151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[15:59]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um ýmislegt en þar á meðal viðbótarfjárhæð til Samtakanna '78 sem eru að sinna mjög mikilvægri stuðningsþjónustu við hinsegin fólk og við hinsegin ungmenni, sem er sérstaklega mikilvægt. Þetta bætist við það framlag sem Samtökin fá nú þegar í gegnum forsætisráðuneytið. Ég tel þetta afar góða og jákvæða tillögu sem mér sýnist að verið sé að samþykkja. Það er einnig verið að leggja til, í þessum og ýmsum fleiri liðum sem við höfum verið að greiða atkvæði um í dag og eigum eftir að gera, aukið fjármagn í forvarnaáætlun og það tel ég líka mjög gott. Það er einmitt með því að auka forvarnir og fræðslu um kynferðisofbeldi og kynbundið ofbeldi sem við getum vænst þess að eiga betra samfélag í framtíðinni. Ég greiði því atkvæði með þessu.