151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[19:59]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ástæðan fyrir því að ég er búinn að spyrja nokkra þingmenn aftur og aftur er einfaldlega sú að einfaldri spurningu minni um það hvort þetta sé réttmæt krafa er aldrei svarað. Það er alltaf farið í einhvern sveig fram hjá því og farið að tala um hvernig kerfið ætti að vera uppbyggt á einhvern annan hátt eða eitthvað því um líkt. En það er ekki það sem ég er að spyrja um. Ég er að spyrja um það að þegar kemur krónutöluhækkun á almennum vinnumarkaði, í almennum samningum, sem augljóslega býr til ákveðinn galla gagnvart 69. gr. — það er bara augljóst — er þá ekki frekar augljóst að annaðhvort ríkisstjórnin stígi inn og lagfæri þann galla sem er í lögunum eða að þingið geri það? Það er rosalega einföld spurning. Gallinn er augljós. Við hljótum að geta sammælst um það að gallinn þarna er augljós. Ef þetta er spurning um sanngirni eða lög þá hljótum við sem löggjafinn að segja: Heyrðu, þetta er galli. Við skulum laga þetta. Er það ekki mjög augljós niðurstaða?