151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni ræðuna og samstarfið í nefndinni. Margt í þessari ræðu bar þess merki að hv. þingmaður er vel inni í málum, eins og ég get bara staðfest. Mér finnast breytingartillögurnar sem hv. þingmaður fór mjög vel yfir tala inn í margt af því sem verið er að gera. En ég ætla svo sem ekki að dvelja við það. Hv. þingmaður kom inn á það að horfa til framtíðar og verkefnin til framtíðar og ríkisfjármálin í heild sinni. Hann nefndi forgangsröðun, sem þetta snýst mikið um, þ.e. forgangsröðun í ríkisrekstri. Við eigum að velta því fyrir okkur hvað er bráðnauðsynlegt, nauðsynlegt eða minna nauðsynlegt, eins og hv. þingmaður orðaði það. Þá velti ég því fyrir mér hvort Viðreisn hafi gert það upp við sig hvaða rekstur eigi þá frekar heima hjá markaðnum í stað þess að ríkið standi endilega undir þeirri þjónustu, þ.e. hvaða rekstur eða stofnanir það væru sem Viðreisn myndi leggja til að leggja hreinlega niður eða afhenda markaðnum.