151. löggjafarþing — 35. fundur,  10. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[22:26]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Virðulegur forseti. Mig langaði til að binda enda á þá umræðu sem ég hef átt í dag varðandi spurningar sem ég hef spurt ýmsa þingmenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu varðandi lífskjarasamningana og almannatryggingar. Það hefur komið mjög skýrt fram í þeim svörum þingmanna sem ég hef spurt að þeir vilja ekki svara spurningunni eða þeir svara einhverri annarri spurningu. Það eina sem það segir mér er að svarið er nei, þ.e. að þeir telji ekki réttlætanlegt að fólk sem er á framfærslu almannatrygginga fái hækkun á við lífskjarasamninga. Mín vegna væri auðvelt að svara þeirri spurningu játandi, og segja að ekki séu til peningar fyrir því. Það er svar, miklu betra svar en að forðast að svara. Við erum nú einu sinni stjórnmálamenn og ættum að svara þeim spurningum sem að okkur er beint. Það er alla vega mín skoðun á því.

Það er einfaldlega pólitísk ákvörðun að gefa í aðra höndina lífskjarasamninga með krónutöluhækkun á lægstu launum — það er náttúrlega jafn mikil hækkun á alla en hlutfallslega hæst fyrir þá sem eru lægst launaðir — en veita í hina höndina ekki krónutöluhækkun fyrir þá hópa sem eru á framfærslu ríkisins. Félagsmálaráðuneytið orðaði það nokkurn veginn þannig að það væri rosalega erfitt að gera krónutöluhækkun á almannatryggingum því krónutöluhækkun myndi einfaldlega skerðast fram og til baka út um allt. En það er náttúrlega bara léleg stærðfræði til að byrja með. Þá á að spyrja spurningarinnar: Hvað þurfa bætur almannatrygginga að hækka um mörg prósent til að ná 10.000 kr. þegar allt kemur til alls, með skerðingum og öllu? Svarið, miðað við það sem ég hef fengið eftir að hafa spurt um það, er 7,1%, ekki 3,6% eins og er í fjárlögunum, heldur 7,1%. Það er ekki mjög há tala í sögulegu samhengi. Þessar bætur hafa áður verið hækkaðar um 12%, 13% og 14% á fyrri árum í kjölfar ákveðinna kerfisbreytinga eða skekkju eftir hrunið þar sem var tekin sú ákvörðun að hækka framfærslu almannatrygginga um 0%, nákvæmlega ekki neitt. Tekin var ákvörðun um að fara ekki eftir lögum um almannatryggingar og hækka um 0%. Stjórnarþingmenn hafa svarað í kvöld, þegar spurt er af hverju ekki sé hægt að hækka bætur almannatrygginga á sama hátt og í lífskjarasamningum, að það sé bara verið að fara eftir lögum. Já, strangt til tekið get ég tekið undir það. Það þýðir ekki að ekki sé hægt að bæta við, alls ekki. Þetta er lágmark sem á að hækka. Lögin tryggja ákveðin réttindi, lágmarkshækkun. Ríkisstjórn getur alltaf tekið þá stefnumótandi ákvörðun að hækka meira. Alþingi getur það líka, það hefur nú einu sinni fjárveitingavald.

Við skulum bera þetta saman við annan mjög svipaðan hóp sem er á framfærslu hins opinbera og fær hækkun samkvæmt almennri launaþróun, að vísu bara almennri launaþróun opinberra starfsmanna. Það eru þingmenn, sem fá hlutfallshækkun. Við fáum ekki krónutöluhækkun, við fáum hlutfallshækkun samkvæmt almennri þróun opinberra launa. Ég spurði hver sú hækkun væri sem á að taka gildi um áramótin. Hún átti upphaflega að taka gildi 1. júlí en vegna faraldursins var ákveðið að fresta þeirri hækkun til áramóta þannig að ég spurði: Hvað hækka laun þingmanna og ráðamanna mikið um áramótin? Ég fékk ekki svar. Ég bað ráðuneytið um að koma með svar þá eftir helgi, síðastliðinn mánudag, þannig nægur tími væri til að undirbúa svarið og koma með það á mánudag. Ég spurði á mánudaginn: Hvað á að hækka laun þingmanna og ráðherra mikið? Þá var ráðuneytið ekki með svarið og þá átti að senda það strax eftir fundinn. Síðan liðu dagar. Nú er kominn fimmtudagur og mér er sagt, eftir að búið er að ýta á eftir því að fá svar, að það komi á morgun. Það verður áhugavert að sjá hvað það verður, hvort það verður 3,6% eða eitthvað hærra, hvort það verður krónutöluhækkun eins og í lífskjarasamningunum eða hvað. Ég vildi bara hafa það algerlega á hreinu að já, verið er að fara eftir ströngustu skilyrðum laganna í hækkun á framfærslu almannatrygginga. En nei, þess þarf ekki. Ríkisstjórnin getur, eins og með alla aðra stefnu stjórnvalda, ákveðið að gera annað, bæta í umfram lágmarksskyldur. Það á við allt hjá okkur. Við skulum hafa það alveg á kristaltæru að það er greinilega ekki verið að taka pólitíska ákvörðun um að gera neitt umfram það sem er algjört lágmark samkvæmt lögum.

Þetta lágmark samkvæmt lögum er dálítið vandamál því að í lögunum stendur að framfærslan eigi að fylgja almennri launaþróun, sem er ekki til sem hagstærð eða neitt slíkt, eða að lágmarki hækka sem nemur vísitölu neysluverðs. Nú hefur það gerst nokkrum sinnum á þeim rúmlega 20 árum sem lögin hafa verið í gildi að framfærsla almannatrygginga hefur ekki hækkað umfram vísitölu neysluverðs eftir á að hyggja, þ.e. vænt launaþróun og vænt vísitala neysluverðs var lægri en hún varð í raun og veru, þ.e. hækkun framfærslu, eins og hún var ákveðin í fjárlögum, var lægri en launaþróun og vísitala neysluverðs varð síðan í reynd. Það var ekki einu sinni satt að framfærslan hækkaði, a.m.k. ekki eins mikið og vísitala neysluverðs. Á þessum rúmlega 20 árum hins vegar hefur sú tala haldist nokkuð stöðug umfram vísitölu neysluverðs. Yfirleitt hefur hækkunin verið meiri en verðbólga hefur verið. Kjarabætur sem slíkar umfram vísitölu neysluverðs eru rétt tæplega 40% á þessum 20 árum eða svo, 20% umfram verðlagsþróun. Skýrsla um launahækkanir frá 2006–2015, á hluta þess tíma, unnin af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ríkinu og aðilum vinnumarkaðarins, sem var skilað árið 2015 að mig minnir, sýndi að laun opinberra starfsmanna og laun á almennum markaði höfðu hækkað um tæplega 80% umfram verðlag, kaupmáttur hafði aukist á tíu árum um 70–80% á meðan framfærsla samkvæmt almannatryggingum hækkaði um tæplega 40%. Sá munur sýnir okkur hver gallinn er í annaðhvort lagasetningunni hérna um lágmarkið á því hvernig almannatryggingar fylgja eftir almennri launaþróun, eða í framkvæmdinni. Annaðhvort eru lögin gölluð eða framkvæmdin ef markmiðið er að fylgja almennri launaþróun, því þarna er munurinn heil 40 prósentustig, bara á þessum áratug, hvað þá á 20 árum. Það er vandamálið í hnotskurn.

Þegar við sjáum í dag þá ákvörðun að hækka lífskjarasamninga um krónutölu, hækka lægstu laun um krónutölu, en framfærslu almannatrygginga ekki um krónutölu heldur með hlutfallsstærð samkvæmt almennri launaþróun, sem er lægri tala, 3,6% en ekki 7,1% eins og ætti að vera, þá eykst sá munur enn meira. Ég held að það sé algerlega kristaltært og algerlega skýrt að það er einfaldlega ekki pólitískur vilji hjá ríkisstjórninni eða geta til uppfæra framfærslu almannatrygginga á sama hátt og lægstu laun í lífskjarasamningunum. Tekin er sérstök ákvörðun um að hækka lægstu laun á almenna markaðinum. Einnig er tekin sérstök ákvörðun um að framfylgja ekki sambærilegri stefnu fyrir þá hópa sem hafa ekki verkfallsrétt. Ekki hafa þingmenn verkfallsrétt og mætti í rauninni segja að þeir séu háðir nákvæmlega sömu skilyrðum og framfærsla almannatrygginga, þ.e. að þetta er ákveðið framfærslufé. Ef við erum með laun þá er framfærsla samkvæmt almannatryggingum líka laun, þar eru nákvæmlega sömu skilyrði. Munurinn finnst hins vegar í lögunum þar sem í lögum um launahækkanir þingmanna er notuð raunhækkun á þróun launa opinberra starfsmanna. Hversu mikið þau laun hafa í alvörunni hækkað stjórnar því hversu mikið laun þingmanna hækka en í framfærslu á lífeyri er það almenn þróun á almenna markaðnum, spá um hver hún verður í raun og veru. Hún hefur ítrekað verið lægri. Spáin hefur ítrekað verið lægri, aftur og aftur, ég held að það séu sex ár eða svo á þessum 20 þar sem hækkunin hefur verið umfram launaþróun, umfram nákvæmustu ágiskun um launaþróun.

Fleiri skýrslur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sýna þróun launa hjá starfsmönnum sveitarfélaga á sama tíma og verið er að sýna hvernig launavísitalan þróast. Launavísitalan þróast pínulítið hærra en laun almennra opinberra starfsmanna hafa þróast, sem sýnir að launavísitalan er nokkuð nákvæm. Hún segir ekki 100% nákvæmlega til um launaþróun en er mjög nálægt því. Þegar við segjum að það vanti alveg 50% viðbót á framfærslu almannatrygginga, ef við miðum við launavísitöluna, þá er það bara nokkuð nærri lagi. Það er nákvæmlega það sama og allir eru að segja þegar þeir tala um hver talan þyrfti að vera fyrir framfærslu almannatrygginga. Ef þessum 50% væri bætt við erum við komin í þá tölu. Fólk hefur nokkuð rétt fyrir sér í sínum viðmiðunum hvað það varðar, merkilegt nokk. Þetta er verkefni sem við þurfum að takast á við en það er alla vega ekki tekið á því vandamáli í fjárlögunum núna, a.m.k. að laga það samkvæmt lífskjarasamningunum. Það er ekki tekið á því vandamáli og þar af leiðandi verður gliðnunin enn þá meiri og vandamálið í framtíðinni við að glíma við þá gliðnun verður enn þá stærra.