151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:07]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni og formanni fjárlaganefndar fyrir hlý orð í minn garð og sendi þau til baka með sama hætti. Það hefur verið ánægjulegt að vinna í nefndinni sem hefur að mörgu leyti unnið mjög vel og undir styrkri stjórn hv. þingmanns, svo því sé til haga haldið.

Já, ég hef verið að velta þessu svolítið fyrir mér, og við í Viðreisn, með ríkisreksturinn, eins og ég held ég hafi farið yfir í ræðunni. Þessi umræða er stundum svolítið snúin og erfið. Það eru ýmis grundvallaratriði sem er alveg augljóst að ríkið á að sinna. Ég myndi t.d. segja að það kæmi aldrei til greina að lögreglan væri einkarekin eða að fangelsin væru einkarekin eða eitthvað þess háttar. En síðan erum við með ýmsa starfsemi sem er þannig háttað að við viljum að ríkið, þ.e. okkar sameiginlegu sjóðir, tryggi að tiltekin þjónusta sé veitt. Gott dæmi um það er akkúrat það sem ég var að tala um í ræðu minni og varðaði sálfræðiþjónustu. Þar snýst málið ekki um að ríkið eigi ekki að tryggja þjónustuna með því að fjármagna hana. Spurningin snýst frekar um hver eigi að veita hana. Eiga það endilega að vera opinberir starfsmenn eða er sú þjónusta jafn vel eða jafnvel betur komin í höndum einkaaðila? Við vitum það að í heilbrigðiskerfinu erum við með mjög mikinn einkarekstur sem ríkið fjármagnar.