151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:57]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafði augnabliksáhyggjur af því að ég fengi ekki spurningu frá hv. þingmanni þar sem mér sýndist hann vera farinn. En nei, enda átti ég nú svo sem allt eins von á því að verða spurð út í þetta. Þetta er auðvitað búið að ræða hér talsvert í dag sem og í fyrri umræðu um fjárlagafrumvarpið. Það er náttúrlega búið að margtyggja það hér að gert er ráð fyrir því að bætur almannatrygginga hækki samkvæmt almennri launaþróun en ekki samkvæmt hækkunum lægstu launa. Það er mikilvægt, finnst mér, að hafa í huga að þetta gildir um öll ár, ekki bara þau ár þar sem eru sérstaklega gerðir kjarasamningar. Það eru færð rök fyrir því að til lengri tíma litið hafi þessi aðferð sem nú er beitt skilað viðvarandi kjarabótum til örorkulífeyrisþega.

Að því sögðu ætla ég að segja, eins og ég hef alltaf sagt í gegnum alla þessa umræðu, að ég tel að stóra vandamálið við örorkulífeyrinn sé að það þurfi að gera breytingar á því hvernig bæturnar eru samsettar, það þurfi að auka endurhæfingu þannig að fólk sem lendir í veikindum eða slysum geti aftur komist út á vinnumarkað (Forseti hringir.) og það þurfi sérstaklega að tryggja kjör þeirra sem (Forseti hringir.) ekki eru í þeirri stöðu heldur þurfa að reiða sig á almannatryggingakerfið.