151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:28]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja út í eitt lítið atriði sem ég hnaut um í framsögu hv. þingmanns og snertir styrk til loðdýrabænda. Þingmaðurinn sagði að til stæði að fara í verkefni til að kanna hvernig minkar nýttust við að endurnýta lífrænan úrgang. Mig langar eiginlega bara að spyrja: Hvað þarf að kanna? Minkar hafa frá upphafi ræktunar étið lífrænan úrgang, hann er svona 90–95% þess sem til þeirra kemur. Minkafóður er að uppistöðu til slor og úrgangur frá fiskvinnslu og sláturhúsum og hefur alltaf verið. Mig langar því að velta því upp með hv. þingmanni hvort þetta sé kannski einhver velviljuð tilraun til að skjóta styrkari stoðum undir búgrein sem er á fallanda fæti. Minkarækt var í vandræðum áður en áhrifa Covid fór að gæta. Væri ekki betra að setjast niður með þeim sem starfa í þessum geira og ræða hvort leita eigi að leiðum fyrir fólk að komast út úr minkarækt þannig að fólk lendi ekki í enn meiri vandræðum þegar geirinn hrynur endanlega, sem væri allt eins líklegt, frekar en að vera stöðugt að bæta við einhverjum plástrum eins og því að kanna hvernig gangi að gefa minkum sama fóður og þeir hafa fengið síðustu 80 árin?