151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[18:56]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hóf fyrra andsvar mitt við hv. þingmann á því að taka einfaldlega upp þráðinn þar sem ég var svolítið að reyna að lýsa því hvernig stjórnvöld innan Evrópusambandsríkja væru að víkja til hliðar ákveðnum reglum. Ég ætla að vera sammála hv. þingmanni, auðvitað eigum við að horfa til þess þegar við setjum landbúnað okkar í samkeppni við slíkt. Mér finnst bara rétt og rökrétt hjá hv. þingmanni að nefna það, hvort við eigum þá að fullnusta þá samninga sem við höfum gert. Ég veit til þess að núna fer fram endurmat á þeim samningi og hann hefur alls ekki virkað fyrir framleiðsluna hér heima inn á Evrópumarkað. Hv. þingmaður talar um tvöfalt áfall þegar lögum og reglum um innflutning hefur ekki verið fylgt. Ég bara segi eins og ég sagði áðan: Ef brotalamir eru í því þá verður að sjálfsögðu að laga það og það er ekkert „ef“ í því. Það verður lagað. Það er ekki hægt að bjóða starfsgrein upp á það að hægt sé að fara á svig við lög sem níða niður samkeppnisstöðu hennar.

Hv. þingmaður spurði hvort fresta ætti útboðum. Ég held við eigum að leita leiða til að tækla þetta ástand. Þær aðgerðir sem boðaðar eru núna við 2. umr. fjárlaga eru í mínum huga bara hluti af frekari aðgerðum sem grípa þarf til vegna búvöruframleiðslu og búskapar í landinu. Ég get sagt við hv. þingmann: Ég trúi því, hvort sem það verður í næstu viku eða snemma á nýju ári, að fjölmargir þættir verði teknir til endurskoðunar. Ég vil benda hv. þingmanni á mjög góða skýrslu sem birt var á vef atvinnuvegaráðuneytisins í gær um samkeppnislög og samanburð samkeppnislaga og starfsumhverfis búvöruframleiðslu á milli landa. Það er mjög áhugaverð lesning, mjög holl fyrir okkur, og við þurfum að taka utan um það og búa okkar innlendu framleiðslu sömu samkeppnislegu skilyrði og aðrir búvöruframleiðendur búa við.