151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[14:48]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Heilbrigðisstofnanir í umdæmum landsins stíga allar sem ein krappa ölduna í rekstri, hvort sem það er fyrir austan, vestan, sunnan eða norðan. Áður en faraldurinn skall á voru þegar blikur á lofti og sumar stofnanir í vanda. Fyrirsjáanlegt er að heilbrigðiskerfið verður undir miklu álagi á næstu misserum í kjölfar tafa og lokana og skertrar þjónustu í Covid-faraldri og vandinn hrannast upp. Stofnunum er búið ömurlegt rekstrarumhverfi, annaðhvort að safna skuldum eða leita á náðir bankanna eftir rekstraraðstoð og yfirdrætti. Stjórnvöld neita að horfast í augu við þessar staðreyndir og spurt er: Hvað varð um þau loforð frá síðustu kosningum um að heilbrigðisþjónustan skyldi njóta algjörs forgangs? Þjóðin var sammála en þessi ríkisstjórn er ekki sammála.

Herra forseti. Það er villa í þessu þingskjali sem ég vil gjarnan geta um. Það á að standa 1 milljarður í stað 4 og óskast það leiðrétt í þingtíðindum.