151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er alveg ljóst, og ég rakti það í ræðu minni, að við hefjum töku lífeyris síðar á lífsleiðinni en þjóðirnar sem við berum okkur saman við, eins og hin Norðurlöndin. Það eitt og sér ætti að gera það að verkum að við ættum að geta gert betur við þann hóp sem við höfum verið að tala hér um, sérstaklega eldri borgara og þá sem eru að hefja töku lífeyris. Þetta er ein breyta sem ætti að vera inni í þessum samanburði sem hv. þingmaður nefndi réttilega. Það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt að verið sé að bera saman rétta hluti. Ég held að það sé alveg hægt að segja að þessi skýrsla sé mjög vönduð, enda ekki við öðru að búast frá þessari stofnun.

Kjarni málsins er sá, hv. þingmaður, það er ljóst og ég hef rakið það í ræðu minni, að þessi ríkisstjórn hefur ekki sýnt það í verki að hún ætli að koma til móts við eldri borgara. Við sjáum það í þessu frumvarpi. Ef við berum saman þá sem eru í lægstu tekjutíund eldri borgara, sem hafa það frekar slæmt á mjög lágum lífeyri, við þá sem eru öryrkjar, sem eru auk þess á lágum lífeyri, þá er þó verið að koma til móts við öryrkja með eingreiðslu, sem er þakkarvert og nauðsynlegt. Á sama tíma er ekki hægt að veita þessum lægstu tíundum neina sérstaka greiðslu. Ég segi: Hvaða rök eru fyrir því? Ég held að þetta sé bara málið í hnotskurn og sýni í raun og veru … (WÞÞ: 400 milljónir.) — Já, þú ert að tala um lægstu tekjutíundina, en það eru tvær aðrar sem eru bara rétt fyrir ofan sem ekki er mætt, hv. þingmaður. Ég held að þetta sýni bara (Forseti hringir.) að menn hafa greinilega ekki áhuga á því að horfa til þessa hóps sem (Forseti hringir.) er mjög stór og við eigum mikið að þakka.