151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:30]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er með þetta eins og bændurna og hina sem við höfum verið að fjalla um. Sumir vilja líka meira eða minna leggja niður sauðfjárbúskap, fækka bara bændum og þykir það heppilegt. Þetta séu ekki arðbærar greinar eins og hv. þingmaður er kannski líka að ræða hér, að þetta sé ekki gott og ekki skynsamlegt.

Ég ætla samt að rifja það upp að lögin um dýravelferð á Íslandi, eins og hv. þingmaður þekkir, eru líklega ein framsæknustu lög þegar kemur að dýravelferð. Við þekkjum það alveg að notkun skinna er árþúsundahefð. Og eins og ég sagði áðan hafa sum tískuhús tekið upp aftur notkun á loðskinnum af því hún er umhverfisvænni heldur en margt annað sem þau hafa verið að nota í staðinn, sem er m.a. úr plasti og öðru slíku og hefur miklu stærra kolefnisspor.

Í ljósi stöðunnar í Danmörku hafa okkur borist óskir af því að við séum líklega með besta stofninn hér á landi. Þrátt fyrir allt og þrátt fyrir að þetta sé ekki stór stofn sem er hér á landi þá er von um hærra verð. Það er von um að hægt sé að flytja dýrin líka út, þ.e. lífdýrasala. Hún gefur töluvert af sér og við erum með góðan stofn. Ég held að þegar við erum með dýr sem við getum nýtt þá eigum við að reyna að gera það.

Ég vil líka segja að þetta snýst um förgun á úrgangi sem er uppistaðan í loðdýrafóðri. Ef hv. þingmaður hefur lesið álit meiri hlutans (Forseti hringir.) þá stendur hér að markmiðið með verkefninu sé að kanna kosti minkaræktar til eyðingar á lífrænum úrgangi frá matvælaframleiðendum. (Forseti hringir.) Þrátt fyrir að þeir hafi étið úrgang alla tíð getur í rauninni vel verið að við sjáum enn þá betri og enn þá (Forseti hringir.) rýmri aðferðir sem eru grænni (Forseti hringir.) og að við getum hjálpað bændum til að (Forseti hringir.) gera starfsemina alla grænni.