151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[14:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Heilbrigðisstofnanir úti um land hafa gegnt algjöru lykilhlutverki í baráttunni við Covid-19 en ekki síst heilsugæslan. Mér hefur verið það sérstök ánægja, í samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnanir og forstjóra þeirra um allt land, að leggja sérstaka áherslu á uppbyggingu heilsugæslunnar á þessu kjörtímabili. Við höfum stóreflt heilsugæsluna. Við höfum byggt upp geðheilsuteymi í öllum heilbrigðisumdæmum. Við höfum byggt upp Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu fyrir öll umdæmin. Við höfum byggt upp heilsueflandi móttökur. Allir þekkja grettistakið varðandi sýnatöku vegna Covid. Næsta verkefni verður skimun vegna leghálskrabbameins. Núna höfum við bætt við 540 milljónum á landsvísu til að tryggja enn betur geðheilbrigðisþjónustu landsmanna á erfiðum tímum.

Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður okkar í heilbrigðisþjónustunni og hún hefur heldur betur styrkt sig í þeim sessi á þessu kjörtímabili.