á þeim sjást, afborganir o.s.frv., allt mjög aðgengilegt og hægt að sjá hversu mikið slíkar skuldir kosta okkur, þ.e. hver fjármagnskostnaður er, vaxtakostnaður og ýmislegt annað. Það sem er hins vegar mjög ógagnsætt er innviðaskuld. Hversu stór er innviðaskuldin?

Félagasamtök úti í bæ hafa lagt ýmiss konar mat á innviðaskuld í vegakerfinu, ákveðna viðhaldsskuld. Samtök iðnaðarins og fleiri aðilar settu fram töluna 100 milljarða, minnir mig, í samgöngum varðandi viðhald og ýmislegt svoleiðis, þó að ég sé að fara með það eftir minni akkúrat núna. Við sjáum ekki svo auðveldlega hversu stór innviðaskuldin er. Við vitum að hún er þarna. Við vitum að það er mygla í húsnæði sem þarf að klára. Við vitum að Landspítalinn hefur löngum þurft endurbyggingu og betri aðstöðu sem er loksins verið að fara í. Við vitum að þetta er skuld en við vitum ekki hversu mikið hún kostar okkur. Það eru engar greiningar til um það og það er vandamál. Ef við værum með mat á því hversu mikið innviðaskuldin kostar okkur miðað við hversu mikið hreina peningalega skuldin kostar okkur þá gætum við tekið ákvörðun um það hvora skuldinni við ætluðum að greiða niður, hvora skuldin væri hagkvæmara að greiða niður. Það voru vissulega lán með mjög háum vöxtum eftir hrun, lán til þess að bjarga væntanlega lífeyrissjóðunum, með um 9% vöxtum, lán sem væri líklega mjög gott að borga niður umfram einhverjar innviðaskuldir. En það getur líka verið að einhverjar innviðaskuldir kosti okkur svo mikið að það sé meiri ábati fólginn í því að borga þá skuld niður, fara í framkvæmdaverkefni eins og t.d. að byggja nýjan Landspítala, jafnvel nýjan flugvöll, hver veit, á móti því að borga niður aðrar peningalegar skuldir. Við losnum við meiri kostnað og fáum meiri ábata af því að fara í þá framkvæmd en að borga niður sambærilega peningalega skuld. Ef við ætlum að nota það fjármagn sem kom inn vegna slitabúanna eru kostirnir þessir: Eigum við að nota það til að borga niður peningalegu skuldina, sem losar okkur við kostnaðinn sem þar er undir, eða eigum við að fjárfesta í innviðum, sem losar okkur vissulega við viðhaldsskuldina og fleira sem fylgir en býr líka til ábata til framtíðar sem reiknast á móti vöxtunum? Við endurfjármögnum þá bara peningalegu skuldina, viðhöldum henni í því lága vaxtaumhverfi sem hefur verið að þróast. Þessi spurning náði í rauninni aldrei til ríkisstjórnarinnar af því að peningalegu skuldirnar lágu fyrir og innviðaskuldirnar voru ekki einu sinni íhugaðar. Það var á því tímabili sem við á þingi bentum á, og ég benti á það í fjárlaganefnd, að það þyrfti að huga að innviðaskuldinni líka. En við fengum aldrei neinar greiningar á henni eða neitt slíkt út úr stjórnvöldum.

Það eru svona ákvarðanir sem vantar. Það vantar framtíðarhugsun þegar allt kemur til alls, eins og ég nefndi til að byrja með, svo að fjármálaáætlun og fjárlögin hjakki ekki bara í sama farinu sem er að redda því sem reddað verður akkúrat núna. Framtíðarhugsunin er hins vegar fjarri góðu gamni. Eina stefnan sem ég sé er í raun um að halda í sér þangað til kófið klárast því að þá fari ferðamennskan og allt annað í gang og allt verður eins og áður og við getum byrjað aftur eins og ekkert hafi í skorist. Þetta er ekki mjög framsækin hugsun.

Mig langar að fara aðeins yfir þetta klassíska hjá mér. Ég spurði fjármálaráðherra í upphafi umræðunnar í haust hvort verið væri að fara eftir öllum skilyrðum sem er fjallað í lögum um opinber fjármál. Þá sagði hæstv. fjármálaráðherra, með leyfi forseta:

„Ég verð að segja alveg eins og er að á stundum þykir mér áhugi hv. þingmanns á formreglum yfirskyggja alla praktíska hugsun.“

Þetta finnst mér mjög merkilegt svar, alveg gríðarlega merkilegt, sérstaklega miðað við álit fjármálaráðs sem kom seinna þar sem var einmitt fjallað um mikilvægi formfastrar umgjarðar, einkum í því árferði sem nú er. Þá reynir virkilega á að aðhaldið standist, að áætlanir séu gerðar, að gerðar séu sviðsmyndagreiningar og það skoðað mjög vel hvernig við ætlum að bjarga núverandi ástandi og hvernig við ætlum að komast út úr því til framtíðar. Eða eins og segir um mikilvægi formreglna í lögum um opinber fjármál þá er lögunum ætlað að tryggja, með leyfi forseta:

„1. heildstæða stefnumörkun í opinberum fjármálum til lengri og skemmri tíma,

2. vandaðan undirbúning áætlana og lagasetningar sem varða efnahag opinberra aðila og öflun og meðferð opinbers fjár,

3. skilvirka og hagkvæma opinbera fjárstjórn og starfsemi,

4. að opinber reikningsskil séu í samræmi við viðurkenndar bókhalds- og reikningsskilareglur,

5. virkt eftirlit með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár, eigna og réttinda.“

Ég hef helst verið að agnúast út í formreglur varðandi 1. og 2. tölulið, þ.e. heildstæða stefnumörkun og vandaðan undirbúning áætlana, sem eru kjarninn að því að næstu atriði gangi upp, að það sé ákveðin skilvirkni og hagkvæmni til að reikningsskilin séu eftir bókinni og að það sé hægt að hafa virkt eftirlit. Þessi atriði eru sem sagt ekki til staðar. Það er ekki verið að fara eftir formreglum um heildstæða stefnumörkun eða vandaðan undirbúning áætlana. Eins og ég hef alltaf sagt frá því að ég kom hingað inn fyrst þá vantar kostnaðargreiningu á stefnu stjórnvalda, það vantar ábatagreiningu á stefnu stjórnvalda. Þess vegna getum við ekki tekið ákvörðun um að það eigi að borga frekar niður innviðaskuld en peningalega skuld, af því að við sjáum einfaldlega ekki að það sé ódýrara og hagkvæmara að gera það.

Það vantar líka valkostagreiningu. Valkostagreiningin er gríðarlega mikilvæg því að hún segir okkur að stjórnvöld hafi í alvörunni skoðað fjölbreytt úrval lausna á þeim vandamálum sem blasa við okkur. Ef við sjáum það ekki þá getum við ekki séð að það hafi verið unnið vel og skilmerkilega að því að finna bestu lausnirnar. Þess í stað erum við yfirleitt föst í einhverri hugmyndafræði um að við verðum að troða PPP-verkefnum einhvers staðar inn í málið. Í uppbyggingu samgönguframkvæmda hljómar það eins og skilyrði að það verði einhvers staðar að vera sambland hins opinbera og einkageirans í þessum PPP-verkefnum svokölluðum. Niðurstaðan varð sú að nokkrar af samgönguframkvæmdunum voru PPP-framkvæmdir. Var það gáfuleg notkun á hinu hugmyndafræðilega fyrirbrigði PPP? Nei. Kannski í tilfelli Sundabrautar en það er frekar óljóst hvort slík framkvæmd sé þar á meðal. Hún er ekki þar á meðal miðað við það sem hefur komið fram nú þegar en gæti orðið það ef Sundabraut fer það langt. Allar þær greiningar sem við sáum um PPP-verkefnin sýndu að þau væru almennt séð 25–30% dýrari en venjuleg opinber framkvæmd og það væri ekkert sem benti til þess að þær framkvæmdir sem voru valdar í PPP-framkvæmd væru á einhvern hátt það ódæmigerðar að þær pössuðu ekki undir þá almennu reglu að vera dýrari í þess háttar framkvæmd. Það var ekki neitt sem sagði það. Þvert á móti benti margt til þess að þessar framkvæmdir yrðu að lokum dýrari, ef ekki fyrir hið opinbera þá fyrir skattgreiðendur, fyrir borgara landsins sem borga þá aukna skatta á staðbundnum svæðum vegna veggjalda og þess háttar. Að lokum fer meiri peningur til verkefnisins en hefði þurft.

Þetta er dæmi um það þegar hugmyndafræði ræður för en ekki skilvirkni eða val á bestu mögulegu úrlausninni. Það er verið að reyna að finna verkefni þar sem hugmyndafræðin gæti verið notuð, ekki af því að það er besta lausnin á því verkefni heldur af því að það verður að nota hugmyndafræðina. Þannig er stjórnkerfið dálítið á Íslandi. Það eru teknar geðþóttaákvarðanir hingað og þangað: Við verðum nú að nýta markaðinn í lausnir á þessu en ekki í sjávarútveginum, það má alls ekki, ekki þar, nei, nei, nei. Við erum að fara í fullt af samgöngubótum, við erum að fara að leggja nýja vegi og brýr úti um allt. Við þurfum nú að troða samvinnuverkefnunum einhvers staðar inn. Er það besta lausnin, er það ódýrasta lausnin, er það hagkvæmasta lausnin? Það skiptir ekki máli samkvæmt ríkisstjórninni. Svo einfalt er það.

Mig langar að fara aðeins yfir þau skilyrði sem lög um opinber fjármál setja okkur því að mér finnst þau gríðarlega mikilvæg. Samtal fjárlaganefndar við ríkisendurskoðanda var einstaklega áhugavert þar sem Ríkisendurskoðun er ekki alveg sammála alla vega túlkun minni á því hvernig eigi að framfylgja 20. gr. laga um opinber fjármálum um stefnumótun stjórnvalda. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hver ráðherra setur fram stefnu fyrir þau málefnasvið og málaflokka sem hann ber ábyrgð á til eigi skemmri tíma en fimm ára. Í stefnunni skal lýsa áherslum og markmiðum, þ.m.t. gæða- og þjónustumarkmiðum, um fyrirkomulag, þróun og umbætur á þeirri starfsemi sem fellur undir viðkomandi málefnasvið. Í stefnunni skal gerð grein fyrir hvernig markmiðum verði náð, ábyrgðarskiptingu, tímasetningum, nýtingu fjármuna og áherslum við innkaup.“

Einhver gæti sagt: Það er ekkert þarna um kostnaðar- og ábatagreiningu eða valkostagreiningu. Það er alveg hárrétt, nákvæmlega þau orð eru ekki þarna. En það er annað þegar maður les á milli línanna og sérstaklega ef maður les greinargerðina sem útskýrir þetta á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi er stefnumótun ætlað að tryggja að ljóst sé að hvaða markmiðum og áherslum stefnt er á hverju málefnasviði og að fyrir liggi skýr forgangsröðun.“ — Forgangsröðun. —

„Í öðru lagi felur stefnumótun í sér formlega greiningu og mat á stöðu þjónustu og starfsemi á einstökum málefnasviðum. Slík greining kann t.d. að leiða í ljós að endurmeta verði forsendur umfangs eða fyrirkomulags tiltekinnar þjónustu.“

„Í þriðja lagi felst í stefnumótun ákvörðun um hvaða leið skuli fylgt til að ná fram settum markmiðum. Hér þarf að huga að kostnaði, áhrifum og ávinningi hverrar leiðar fyrir sig og bera saman ólíkar forsendur þeirra.“

Þarna er kostnaðar- og ábatagreiningin og valkostagreiningin. Forgangsröðunin er síðan viðbót í raun við valkostagreininguna þar sem valkostunum er raðað í vissa röð. Þegar búið er að velja bestu lausnirnar innan málefnasviðsins í mörgum verkefnum af mörgum úrlausnarefnum, þá er þeim líka forgangsraðað í rétta röð til þess að hægt sé að sjá hvaða verkefni eru mikilvægust og hvað önnur verkefni eru síður mikilvæg.

Áfram heldur, með leyfi forseta:

„Í fjórða lagi felur stefnumótun í sér að markmið eru endanlega mótuð, skilgreind og þeim forgangsraðað í samræmi við þá greiningarvinnu sem fram hefur farið. Markmið skulu vera auðsæ, hlutlæg og mælanleg. Sérstaka áherslu skal leggja á að skilgreina gæði þeirrar þjónustu sem veita á miðað við þá fjármuni sem ætlaðir eru til ráðstöfunar vegna hennar og tilgreina hvenær settum markmiðum skuli náð. Til að auðvelda mat á árangri þurfa markmiðum að fylgja skýrir árangursmælikvarðar.“

Þetta er rosalega skýrt þegar maður les greinargerðina. Jú, vissulega hefur Ríkisendurskoðun rétt fyrir sér að lögin sem slík tilgreina þetta ekki nákvæmlega. Þau tilgreina fyrirkomulag þróunar og umbætur á starfsemi og ábyrgðarskiptingu, tímasetningu, nýtingu fjármuna o.s.frv. Það er vissulega hægt að ná þeim markmiðum með annars konar fyrirkomulagi en gert er grein fyrir í greinargerðinni en ramminn undanskilur samt ekki að það þarf að vera eitthvað sambærilegt á við kostnaðar- og ábatagreiningu og valkostagreiningu. Hver sá möguleiki er hef ég ekki hugmynd um. Það er hægt að útfæra á mjög marga vegu hvernig verkefnum er forgangsraðað, hvaða atriði skuli taka til, hversu djúpa kostnaðargreiningu eigi fara í, hvað eigi að fara langt í greiningu á ávinningi og þess háttar. En krafan er samt rosalega skýr. Sama hvaða leið er valin til að fjalla um nýtingu fjármuna, til að fjalla um ábyrgðarskiptingu, tímasetningar og þess háttar — til þess að uppfylla lögin verður að fara í einhvers konar kostnaðargreiningu, ábatagreiningu, valkostagreiningu, forgangsröðun og slíkt.

Ég hef ítrekað gagnrýnt þá skoðun Ríkisendurskoðunar að í ríkisreikningi 2019 hafi lögum um opinber fjármál verið framfylgt. Ég segi að það sé rangt. Það er ekki verið að fara eftir 20. gr. laga um opinber fjármál um stefnumótun stjórnvalda. Þegar ekki er gerð kostnaðargreining og ekki ábatagreining er ekki hægt að fara í ársskýrslu ráðherra og útskýra hvaða ávinningi var náð með þeirri fjárheimild sem Alþingi veitti. Þegar við sjáum ekki hvaða árangur náðist með þeim fjárheimildum sem við veittum í hin og þessi verkefni, t.d. til að sinna persónuvernd, þá getum við ekkert endurskoðað. Við lærum ekkert af því. Við getum ekki gert neitt betur næst. Ársskýrslurnar eins og þær eru eru montskjöl þar sem ráðherra getur skáldað í eyðurnar til þess að segja að nýting fjármuna hafi verið alveg frábær. Það eru engir skýrir árangursmælikvarðar þegar kostnaðargreining liggur ekki fyrir, ábatagreining, valkostagreining og forgangsröðun. Þegar það vantar er aldrei hægt útskýra hvaða ávinningur náðist með nýtingu þeirra fjárheimilda sem voru samþykktar á þingi. Án slíkra skilyrða getur þingið heldur aldrei sagt að þessi fjármunir séu nægilegir til að ná þeim þjónustumarkmiðum sem þingið samþykkti líka í lögum, t.d. í lögum um persónuvernd. Persónuvernd segir núna að það vanti tíu starfsmenn til að sinna þeim verkefnum sem urðu til með persónuverndarlögum. Vitum við hvort það er satt? Í rauninni ekki. Ef við skoðum hins vegar persónuverndarlögin þá er það alls ekkert ótrúleg niðurstaða. Það er bara mjög líkleg niðurstaða. En af því að við vitum ekki allar grundvallarforsendurnar þegar allt kemur til alls þá er þetta og verður alltaf besta ágiskunin. Mér finnst dálítið leiðinlegt að það sé besta ágiskunin sem þingið samþykkir varðandi fjárheimildir og fjárlög, fjármálaáætlun: Æi, þetta var svona mikið í fyrra. Það gekk ágætlega í fyrra og þá ætlum við bara að bæta smá verðlagsvísitölu ofan á og næsta ár verður svipað.

En þegar maður fer að skoða t.d. hvernig staðan á biðlistum er hérna, hvernig staðan er á kærum ýmissa kærunefnda, hversu langur biðtíminn er til að komast að og fá niðurstöðu samkvæmt þeim réttindum sem slík kæruferli gefa okkur, þegar biðtími er upp á rúmlega ár hjá sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu vegna kæru í umgengnismáli t.d., er það ásættanlegt? Nei, samkvæmt lögum mega líða hámark 12 mánuðir þangað til niðurstaða á að fást í svoleiðis mál. Meðaltalið er hins vegar eitt og hálft ár. Mig minnir að málið sem tók lengstan tíma hafi tekið rúmlega 1.000 daga. Það eru þrjú, fjögur ár.

Þegar við horfum á afleiðingarnar af þeim lögum sem við erum að setja og stöðu þeirra réttinda sem við erum að samþykkja í lögum á móti þeim fjárheimildum sem við fjöllum um í fjárlögum þá hljótum við að spyrja: Er þetta í raun og veru það sem við meintum þegar við samþykktum lögin? Tökum sem dæmi sálfræðiþjónustu, sem fjallað var um í fyrri ræðu. Er þetta virkilega það sem Alþingi meinti þegar lögin og þingsályktunin um uppbyggingu á sálfræðiþjónustu voru samþykkt? Eða þegar lögin um persónuvernd voru samþykkt? Ef svo er, væri þá ekki heiðarlegra að lögin endurspegluðu það? Þau eru grundvöllur réttinda fólks. Ef réttindin eru falin og gert lítið úr þeim með því að snuða þær stofnanir sem sinna þeim réttindum um fjárheimildir, þá væri heiðarlegast að hafa það skýrt og aðgengilegt í lögunum að réttindin séu í alvörunni ekki svona mikil, fólk eigi að þurfa að bíða lengur en 12 mánuði, það þurfi að bíða í eitt og hálft ár, tvö ár eftir niðurstöðu.

Við hérna á þingi glímum við þetta í gegnum skriflegar fyrirspurnir. Svör við skriflegum fyrirspurnum eiga að berast innan 15 virkra daga, innan þriggja vikna, en meðaltalið er miklu hærra en svo. Það er ítrekað verið að biðja um frest á svörum við fyrirspurnum þingmanna. Það er einfaldlega verið að valta yfir réttindin sem við höfum og hluti af ástæðunni fyrir því er að fjárheimildir fylgja ekki réttindunum.

Ég efast ekki um að það væri hægt að gera margt á miklu skilvirkari hátt. Við erum með fullt af stofnunum úti um allt, með fullt af fjármálastjórum, með fullt af lögfræðingum, einn og einn í hverri stofnun. Ef það væri aðeins skilvirkari notkun á þeim möguleikum sem við höfum þá gætum við kannski betur sinnt þeim réttindum sem um ræðir, sem Alþingi hefur sett.

Vandamálið við það endurspeglast dálítið í þeirri aðhaldskröfu sem er sett í fjárlög. Hún sýnir bókstaflega hversu illa hið opinbera sinnir þróun innri endurskipulagningar, innri nýsköpun. Það er sett 2% aðhaldskrafa á málefnasvið og sagt: Þið reddið því hvernig það gerist. Það er engin áætlun á móti. Það er ekki byrjað á að spyrja: Hvar sjáið þið aðhaldstækifærin? Hvar eru aðhaldsverkefni á þessu málefnasviði, innan ráðuneytis, innan stofnana ráðuneytis, innan lagabálks þessa ráðuneytis? Það er ekki byrjað á að spyrja: Hvað ef við myndum ráðast í þá endurskipulagningu t.d. að mynda lögfræðiteymi þessa málefnasviðs í staðinn fyrir að vera með lögfræðinga í hverri stofnun sem gætu sem heild kannski unnið allt á mun skilvirkari hátt, miklu frekar en hver í sínu lagi? Í staðinn fyrir að kallað sé eftir aðhaldshugmyndum og -verkefnum er aðhaldinu skellt á stofnanir ofan frá; 2%, reddið því, okkur er alveg sama hvernig.

Okkur á ekki að vera sama hvernig aðhald er veitt, hvernig aðhaldið lítur út af því að það getur haft áhrif á þjónustu, eins og það gerir hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi líkt og fyrri ræðumaður fór yfir. Það eru breytingar á opnunartímum og þess háttar. Við verðum að spyrja okkur af því aðhaldskrafan getur haft áhrif á þjónustu á þann hátt sem pólitíkin vill ekki og þá myndi hún segja: Nei, þetta er ekki aðhaldsbreyting eða aðhaldsverkefni sem við teljum að sé hjálplegt fyrir þau réttindi sem lög veita. Vinsamlegast veljið eitthvað annað, komið með stærri lista af aðhaldsverkefnum eða -hugmyndum. Eða: Þið finnið ekki næg aðhaldsverkefni eins og er. Þið þurfið að fara í betri grunnvinnu og rannsóknir á því hvernig væri hægt að ná fram aðhaldi og hérna er fjárheimild, alla vega fyrir því að fella ekki niður þetta verkefni þetta árið. Við förum í öfuga átt í aðhaldi og það sýnir rosalega vel hversu illa er komið hjá okkur í rekstri hins opinbera, það er ekki flóknara en svo. Það er aðhaldskrafan, ógagnsæ framsetning fjárlaga, léleg stefnumótun þar sem skortir kostnaðar- og ábatagreiningar, valkostagreiningar, sem sýnir okkur svart á hvítu hversu léleg við erum í skipulagi, hversu lélegt skipulag er á fjármálum hins opinbera. Þá á ég við heildarskipulag, ég á ekki endilega við rekstur einstakra stofnana. Ég á við skipulagið á bak við.

Einhvers staðar hérna var ég með tilvísun — þetta er allt of langt nefndarálit en ástæðan fyrir því að það er svona langt er af því að það er ógeðslega mikið sem þarf tala um. En ég tek hér dæmi um stofnun sem framfylgir ákveðnum lögum. Hún sinnir því örugglega bara mjög vel og á mjög góðan hátt. Þrátt fyrir að fjárheimildir hafi meira að segja lækkað um 25%, minnir mig, á undanförnum nokkrum árum, þremur, fjórum árum, sinnir hún samt sömu verkefnum. Gerir hún það eins vel og hún gerði það fyrir þremur árum? Ég ætla ekki að efast um það, hún gerir það örugglega, segjum það. Hvernig var farið að því? Ekki hugmynd, hef aldrei séð neinar aðhaldsaðgerðir þar á bak við sem útskýra hvernig viðkomandi stofnun náði að minnka fjárþörf og skila sömu þjónustu. Við sjáum það hjá Íslandspósti þar sem voru einfaldlega klipptar út 500 milljónir en það varð engin breyting á þjónustu.

Það eru svoleiðis vandamál sem við glímum við úti um allt. Ekki endilega af því að þau eru ómálefnaleg eða verið er að vinna af slæmum hug eða eitthvað svoleiðis, heldur einfaldlega af því að það er ekkert skipulag á því hvernig aðhaldi með fjárheimildum og fjárveitingum hins opinbera er sinnt, ekkert. Það er talað um endurmat á útgjöldum en það er varla farið af stað. Á meðan við vitum ekki hvað lögbundin verkefni kosta þá höfum við engar spurningar. Þá getum við ekki einu sinni spurt: Af hverju er ferlið sem þið eruð að framfylgja svona flókið, þó að lögin kveði ekkert endilega á um að það? Það geta verið ýmsar ástæður fyrir því, önnur hliðarverkefni, lög eða eitthvað því um líkt. Ef við vissum það væri hægt að spyrja: Getum við gert það skilvirkara á einhvern hátt? Til þess að við séu ekki að búa til óþarfa lykkju hérna fram og til baka, svo að almennur borgari sem ætlar að sækja um styrk eða leyfi eða eitthvað því um líkt þurfi ekki að fara í 30 ólíkar stofnanir til að uppfylla öll skilyrði. Það er verið að gera það t.d. með hinu svokallaða X-Road verkefni að hluta til, það fækkar fjölda viðkomustaða í kerfi hins opinbera. Þetta er fyrirmynd frá Eistlandi og fleiri stöðum og er loksins verið að fara í það. Það þurfti heimskreppu, alheimsfaraldur til þess að settur yrði peningur í þetta, það var gert í fjáraukalögum fyrr á árinu. Það þurfti eitthvað svoleiðis til þess að fara í aðhaldsaðgerðir. Það er fáránlegt og minnir á það hérna um árið þegar kreppti að og farið var í að finna einhvern pening. Þá áttu betri skattrannsóknir að skila 800 milljónum. Af hverju var það ekki gert fyrr? Ef aðhaldið var svona augljóst og skilaði okkur svona miklu, af hverju þurftum við að bíða eftir því að það kæmi kreppa til að grípa til slíkra aðhaldsaðgerða? Ég skil ekki svona vinnubrögð. En ástæðan fyrir því að þau eru svona er af því að það er ekki horft skipulega á aðhaldsverkefni neðan frá og upp, þannig að ekki sé verið að leita að aðhaldverkefnum þegar það kemur smá kreppa og við þurfum að finna einhvern pening, hlaupum upp til handa og fóta og reynum að finna hugmyndir einhvers staðar um aðhaldsverkefni sem við getum gripið til til að fá nokkrar milljónir til þess að ríkisreikningurinn líti út fyrir að vera ofan við núllið.

Þar eru opinber fjármál stödd í dag og þess vegna eru breytingartillögur 2. minni hluta ekki flóknara en þetta, af því að hitt er einfaldlega drasl.