151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og hv. þingmaður gat um áðan og ég kom inn á hér er Ísland lægst í framlögum ríkissjóðs til almannatrygginga meðal OECD-landa. Þetta er að sjálfsögðu áhyggjuefni. Nú veit ég náttúrlega ekki nákvæmlega hvernig þessi skýrsla er til komin, þ.e. hvaða forsendur liggja að baki, en niðurstaðan er þessi. Ég held að ekki sé annað hægt en að taka skýrslu frá OECD trúanlega. Þeir eru þekktir fyrir vönduð vinnubrögð hvað þetta varðar. Hv. þingmaður biður um að ég útlisti nánar hvernig þetta er reiknað út. Það get ég ekki hér og nú, hv. þingmaður. En ég get svo sannarlega bara vísað í skýrsluna og er þá tilbúinn til að taka umræðu við hv. þingmann í því samhengi. Það er vissulega mikilvægt að samanburðurinn sé réttur. Á því sem ég hef skoðað get ég ekki séð annað en að verið sé að bera sömu hlutina saman. Menn geta náttúrlega alltaf haft mismunandi meiningar um það. Aðalatriðið er að það er óverjandi, hv. þingmaður, að þessi ákveðni þjóðfélagshópur, sem eru eldri borgarar, þurfi í raun og veru að borga sjálfum sér um helming af greiðsluskyldu almannatrygginga til lífeyrissjóðs. Ef við berum saman hvað menn hafa milli handanna (Forseti hringir.) eftir skatt og eftir skerðingar þá er alveg augljóst að (Forseti hringir.) þessi hópur ber skarðan hlut frá borði miðað við aðra launamenn.