151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:03]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skýrar útskýringar og ég kann vel að meta þær. Já, það er þetta með vandann og aðferðirnar. Ég hef svo sem ekki lausnina, ég skal alveg viðurkenna það. Ég skil vel að landbúnaðurinn er að mörgu leyti öðruvísi en aðrar greinar, ég vil ekki gera lítið úr því. Það er kannski ósanngjarnt, af því að andsvörum er lokið, en ég ætla þó að segja að velferðarsjónarmið dýra eru mjög góð og gild; við viljum fara vel með dýrin og eigum að gera það. Ég átta mig hins vegar ekki alveg á því hvernig þessi stuðningur stuðlar að velferð dýra, hvort það er vegna þess að þá er hægt að halda þeim á fóðrum eða hvort hægt er að aflífa þau og bæta inn á birgðirnar. Ég skil það ekki alveg. En þarna kem ég upp um vankunnáttu mína og ég fæ kannski útskýringu frá þér, Haraldur, utan pontu svo ég skilji þetta, því að ég vil gjarnan skilja þetta mjög vel. Ég ítreka það sem ég sagði í ræðu minni, að ég er alls ekki að draga úr þessum vanda, ég vil draga það sérstaklega fram. Þetta er vandi eins og annar vandi sem bregðast þarf við. Ég setti spurningarmerki við hvort þessi aðferð væri rétt og velti líka fyrir mér skilyrðum sem sett eru, sem ég sé ekki alveg að sé gert varðandi þessa styrki. Það getur vel verið að þau verði sett af hálfu ráðherrans þegar þar að kemur. Það á þá bara eftir að koma í ljós.

(Forseti (BHar): Forseti áminnir þingmenn um að vísa til annarra þingmanna með því að nota ávarpið háttvirtur og síðan fullt nafn.)