151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[16:02]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegur forseti. Hér er Flokkur fólksins að óska eftir því að við bætum við það fé sem meiri hluti fjárlaganefndar er að leggja í málaflokkinn, sem er 787,5 millj. kr. viðbót. Við erum að óska eftir því að bæta við það 160 millj. kr. sem er nákvæmlega það sem við ætlum að setja í minkana okkar næstu tvö árin. Það eru á þessu ári og því næsta akkúrat 160 millj. kr. sem við ætlum að setja í þann málaflokk. Það hefði kannski verið nær að aðstoða loðdýrabændur við að koma upp einhverju sem væri í raun arðbært en ekki á fallandi fæti. Við vitum öll að biðraðir eru að lengjast. Við vitum öll um vaxandi fátækt. Við vitum öll að það eru að koma jól. Ég get ekki skilið að við getum ekki tekið 160 millj. kr. og deilt því niður á hjálparstofnanir til þess að sýna að við erum tilbúin til að sjá til þess að börnin okkar fái almennilega að borða um jólin.