151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra og þakka Alþingi fyrir að hafa staðið sig með eindæmum vel í gegnum allan þennan heimsfaraldur. Þegar við samþykktum fjárlögin fyrir þetta ár sáum við þennan heimsfaraldur ekki fyrir og hvað þá áhrifin sem hann hefur haft á efnahagslíf samfélags okkar sem og annarra samfélaga. Það sem við erum að fara að afgreiða hér í dag eru fjárlög sem endurspegla þá sterku innviði sem við eigum í samfélaginu og þann einbeitta vilja okkar að geta spyrnt hratt við þegar við ráðum bug á veirunni þannig að efnahagslífið og samfélagið geti risið hratt upp aftur. Ég hef fulla trú á því að með því að beita afli ríkisfjármálanna, eins og við erum að gera af fullum krafti, þá muni það takast hratt og vel, enda byggjum við á öflugum innviðum.