151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:10]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við göngum nú til atkvæða um fjárlög fyrir árið 2021. Ríkisstjórnin er í snúinni stöðu, ekki síst vegna eigin verka. Við bentum ítrekað á það að ríkissjóður var þegar orðinn ósjálfbær löngu fyrir Covid. Ofan af þessu verður ekki undið með einum fjárlögum en ríkisstjórnin gæti gengið mun lengra í sértækum aðgerðum fyrir þær fjölskyldur og fyrirtæki sem eru í viðkvæmastri stöðu og skemur í almennum stuðningi sem ekki mun gagnast í viðspyrnu atvinnulífsins.

Ríkisstjórnin þarf líka að vera raunsæ varðandi áhrif á framtíðarhorfur þjóðarbúsins vegna skuldastöðunnar. Hér skortir heildræna hugsun, skil á milli tímabundinna aðgerða og hugsjónar til næstu fimm, tíu, tuttugu ára. Tillögur meiri hlutans til breytinga á fjárlagafrumvarpinu eru margar til bóta en á heildina litið tel ég að frumvarpið beri ekki merki um framsýni eða ráðdeild þannig að ég efast stórlega um að geta stutt frumvarpið í lokaumferð.