151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um fjárlög næsta árs. Ríkissjóður verður rekinn með tæplega 320 milljarða kr. halla til að bregðast við áhrifum kórónuveirunnar og standa vörð um velferðina á sama tíma. Hér er um að ræða umfangsmiklar aðgerðir til að koma til móts við fólk, heimili og fyrirtæki vegna tekjutaps og atvinnumissis, félagslegar aðgerðir sem nýtast börnum og fjölskyldum þeirra og einnig aðgerðir til að styrkja félagslega stöðu aldraðra eftir einangrunina sem hefur fylgt heimsfaraldri. Á sama tíma gefum við ekkert eftir í því að standa vörð um velferðina í landinu. Það stendur til að bæta við allt að 100 hjúkrunarrýmum á næsta ári. Við erum að styrkja skólana í landinu sem hafa lyft grettistaki á árinu. Við erum að gera grundvallarbreytingu á tryggingakerfinu og svo mætti lengi telja. Þetta eru tímamótafjárlög.