151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[14:52]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir góðar kveðjur frá hv. þm. Willum Þór Þórssyni, formanni fjárlaganefndar, fyrir störfin í fjárlaganefnd við vinnslu þessa frumvarps sem hafa verið löng og ströng eins og við segjum og ég vil þakka honum fyrir að hafa stýrt þessari vinnu ágætlega og með sóma. Við höfum öll verið undir miklu álagi eins og við þekkjum og það ber að þakka fyrir að þetta hefur tekist að endingu og þó svo að við í minni hlutanum séum kannski ekki algerlega sátt við niðurstöðuna þá er hér náttúrlega um mjög mikilvægt mál að ræða á erfiðum tímum.

Vinna við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2021 var unnin við aðstæður sem eru mjög sérstakar og það hefur ríkt og ríkir enn mikil óvissa í efnahagsmálum þjóðarinnar vegna veirufaraldursins. Tekjufall ríkissjóðs er gríðarlegt og sömuleiðis skuldaaukningin. Þúsundir landsmanna eru því miður atvinnulausir og hrun hefur orðið í okkar stærstu atvinnugrein, ferðaþjónustunni. Þessi óvissa á sér vart hliðstæðu jafnvel þó að horft sé til fjármálakerfisins og hruns þess árið 2008. Frumvarpið ber þess greinilega merki að hagkerfið hefur orðið fyrir gríðarlegu áfalli. Það birtist m.a. í framlagningu umfangsmikilla breytingartillagna við frumvarpið og fimmta fjáraukalagafrumvarpinu á þessu ári. Umfang breytingartillagna við frumvarpið er slíkt, eða rúmir 55 milljarðar kr., að líta má á það að vissu marki sem nánast nýtt frumvarp og allt bendir til þess að ekki hafi áður verið lagðar fram svo umfangsmiklar breytingartillögur við fjárlagafrumvarp. Engu að síður eru áherslur ríkisstjórnarinnar á ýmsum sviðum ekki nógu vænlegar til árangurs að mínu mati og hafa sumir þjóðfélagshópar sem hafa orðið fyrir áhrifum af veirufaraldrinum verið skildir eftir. Ég mun koma nánar inn á það hér á eftir.

Ég vil þó segja það að ýmislegt jákvætt hefur verið gert og ég vil nefna að í þessu frumvarpi hafa grunnbætur og greiðslur til framfærslu barna verið hækkaðar og auk þess hefur verið bætt við ýmis félagsleg úrræði sem við í Miðflokknum styðjum. Það er gott að verið er að koma fólki sem er atvinnulaust í úrræði eins og úrræðið Nám er tækifæri og það er verið að stuðla að því að fólk geti farið í nám með því að auka framlög bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi. Það er verið að greiða álag á grunnbætur atvinnuleysistrygginga, barnadagpeninga til atvinnuleitenda, og allt er þetta mikilvægt og að sjálfsögðu styðjum við það í Miðflokknum.

Skuldastaða ríkissjóðs hefur versnað mjög hratt vegna veirufaraldursins og halli ríkissjóðs á þessu ári stefnir í 270 milljarða kr. Samkvæmt áætlun í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021 er gert ráð fyrir halla sem nemur 264 milljörðum eða 8,6% af vergri landsframleiðslu. Að teknu tilliti til breytinga við 2. umr. frumvarpsins er halli á ríkissjóði á næsta ári áætlaður 318 milljarðar eða 10,4% af vergri landsframleiðslu. Þá á eftir að taka tillit til breytinga sem meiri hluta fjárlaganefndar leggur til og nema um 2 milljörðum kr., þannig að við erum að tala um halla upp á 320 milljarða kr. sem er náttúrlega gríðarlega há upphæð.

Það kom fram á fundi fjárlaganefndar með Ríkisendurskoðun að skuldastaða ríkissjóðs er áhyggjuefni. Það er nú einu sinni þannig að lán þarf að greiða til baka og allar breytingartillögur ríkisstjórnar eru t.d. fjármagnaðar með lántöku. Ég verð að segja það, herra forseti, að ég er ekki viss um að það hefðu verið tekin svona mikil lán ef ekki væru níu mánuðir til kosninga. Það er auk þess óvíst hvernig kemur til með að ganga að innheimta þá staðgreiðslu sem frestaðist fram yfir áramót og var eitt af þeim úrræðum sem gripið var til vegna veirufaraldursins, þannig að enn er óvíst um hallann á þessu ári og hann gæti aukist. Auk þess hefur fimmti fjáraukinn verður lagður hér fram og við eigum eftir að sjá hvort þá verði bætt enn frekar í hann, þannig að þó hallinn sé gríðarlegur gæti hann hugsanlega orðið meiri.

Í tillögum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs árið 2025 en ríkisstjórnin hefur ekki lagt fram neinar tillögur um hvernig það verði gert að öðru leyti en því að gert er ráð fyrir að hagkerfið sjálft rísi myndarlega upp og skuldirnar hætti að vaxa sem hlutfall af landsframleiðslu. Vonandi gengur þetta allt saman eftir, svo sannarlega vonum við öll að svo verði. Sú aukning fjárheimilda sem verður milli áranna 2020 og 2021 er algjörlega ósjálfbær. Þetta er lántaka og fjármálaráðherra staðfesti í bréfi til fjárlaganefndar í byrjun desember að þessi aukning fjárheimilda væri algerlega ósjálfbær. Það er að sjálfsögðu áhyggjuefni og kemur sem sagt til viðbótar við 230 milljarða kr. aukningu fjárheimilda milli fjárlaga árin 2017 og 2020, þannig að við erum enn og aftur að tala um gríðarlegar upphæðir.

Ef ferðaþjónustan nær sér á strik eru taldar góðar líkur á kröftugum hagvexti á árunum 2022–2023 komi ekki til frekari áfalla en gangi væntingar ekki eftir um þessa öflugu viðspyrnu, sem við erum öll að vonast eftir, um hraðan vöxt hagkerfisins, mun það hafa alvarlegar afleiðingar og þá verður að grípa til aðgerða sem munu verða sársaukafullar. Það er ljóst að þeirrar ríkisstjórnar sem tekur við að loknum kosningum, nú styttist í þær, bíður mjög vandasamt verkefni við að greiða niður þessar miklu skuldir. Þess vegna segjum við að það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að góð viðspyrna náist og að hún takist vel.

Aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar vegna veirufaraldursins á árinu hafa margir hverjir gagnast þeim sem þeim var ætlað að aðstoða. Hins vegar hefur fjöldi aðila vakið athygli mína á því að mörg þessara úrræða eru flókin og umsóknarferlið mjög tímafrekt og oft og tíðum þurfa jafnvel einstaklingar og einyrkjar sem reka lítil fyrirtæki að leita hreinlega aðstoðar fagmanna til að geta sótt um þessa styrki. Það hefur borið á því að fólk hafi sótt um styrki og sent inn umsóknina en síðan kemur á daginn að neðar í texta umsóknareyðublaðsins kemur í ljós að viðkomandi átti ekki rétt á að sækja um, eins og t.d. eigendur þessara litlu fyrirtækja þannig að þeir hafa þurft að greiða til baka það sem þeir hafa sótt um og auðvitað hefur þetta skapað mikið óhagræði. Þetta eru hlutir sem verður að laga og í mörgum tilfellum hafa þau skilyrði sem hafa verið sett verið of þröng og ströng og því ekki nýst sem úrræði fyrir þá þrátt fyrir að staða þessara aðila sé mjög erfið vegna veirufaraldursins. Það er því ýmislegt í þessu ferli sem hefði mátt ganga betur og hefði mátt vinna betur hvað varðar undirbúning og framsetningu þeirra úrræða. Þetta getur sem sagt valdið því síðan að viðspyrnan verði ekki eins öflug og samfélagið þarf á að halda og þess vegna hefur, að mínu mati, útfærslan á björgunaraðgerðum ríkisstjórnarinnar að mörgu leyti ekki verið nógu vönduð og markviss.

Ég ætla að víkja næst að breytingartillögum Miðflokksins við fjárlagafrumvarpið. Miðflokkurinn leggur til 14 breytingartillögur. Við erum eini flokkurinn sem er með fullfjármagnaðar tillögur sem byggja á eignasölu þannig að þær auka ekki á halla ríkissjóðs sem nú þegar er orðinn gríðarlegur. Og eins og ég sagði áðan eru allar tillögur ríkisstjórnarinnar fjármagnaðar með láni og lán þarf að sjálfsögðu að borga til baka.

Ég ætla að fara aðeins yfir tillögurnar og nefna fyrst að ein af megintillögum okkar snýr að eldri borgurum. Það er alveg ljóst samkvæmt frumvarpinu að ríkisstjórnin er áhugalaus um kjör eldri borgara. Það verður bara að segjast eins og er. Þetta er sú kynslóð sem við eigum mikið að þakka, Íslendingar, fyrir þau ágætu lífsgæði sem við búum við í dag og er dapurlegt til þess að hugsa að ríkisstjórnin skuli ekki horfa til þessa stóra hóps með jákvæðara hugarfari en gert er. Við í Miðflokknum leggjum því í tillögum okkar ríka áherslu á að mæta eldri borgurum sem við viljum meina að hafi verið skildir eftir í þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til á þessu ári vegna veirufaraldursins. Tillögurnar snúa að því að eldri borgarar fái sérstaka eingreiðslu, skattfrjálsa eingreiðslu upp á 70.000 kr., rétt eins og öryrkjar, einfaldlega vegna þess, og þá erum við að tala um lægstu þrjár tekjutíundirnar, sem eru um 10.000 manns, að sá hópur sem er á lægstum bótum og hefur ekki lífeyrissjóð býr við sömu slöku og erfiðu kjörin og öryrkjar sem fengu núna eingreiðslu, sem við í Miðflokknum styðjum og fögnum að sjálfsögðu. Auk þess leggjum við áherslu á að hækkun á ellilífeyri komi til framkvæmda strax á nýju ári og að hún sé í samræmi við lífskjarasamninginn og það verði hækkun til hvers einstaklings um 15.750 kr. sem Landssamband eldri borgara hefur m.a. kallað eftir og lagt áherslu á í umsögn sinni um frumvarpið og ég mun koma nánar að á eftir.

Þriðja tillaga Miðflokksins sem snýr að eldri borgurum felur í sér að atvinnutekjur skerði ekki lífeyristekjur.

Við leggjum auk þess fram breytingartillögu um að tryggingagjaldið lækki enn frekar. Við erum með tillögu um að mæta landbúnaðinum enn frekar sem hefur glímt við mikla erfiðleika núna vegna veirufaraldursins, uppsöfnun á kjötbirgðum og sölutregðu og svo hefur landbúnaðurinn þurft að glíma við innflutning á landbúnaðarvörum en þar hefur orðið sá misbrestur á að þær hafa verið fluttar inn í miklu meira magni en heimilt var samkvæmt samningum. Við leggjum auk þess áherslu á að SÁÁ fái frekari stuðning. Við leggjum áherslu á að það verði ráðist í baráttu gegn kennitöluflakki sem við höfum áður talað fyrir hér. Við leggjum áherslu á aukið fíkniefnaeftirlit á vegum tollgæslunnar. Við leggjum áherslu á vinnusamninga öryrkja og auk þess leggjum við áherslu á vinnusamninga þeirra sem eru atvinnulausir og horfum sérstaklega til Suðurnesja í þeim efnum. Eins og ég sagði áðan höfum við lagt fram 14 breytingartillögur og ég ætla að fara nánar yfir þær á eftir en ætla núna að snúa mér aftur að eldri borgurum.

Það er óumdeilt, herra forseti, að kjör þeirra aldraðra sem minnst hafa milli handanna eru í engu samræmi við almenn lífskjör í landinu. Þeir sem engar aðrar tekjur hafa en lífeyri almannatrygginga eru verst settir. Þetta er það sem ég nefndi áðan, þeir eru á sama stað og þeir öryrkjar sem hafa það hvað verst hvað þetta varðar og hafa síðan fengið leiðréttingu, eða núna með sérstakri eingreiðslu. Upphæð lífeyris hefur dregist jafnt og þétt aftur úr launum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að styrkja þurfi sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Í þeim hópi eru eldri borgarar sem hafa takmörkuð eða engin réttindi úr lífeyrissjóðum og stunda ekki launaða vinnu. Þeir sem þannig eru settir þurfa nær eingöngu að reiða sig á ellilífeyri almannatrygginga og eru margir hverjir á almennum leigumarkaði eða jafnvel skuldsettir. Í þessum hópi eru einnig þeir sem ekki hafa áunnið sér full réttindi til almannatrygginga vegna búsetu erlendis, t.d. innflytjendur. Það er lögð áhersla á það í stjórnarsáttmálanum að mæta þeim hópi sem er hins vegar ekki verið að gera. Þeim fjölgar í hópi eldri borgara sem hafa áhyggjur af fjárhag sínum eða rúm 30%. Þetta kemur m.a. fram í könnun sem Reykjavíkurborg, velferðarráðuneytið og Landssamband eldri borgara lét gera fyrir ekki svo löngu. Félag eldri borgara hefur sett fram vandaðar tillögur um hvernig mætti bæta kjör þeirra verst settu sem tilheyra þessum hópi. Fyrir þær tillögur ber að þakka. Tillögurnar voru kynntar fjárlaganefnd í fjárlagavinnu nefndarinnar fyrir árið 2019. Stjórnarmeirihlutinn hefur því haft góðan tíma til þess að bregðast við þeim en því miður hefur ríkisstjórnin ekki séð ástæðu til þess.

Samkvæmt tölum frá OECD rennur lægra hlutfall af þjóðarframleiðslu og launum á Íslandi til greiðslu ellilífeyris en í löndum eins og Bretlandi, Hollandi, Danmörku og Svíþjóð. Íslendingar fara almennt síðar á lífeyri en íbúar annarra landa og munar miklu hve atvinnuþátttaka aldraðra er meiri og lengri á Íslandi en í hinum löndunum. Atvinnuþátttaka 65–69 ára hér á landi er rúm 50% en í sama aldurshópi í Svíþjóð er atvinnuþátttakan einungis um 20%. Samanburður við áðurnefnd lönd sýnir að Ísland sker sig úr hvað virkan lífeyristökualdur varðar. Íslendingar hefja að jafnaði töku lífeyris einu til tveimur árum eftir að opinberum lífeyristökualdri er náð, en í hinum löndunum fjórum fer fólk að jafnaði á lífeyri nokkru áður en opinberum aldursmörkum er náð. Íslendingar taka því að jafnaði lífeyri í mun færri ár en tíðkast í hinum löndunum. Það ætti svo sannarlega að vera tilefni til þess að Íslendingar bæti kjör eldri borgara.

Útgreiðsla úr báðum hlutum lífeyriskerfisins hefst því að jafnaði síðar hér á landi. Meðalaldur íslensku þjóðarinnar er lægri og því er lífeyrisbyrði opinbera kerfisins enn mjög lág í samanburði. Þetta undirstrikar það að stjórnvöld hafa ráðrúm til þess að gera vel við eldri borgara. Þetta er sú kynslóð sem við eigum mest að þakka að hér ríkir almenn velferð. Kynslóð sem braust úr viðjum fátæktar með vinnusemi og dugnaði. Kynslóð sem nú biður einungis um réttlæti og að fá að lifa við mannsæmandi kjör.

Í tíð ríkisstjórnarinnar hefur stöðugt dregið í sundur með lágmarkslaunum og lífeyri almannatrygginga til aldraðra eins og sýnt hefur verið fram á með óyggjandi hætti með mörgum umsögnum við fjárlagafrumvarpið. Samkvæmt hinni margumtöluðu 69. gr. laga um almannatryggingar ber að taka mið af launaþróun við ákvörðun um upphæðir almannatrygginga. Á undanförnum árum hefur ákvörðunin hverju sinni byggst á spá í fjárlagafrumvarpi um strípaða meðaltalshækkun samkvæmt kjarasamningum en sú aðferðafræði hefur leitt til þess að á síðastliðnum tíu árum hefur óskertur ellilífeyrir farið úr því að vera 91,5% af lágmarkslaunum niður í 75%. Uppsafnaður hlutfallslegur halli þessara ára er orðinn 18%.

Óánægja og reiði aldraðra vegna þessarar þróunar fer vaxandi. Krafa eldri borgara er að frekari kjaragliðnun verði stöðvuð nú þegar og síðan verði hafist handa við að vinda ofan af kjaragliðnun undanfarinna ára. Samkvæmt lífskjarasamningnum eru hækkanir launataxta á næsta ári ekki ákveðnar í prósentum heldur verða þær sama krónutala á alla, 15.750 kr. ofan á alla launataxta, lága sem háa. Það er hin almenna launaþróun sem rökrétt er að hækkun ellilífeyris taki mið af og sanngirnismál. 3. minni hluti leggur það til í breytingartillögu við frumvarpið. Ellilífeyrinn þarf því að hækka um þessa sömu krónutölu ef fullnægja á 69. gr. Hann færi þá úr 256.800 kr. á mánuði í 272.550 kr., sem gerir hækkun um 6,1% í stað þeirra 3,6% sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Landssamband eldri borgara hefur bent á að með tilliti til atvinnuástandsins hefði það jákvæð áhrif á vinnumarkaðinn til að draga úr skerðingum ellilífeyris vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum, t.d. með því að sameina núverandi frítekjumörk í eitt almennt eða 125.000 kr. Það myndi auðvelda eldra fólki að láta af störfum og losa með því um störf fyrir þá sem yngri eru.

Eldri borgarar hafa ekki farið varhluta af veirufaraldrinum frekar en aðrir. Miðflokkurinn flytur breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að eldri borgarar sem búa við lökustu kjörin fái sérstaka skattfrjálsa eingreiðslu upp á 70.000 kr. Upphæðin er sú sama og öryrkjar fá á árinu.

Skerðingum á greiðslum til eldri borgara og lífeyrisþega verður að linna. Við leggjum áherslu á þetta í Miðflokknum. Skerðingar á greiðslum almannatrygginga til lífeyrisþega hefur borið hátt í umræðu undanfarin ár. Aldraðir eru sístækkandi þjóðfélagshópur. Fólk 67 ára og eldra er nú um 45 þúsund að tölu. Um 10–15 þúsund manns stefna hraðbyri á að ganga inn í þennan hóp. Við erum að tala um að innan skamms tíma verða þetta a.m.k. 60 þúsund manns sem hafa beina hagsmuni af stefnu stjórnvalda um skerðingar í bráð og lengd. Fyrirkomulagið er út af fyrir sig einfalt. Fjárhæð ellilífeyris er ákveðin árlega. Hún er nú 256.789 kr. á mánuði. Hafi fólk tekjur skerðist þessi lífeyrir eftir ákveðinni reglu. Þetta eru skerðingarnar.

Aldraður einstaklingur sem vill bæta hag sinn með vinnu má að hafa 100.000 kr. á mánuði áður en ellilífeyririnn er skertur. Eftir það eru hirtar 45 kr. af ellilífeyrinum fyrir hverjar 100 kr. sem hann vinnur sér inn. Þetta er skerðingin. Svo er skatturinn, milliþrep hans er um 37%. Ragnar Árnason prófessor hefur sýnt fram á að þegar saman koma skerðingar og skattar heldur einhleypingur eftir 27 kr. af hverjum 100 kr. sem hann vinnur sér inn. Ef hann er í sambúð heldur hann eftir 35 kr. af 100 kr. Til samanburðar heldur fullfrískur hálaunamaður á besta aldri eftir 54 kr. af síðustu 100 kr. sem hann vinnur sér inn.

Það sjá allir að það er engin sanngirni í þessu. Það verður bara að segjast eins og er, herra forseti, að aldrað fólk er í skotlínunni þegar kemur að skattlagningu fyrir vinnu. Enginn þjóðfélagshópur stendur frammi fyrir öðrum eins jaðarsköttum og aldraðir mega þola. Þetta fyrirkomulag ofurskattlagningar felur í sér brot gegn óskráðri reglu í mannlegu félagi, að hverjum manni er boðið að bæta hag sinn með aukinni vinnu ef vilji og geta standa til þess. Allir menn eru gæddir meðfæddri sjálfsbjargarviðleitni sem fólki er í blóð borin. En því miður, sjálfsbjörg, ef svo má að orði komast, leyfist ekki samkvæmt gildandi fyrirkomulag eins og ég hef rakið.

Fái maður greiðslur úr skyldubundnum lífeyrissjóði er ellilífeyrir almannatrygginga skertur með áþekkum hætti. Skerðingar byrja eftir fyrstu 25.000 kr. úr lífeyrissjóði. Fólk er skyldað til að vera í lífeyrissjóði og greiða iðgjöld af launum sínum í hverjum mánuði. Lífeyrissjóðirnir sem settir voru á laggirnar með kjarasamningum 1969 áttu að tryggja fólki bætt kjör á efri árum umfram það sem almannatryggingar tryggðu með grunnlífeyri, bætt kjör, ekki lakari kjör. Lagaskyldan um að greiða í lífeyrissjóð fól í sér fyrirheit um bætt kjör. Þetta fyrirheit liggur til grundvallar í íslensku samfélagi og var virt í fjörutíu ár. Allan þennan tíma þótti ekki koma til álita að skerða grunnlífeyri almannatrygginga vegna lífeyristekna. Það var ekki fyrr en í hruninu 2009 að ákveðið var af hálfu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna skerðing í þessu efni. Hún stóð til ársins 2013 og féll þá niður.

Viðsnúningur varð árið 2017. Ein stærð, ellilífeyrir, kom í stað grunnlífeyris og tekjutryggingar og tekið var að skerða greiðslur almannatrygginga óheft frá 1. mars 2017. Með þessari ákvörðun var fyrirheitið rofið um að skyldubundin aðild og greiðslur í lífeyrissjóð bættu hag eldra fólks umfram það sem grunnlífeyrir almannatrygginga tryggði því.

Ákvörðun Alþingis um að greiðslur úr lífeyrissjóðum skyldu skerða grunnlífeyri almannatrygginga fól í sér algjört trúnaðarbrot við launafólk sem skyldað var til með lögum að greiða iðgjöld af launum sínum í lífeyrissjóð á grundvelli kjarasamninga frá 1969. Skerðingar á greiðslum almannatrygginga vegna lífeyristekna fela í sér rof á lögfestu fyrirheiti, fyrirheiti sem verður að standa við. Það viljum við í Miðflokknum gera og það leggjum við til í breytingartillögu. Með því að rjúfa fyrirheitið sparaði ríkissjóður sér árið 2018 ríflega 34 milljarða kr. með skerðingum á lögbundnum greiðslum ellilífeyris, samkvæmt svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Ólafs Ísleifssonar á liðnu þingi. Skerðingarnar taka til allra sem til næst, eða næstum 95% eldra fólks. Er óverjandi með öllu að leggja á þennan afmarkaða þjóðfélagshóp þá kvöð að borga sjálfum sér um helming af greiðsluskyldu almannatrygginga til lífeyrisþega. Í þessu ljósi skýrist af hverju Ísland er lægst meðal OECD-landa í framlögum ríkissjóðs til almannatrygginga. Ekkert hald er í þeirri viðbáru að ef framlag lífeyrisþega, sem tekið er af því með skerðingunum, reiknist með séum við í miðjum hópi landa OECD. Þennan kerfishalla á ríkissjóði verða stjórnvöld að rétta af með öðrum hætti en ranglátum álögum á eldra fólk og aðra skjólstæðinga almannatrygginga.

Ég ætla að víkja næst að atvinnuleysinu, herra forseti, sem nú er í hæstu hæðum og er mikið samfélagslegt böl eins og við þekkjum öll og afar mikilvægt að okkur takist að ná því niður sem allra hraðast og sem allra fyrst. Því miður eru horfur á vinnumarkaði ekki góðar eins og staðan er núna og það er fyrst og fremst rakið til veirufaraldursins og það eru teikn á lofti um að staðan sé í raun og veru dekkri en lagt var upp með þegar fjárlagavinnan hófst. Og það er að sjálfsögðu líka umhugsunarefni hvort ekki hefði átt að taka tillit til hagspár Seðlabankans sem kom út 1. nóvember frekar en að miða við spá Hagstofunnar sem kom 1. október vegna þess að spá Seðlabankans er dekkri, bæði hvað varðar atvinnuleysi og hagvöxt. Horfurnar eru því miður ekki góðar. Við vonum að sjálfsögðu að úr rætist á nýju ári og þegar bólusetning hefst hér.

Það verður að segjast eins og er að þessar tölur um atvinnuleysi eru náttúrlega sláandi. Um 25.000 manns voru atvinnulausir í lok októbermánaðar samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar. Á Suðurnesjum er atvinnuleysið 22% og tvöfalt hærra en á landsvísu, og við í Miðflokknum leggjum fram breytingartillögu við frumvarpið um sérstakan stuðning til Suðurnesja vegna mikils atvinnuleysis.

Hafa ber í huga að hvað atvinnuleysið varðar þá verða stjórnvöld að styrkja starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja eins og frekast kostur er svo þau geti haldið starfsmönnum sínum við erfiðar aðstæður og vonandi ráðið til sín fleiri. Styðja þarf íslensk fyrirtæki vegna hækkandi launakostnaðar og sporna gegn frekari fækkun starfa.

Skattheimta á íslensk fyrirtæki er há í alþjóðlegum samanburði og nú sú næsthæsta á Norðurlöndunum á eftir Noregi. Skattar á fyrirtæki voru hækkaðir eftir efnahagshrunið 2008 í þeirri viðleitni að loka fjárlagagatinu sem þá var. Þessar skattbreytingar hafa hins vegar verið að festast í sessi síðan. Mikil tregða hefur verið hjá ríkisvaldinu að lækka tryggingagjaldið en það er einn stærsti tekjustofn ríkissjóðs samkvæmt frumvarpinu. Hátt tryggingagjald kemur verst niður á fyrirtækjum þar sem laun og launatengd gjöld eru stór hluti kostnaðar. Hátt tryggingagjald veikir samkeppnishæfni þessara fyrirtækja mest þegar lýtur að bættu samkeppnisumhverfi og hæfni Íslands gagnvart öðrum fyrirtækjum t.d. erlendis. Samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum hefur einmitt versnað á undanförnum árum vegna innlendra kostnaðarhækkana mældra í erlendri mynt.

Fyrir efnahagshrunið árið 2008 var tryggingagjaldið 5,34% en var hækkað í 8,65% í kjölfar þess. Hækkunin var hugsuð sem tímabundin aðgerð til að standa straum af stórauknum útgjöldum vegna skyndilegs atvinnuleysis. ASÍ styður að hækkun tryggingagjaldsins sé skilað til baka. Sjálft tryggingagjaldið stendur nú í 4,90% og verður lækkað tímabundið í eitt ár eða í staðgreiðslu á árinu 2021 og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2022 vegna tekna ársins 2021, úr 4,90% í 4,65%. Það verður því samtals 6,10%.

Staðreyndin er sú að tryggingagjaldið hefur í vaxandi mæli verið notað til að fjármagna önnur útgjöld ríkissjóðs en því var ætlað. Gjaldið er reiknað sem hlutfall af þeim launum sem fyrirtækið greiðir til starfsmanna sinna. Því fleiri krónur sem fyrirtækið greiðir í laun þeim mun hærri fjárhæð þarf það að greiða í tryggingagjald. Því hærri sem tryggingagjaldsprósentan er, þeim mun dýrari er hver starfsmaður fyrir fyrirtækið sitt. Í breytingartillögum Miðflokksins er lögð áhersla á að lækka það enn frekar til að byggja undir fyrirtækin vegna þess að þau eru lykillinn að þeirri viðspyrnu sem við þurfum að láta takast sem allra best. Vissulega er afar mikilvægt að mæta þeim sem hafa misst vinnuna en við þurfum líka að gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að fleiri missi vinnu og ávinningur af lægra tryggingagjaldi er verulegur og ekki síst nú þegar atvinnuleysi er mikið.

Herra forseti. Ég ætla að koma næst að sveitarfélögunum og þeirri óvissu sem ríkir um fjármál þeirra vegna veirufaraldursins. Ljóst er að þau hafa orðið fyrir miklu tekjufalli og standa frammi fyrir stóru fjárhagslegu verkefni. Hrun í ferðaþjónustu og afleiddum greinum hefur valdið mikilli fækkun starfa og lækkun á útsvarsstofni. Samband íslenskra sveitarfélaga segir að mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á þau dugi ekki til og það ríki í raun tekjukreppa hjá sveitarfélögunum. Gert er ráð fyrir því að halli þeirra verið um 20 milljarðar kr. vegna tekjumissis og aukinna útgjalda. Á þessu ári og því næsta vanti um 50 milljarða kr. í reksturinn. Þetta er áhyggjuefni vegna þess hlutverks sem sveitarfélögin gegna í velferð einstaklinga og í ríkjandi árferði eru margir sem stóla á sveitarfélögin þegar atvinnuleysisbótatímabilinu lýkur. Þessi útgjöld hafa aukist verulega hjá sveitarfélögum.

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa kallað eftir auknum stuðningi við sveitarfélögin í formi beinna óendurkræfra fjárframlaga úr ríkissjóði. Þetta kemur m.a. skýrt fram í umsögn samtakanna við fjárlagafrumvarpið. Í umsögninni kemur einnig fram að ríkissjóðir annars staðar á Norðurlöndum styðji myndarlega við sveitarfélögin og þá almannaþjónustu sem þau veita íbúum sínum. Ég tók eftir því að í nefndaráliti meiri hlutans er sagt að það sé ekki hægt að bera þetta saman, sveitarfélögin á Íslandi og sveitarfélög annars staðar á Norðurlöndunum. Ég er ekki sammála þessu. Ef tekið er dæmi frá Svíþjóð þá veitir sænska ríkið almenn framlög sem greiðast til sveitarfélaganna eftir höfðatölu auk þess að greiða sérstök framlög vegna aukakostnaðar af ýmsu tagi. Stuðningur finnsku ríkisstjórnarinnar nemur tæplega 75% af tekjufalli og útgjaldaauka sveitarfélaganna. Framlag vegna 2021 verður um 85% af áætluðum áhrifum á rekstur. Við sjáum því að sveitarfélögin á Norðurlöndum eru mun betur í stakk búin til að takast á við vandann vegna þess að í þeim löndum kemur ríkið miklu meira til móts við þau.

Hér hefur gjarnan verið vísað í jöfnunarsjóð en framlög til hans hafa verið skert og óvissa ríkir um þann sjóð almennt, ekki síst vegna hugsanlegra málaferla Reykjavíkurborgar gegn sjóðnum. Komi ríkissjóður ekki til móts við sveitarfélögin með sérstökum hætti — og þess sjást engin merki í frumvarpinu — er ljóst að þau verða að fjármagna sig með lántökum til þess að standa undir lögbundinni þjónustu. Það hefur síðan í för með sér að greiðslugeta þeirra minnkar vegna vaxtagjalda og nauðsynlegt verður að ráðast í hagræðingu sem síðan bitnar aftur á þjónustu við íbúanna, rekstri skólanna o.s.frv. Þetta hefur allt keðjuverkandi áhrif. Ég verð að segja að það eru vonbrigði að ríkisstjórnin ætlar ekki að mæta sveitarfélögunum með neinum hætti. Það er ekki að sjá. Það var jú tiltölulega lág upphæð sett í það að mæta þeim sveitarfélögum sem urðu fyrir hvað mestu tekjufalli vegna hruns í ferðaþjónustunni. En það dugir hvergi og mörg sveitarfélög glíma við heilmikinn vanda.

Ég ætla næst að víkja aðeins að landbúnaðinum.

Herra forseti. Staðan í landbúnaði, sérstaklega kjötmarkaði, er ekki góð og rekstrarforsendur í raun brostnar. Á þetta hafa helstu hagsmunasamtök bænda og fyrirtækja í landbúnaði bent. Ástæðurnar eru nokkrar. Að sjálfsögðu fagna ég því að ríkisstjórnin ætlar að koma til móts við sauðfjárbændur og framleiðendur á nautakjöti, en sérstaklega við sauðfjárbændur, upp á rúmar 700 millj. kr. Vonandi dugir það til og ég fagna þeirri ákvörðun. Hún hefur hins vegar dregist á langinn að mínum dómi og hefði átt að vera löngu til komin. Alvarlegar afleiðingar veirufaraldursins eru augljósar í landbúnaðinum og sérstaklega hrun í ferðaþjónustunni hefur haft mikil áhrif á neyslu á landbúnaðarvörum. Sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda hafa einnig haft mikil áhrif. Aukinn innflutningur á erlendum búvörum, tollframkvæmdir í ólestri — en það er sérstakt mál sem afar brýnt er að fá niðurstöðu í og hefur verið gríðarlegt högg fyrir landbúnaðinn. Ég hvet stjórnvöld til þess að hraða eins og kostur er rannsókn og athugun á því máli. Það er náttúrlega með ólíkindum að landbúnaðurinn þurfi ofan á allt annað að taka á sig þetta einstaka mál.

Misbrestur í tollframkvæmd á innfluttum landbúnaðarvörum hefur valdið miklu tjóni fyrir landbúnaðinn. Innlend framleiðsla landbúnaðarvara naut ekki þeirrar tollverndar sem lög og alþjóðasamningar áttu að tryggja. Aukinn innflutningur á búvörum hefur þrengt að búvöruframleiðslu í landinu og að íslenska markaðnum. Sala á kjöti alifugla, hrossa, svína, nautgripa og lamba hefur dregist saman um u.þ.b. 10% síðastliðna þrjá mánuði, frá því á sama tíma í fyrra, og miklar birgðir hafa safnast upp, t.d. í mjólkurpróteini, og kjötbirgðir hrannast upp, bæði í búfé á fæti hjá bændum og í birgðageymslum sláturleyfishafa. Auk þess er fyrirséð að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti auglýsi að öllu óbreyttu tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarvörum frá ríkjum Evrópusambandsins, þó aðeins með breyttu sniði, en við í Miðflokknum höfum lagt ríka áherslu á að þessu útboði beri að fresta, að það verði ekkert útboð eins og staðan er núna. Það er náttúrlega mjög sérstakt þegar Evrópusambandið ætlar að aðstoða bændur, að það sé verið að flytja inn landbúnaðarvörur þegar hér er yfirfullur kjötmarkaður. Ég er algerlega sannfærður um að ef Evrópusambandið væri í okkar stöðu væru þeir búnir að loka fyrir allan innflutning einfaldlega vegna þess að markaðurinn er yfirfullur.

Það þarf að fresta þessu útboði. Ég held að það sé alveg ljóst, herra forseti, að verði ekki gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir að meira kjöt komi inn á hinn yfirfulla markað muni það leiða til hruns á verði á kjöti til framleiðenda sem leiðir til keðjuverkunar og við munum sjá gjaldþrot í greininni. Það eru miklar birgðir í mjólkurpróteini, 55% meiri en á sama tíma í fyrra. Í magni samsvarar aukningin 15 milljónum lítra mjólkur. Það fylgir því mikill kostnaður að kaupa, geyma og eiga slíkt magn, bæði þegar kemur að kjöti og mjólkurvörum. Við teljum að það sé þörf á frekari stuðningi við bændur og þess vegna munum við flytja sérstaka breytingartillögu um frekari stuðning við landbúnaðinn vegna veirufaraldursins.

Ég ætla að koma aðeins að tillögu Miðflokksins um breytingar á útvarpsgjaldi þess efnis að fyrirhuguð hækkun á útvarpsgjaldi komi ekki til framkvæmda. Tillagan er í eðlilegu samhengi við tillögu til þingsályktunar sem Miðflokkurinn leggur fram á næstu dögum um breytingar á ráðstöfun á útvarpsgjaldinu. Nánar verður gerð grein fyrir því þegar hún verður lögð fram en tillagan er á þann veg að Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að breyta lögum um ráðstöfun útvarpsgjalds. Lýtur breytingin að því að hverjum og einum greiðanda útvarpsgjalds skuli heimilt að ráðstafa allt að þriðjungi gjaldsins að eigin vali til annarra fjölmiðla. Það er rökrétt að fylgja eftir þessari breytingartillögu við fjárlögin.

Það hefur verið komið töluvert inn á Landspítalann í umræðunni og að ekki sé dregið úr þeirri aðhaldskröfu sem gerð er til Landspítalans. Við tökum undir það að Landspítalinn er stærsta og mikilvægasta heilbrigðisstofnun landsins og hefur á að skipa framúrskarandi starfsfólki sem vinnur óeigingjarnt starf á hverjum degi og oft við erfiðar aðstæður og það hefur svo sannarlega sýnt sig í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn undanfarna mánuði. Reglulega skapast umræður um rekstrarvanda spítalans og nú síðast, eins og áður sagði, um uppsafnaðan vanda frá fyrri árum. Halli hvers árs flyst á milli ára. Lítil frávik verða síðan að stærri vanda. Fjárhagsvandi Landspítalans á sér margþættar rætur. Í þessu árferði er umhugsunarefni hvort fara eigi þá leið að láta spítalann glíma við það að reyna að ná niður þessum uppsafnaða halla vegna þess að við þurfum einfaldlega á öllu því að halda sem við getum tjaldað til í baráttunni við faraldurinn og margar aðgerðir hafa verið settar á ís til að hægt sé að glíma við veirufaraldurinn.

Nú er spítalinn rekinn á um það bil 1 milljarðs kr. lægri upphæð en hann með réttu þyrfti að fá í fjárheimildir. Kjarni málsins er sá að spítalinn og sú þjónusta sem hann veitir vex hraðar en fjárlög gera ráð fyrir þrátt fyrir reiknaðan raunvöxt upp á um 1,8% ár hvert. Spítalinn hefur tekið að sér ný verkefni þar sem fjárveitingar hafa ekki fylgt. Þá erum við að tala um hinn svokallaða fráflæðisvanda. Ég fagna því þó að í frumvarpinu er gerð tillaga um ákveðna upphæð til að fjölga hjúkrunarrýmum sem mun þá væntanleg slá á fráflæðisvandann, sem er mikil áskorun og felur í sér að á spítalanum liggur fólk sem með réttu ætti að dveljast á hjúkrunarheimilum. Hér er um að ræða dýr úrræði. Tímabundið framlag í breytingartillögum meiri hlutans til fjölgunar hjúkrunarrýma um 100 er skref í rétta átt en varanlega lausn verður að finna. Flóknir kjarasamningar hafa verið gerðir sem erfitt hefur verið að kostnaðarmeta, þar á meðal kjarasamningur við lækna árið 2015. Samningurinn var góður fyrir heilbrigðiskerfið en kostnaðarþættir voru vanmetnir. Spítalinn hefur ekki fengið fjármagn til að standa straum af heildarkostnaði við þennan samning. Það er því ýmislegt í þessum málum sem hefur valdið því að spítalinn glímir við fjárhagsvanda.

Við vitum öll að það er brýnt að búa heilbrigðisstarfsfólki viðunandi starfsskilyrði og tryggja þannig að mönnun sé á hverjum tíma fullnægjandi. Mönnunarvandi spítalans er einn af hans stærstu áskorunum. Heilbrigðisyfirvöld hafa ekki lagt fram neinar áætlanir um það hvernig eigi að bregðast við honum til framtíðar. Og nú stendur spítalinn frammi fyrir aðhaldsaðgerðum vegna halla á rekstri.

Stjórnvöld verða að eiga raunhæft samtal við Landspítalann um lausnir. Hafa ber í huga að Landspítalinn er fyrst og fremst bráðasjúkrahús. Það er því eðli þjónustunnar sem spítalinn veitir að hún er ófyrirséð. Af þeim sökum hentar illa að vera á alveg föstum fjárlögum. Bráðamóttaka lokar ekki þegar fjárveiting er búin. Hér þarf meiri sveigjanleika. Við höfum talað fyrir því innan Miðflokksins. Álag á heilbrigðiskerfið eykst jafnt og þétt næstu ár og áratugi með hækkandi lífaldri þjóðarinnar. Ef ætlunin er að tryggja framúrskarandi heilbrigðisþjónustu fyrir alla þarf heilbrigðiskerfið að verða mun skilvirkara. Lýsandi dæmi um vanda kerfisins birtist í því að sjúklingar eru sendir til útlanda í aðgerðir sem kosta þrefalt meira en þær myndu kosta á Íslandi.

Það er náttúrlega líka hugmyndafræðileg stefna ríkisstjórnarinnar sem virðist hafa yfirhöndina að hafa sem minnst samskipti við einkaframtakið í heilbrigðisþjónustunni sem er mjög dapurleg stefna vegna þess að hún bitnar fyrst og fremst á sjúklingunum. Þá þýðir náttúrlega lítið fyrir ríkisvaldið að benda á yfirstjórn Landspítalans og yfirstjórn Landspítalans að benda á ríkið. Þjóðin eldist sem þýðir aukið álag á kerfið. Aldraðir, 80 ára og eldri, þurfa mesta heilbrigðisþjónustu. Auk þess hefur ný heilbrigðistækni rutt sér rúms og hún hefur aukið kostnað. Stjórnvöld verða að horfast í augu við vandann og tryggja langtímafjármögnun mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins.

Ég ætla að koma aðeins inn á eina breytingartillögu Miðflokksins sem snýr að öryrkjum. Við viljum fjölga svokölluðum störfum með stuðningi. Það þarf að vinna markvisst að því að styrkja möguleika fatlaðs fólks og öryrkja á almennum vinnumarkaði. Atvinnuþátttaka öryrkja hér á landi er minni en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við og umfang starfsendurhæfingar er mun minna. Útgjöld hins opinbera vegna örorkulífeyris eru veruleg í flestum löndum OECD. Hátt hlutfall örorkulífeyrisþega og þau miklu útgjöld sem því fylgja hindra vöxt efnahagslífsins og draga úr framboði vinnuafls á vinnumarkaði.

Mörg ríki innan OECD hafa endurskoðað kerfi örorkulífeyris og stuðnings með það að markmiði að auka virkni og þátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkaði. Þessi lönd mátu stöðuna þannig að ef ekkert yrði að gert hefði samfélagið ekki efni á þeirri velferðarþjónustu sem vilji væri til að byggja upp innan heilbrigðisþjónustu og menntakerfisins auk þess að ekki væri unnt að veita þjóðfélagsþegnum framfærslustuðning sem enga möguleika hafa á þátttöku á vinnumarkaði. Öryrkjar búa almennt við mun lakari lífskjör en gengur og gerist meðal þjóðarinnar og fátækt er frekar hlutskipti öryrkja en annarra hópa. Mjög fáir fara af örorkulífeyri aftur í vinnu.

Þannig má segja að einstaklingar sem fara á örorkulífeyri festist auðveldlega í gildru fátæktar og verri lífsgæða til framtíðar. Það er því ákaflega mikilvægt að vinna markvisst gegn því að æ fleiri verði öryrkjar hér á landi og auka þátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkaði. Efla þarf samstarf hins opinbera við atvinnurekendur hvað þetta varðar og auka ábyrgð þeirra. Nokkur lönd innan OECD hafa byggt upp sérstakt hvatningarkerfi fyrir atvinnurekendur á þessu sviði.

Eitt af því er niðurgreiðsla launa hjá starfsmönnum með skerta starfsgetu. Þá fá atvinnurekendur tiltekna fjárhæð á mánuði með hverjum starfsmanni sem síðan fær greidd hefðbundin laun frá atvinnurekendum. Þetta fyrirkomulag er í boði hér á landi í gegnum Vinnumálastofnun en því miður er þessu sniðinn mjög svo þröngur stakkur vegna þess að fjárveitingar vantar. Það er þannig að íslenskur vinnumarkaður tekur lítið sem ekkert við fólki með skerta starfsgetu og það er mjög mikilvægt að skapa öryrkjum raunveruleg tækifæri til atvinnuþátttöku. Ég held að þeir allir hafi áhuga á því og í því sambandi höfum við í Miðflokknum talið mjög svo virðingarvert að skoða það að innleiða skattafslætti til atvinnurekenda sem uppfylla tiltekinn kvóta um hlutfall starfsmanna með skerta starfsgetu.

Í gegnum atvinnu með stuðningi fá þeir sem hafa skerta vinnugetu vegna andlegrar eða líkamlegrar fötlunar aðstoð við að finna starf á almennum vinnumarkaði. Þetta er árangursrík leið sem felur í sér víðtækan stuðning svo þeir geti sinnt starfi á nýjum vinnustað. Vinnusamningar öryrkja eru endurgreiðslusamningar við atvinnurekendur sem hafa ráðið fólk með skerta starfsgetu til starfa og eru ætlaðir til að auka möguleika atvinnuleitenda með skerta starfsgetu til að ráða sig í vinnu á almennum vinnumarkaði. Hér er því um mikilvægt úrræði að ræða fyrir þá sem hafa skerta starfsgetu.

Við í Miðflokknum leggjum fram breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þess efnis að fjölga vinnusamningum öryrkja við atvinnurekendur sem Vinnumálastofnun hefur haft umsjón með, bæði fyrir fullt starf og hlutastarf, og held ég að það ætti að gera mun meira af því að gefa öryrkjum kost á slíkum samningi.

Ég vil aðeins koma inn á fleiri tillögur Miðflokksins en sé að tíminn er að verða liðinn. Ég fagna því að til standi til að bæta fjármunum í svokallaða NPA-samninga sem lúta að málefnum fatlaðra. Það er mjög skynsamleg leið við núverandi aðstæður og við í Miðflokknum styðjum það heils hugar. Að auki vil ég nefna að við leggjum fram breytingartillögu um að veita fé til skattrannsóknarstjóra til að vinna gegn þeirri meinsemd sem ríkir í samfélagi okkar, þ.e. kennitöluflakkinu. Því miður hefur stjórnvöldum mistekist. Dómsmálaráðherra lagði fram frumvarp sem dagaði uppi, og er það mjög miður, sem fól í sér að reyna að vinna bug á kennitöluflakki. Við leggjum áherslu á það í Miðflokknum að Skattinum verði gert kleift að vinna að því að þessi meinsemd í okkar samfélagi hverfi.

Við leggjum auk þess fram breytingartillögu um sérstakt framlag til tollgæslunnar vegna fíkniefnaeftirlits. Það hefur því miður orðið aukning á þeim hörðu efnum sem eru á boðstólum og afar mikilvægt að styðja vel við fíkniefnastarfsemi tollgæslunnar þannig að hægt sé að stunda rannsóknir og uppræta sölu fíkniefna. Við leggjum auk þess áherslu á aukna fjárveitingu til SÁÁ og gerum tillögu um að bæta fjármunum við starfsemi SÁÁ sem er nauðsynleg.

Við í Miðflokknum gerum kröfu um hagræðingu í rekstri allra ráðuneyta vegna þess að það er nú einu sinni þannig að báknið hefur því miður blásið út í tíð þessarar ríkisstjórnar og það er svo sannarlega þörf á því að hagræða í ráðuneytunum. Við leggjum fram breytingartillögu um að bæta við fé til skógræktar o.fl. Ég vil bara hvetja þá sem vilja kynna sér tillögur Miðflokksins frekar að skoða nefndarálitið, sem er aðgengilegt á netinu, og segi þetta gott í bili, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) enda tíminn búinn en mun koma síðar inn í þessa umræðu.