151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[16:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Eins og fram hefur komið þá greiðum við atkvæði um nokkur málefni, m.a. það að fjármagna kaup á bóluefni gegn Covid-19, en við áformum að gera allt í allt samninga við sex aðila um þessi kaup. Í fyrradag voru undirritaðir samningar við Pfizer um 170.000 skammta sem duga fyrir 85.000 manns og áætlað er að fyrstu skammtarnir frá því fyrirtæki komi nú um áramótin og dugi til að bólusetja 10.600 manns. Það verður fyrsta skrefið í bólusetningunum. Bæði skipulag og framkvæmd bólusetningar er í raun og veru komið en verið er að prufukeyra tölvukerfið og verður það tilbúið nú um miðjan mánuðinn. Með því að hefja þessar bólusetningar hefst nýr kafli í baráttunni við Covid-19.