151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[14:15]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir breytingartillögu Miðflokksins sem er í tvennu lagi. Annars vegar eru 250 milljónir sem er aukið fjármagn til að koma til móts við innlenda matvælaframleiðendur í landbúnaði. Hún hefur ekki aðeins orðið fyrir búsifjum vegna fækkunar ferðamanna heldur einnig og ekki síður vegna alvarlegs misbrests við tolleftirlit með innflutningi á landbúnaðarafurðum, sem hefur valdið birgðasöfnun á mörgum póstum í framleiðslu landbúnaðarvara. Aðgerðir ríkisstjórnar í þeim efnum eru ekki nægilegar.

Hins vegar er um að ræða aukið fjármagn til skógræktar. Þar þurfum við að gera miklu betur. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin er ekki að auka skógrækt að neinu marki og allra síst til kolefnisbindingar. Við viljum auka skógrækt til kolefnisbindingar sem öflugt framlag okkar Íslendinga í þeim efnum.