151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Stjórnarmeirihlutinn og hæstv. ríkisstjórn hefur hækkað launatengdar atvinnuleysisbætur eða lengt tímann upp í sex mánuði fyrir suma. Stjórnarmeirihlutinn virðist halda að þau sem misstu vinnuna í febrúar séu betur stödd í atvinnukreppunni í heimsfaraldri en þau sem misstu vinnuna í mars. En ég hef fréttir að færa stjórnarmeirihlutanum. Svo er ekki. Þau sem misstu vinnuna í febrúar eiga ekki auðveldara með að fá vinnu en þau sem misstu vinnuna í mars. Þessi tillaga hér, sem mér sýnist stjórnarmeirihlutinn ætla að fella, (Gripið fram í: Hvað segirðu?) er á þann veg að við getum látið öll fá þá lengingu, sem voru atvinnulaus í ágúst þegar stjórnarmeirihlutinn (Forseti hringir.) lagði fyrst til breytingar á launatengda tímabilinu. Þetta eru 4 milljarðar til þess að láta eitt yfir alla ganga vegna þess að allir (Forseti hringir.) sem eru atvinnulausir í atvinnukreppu eru í miklum vanda. Það er fáránlegt (Forseti hringir.) að vera að sortera fólk, sumir fá sex mánuði tekjutengda en hinn helmingurinn, (Forseti hringir.) þessi 10.000 sem voru atvinnulaus í febrúar, fá það ekki. Það er óréttlæti.