151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[16:08]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Þá kemur hér að, eins og hv. þingmaður sagði í atkvæðaskýringu við allt annað mál, næst til atkvæða tillaga frá allsherjar- og menntamálanefnd á þskj. 557, sem er breytingartillaga við sundurliðun 2 og felur í sér lista yfir þá sem nefndin leggur til að þiggi heiðurslaun listamanna á næsta ári, 25 einstaklingar. Forseti er ekki í nokkrum minnsta vafa um það að þinginu er heimilt að samþykkja þessa tillögu í einu lagi, það er jafn gild atkvæðagreiðsla og ef greitt væri um hvern mann fyrir sig. Það helgast af því að til þess standa skýr ákvæði í þingsköpum og á móti stendur réttur þingmanna til að óska eftir því að brjóta upp atkvæðagreiðsluna. Forseti hvetur hv. þingmenn til að hugsa sinn gang áður en þeir bera fram slíka ósk, af ástæðum sem ég held að allir hljóti að skilja.

Það mál sem nefnt var af hv. þm. Bergþóri Ólasyni er allt annars eðlis vegna þess að þar kom við sögu annað lagaákvæði, bráðabirgðaákvæði í lögum um dómstóla eða skipan dómara og það snerist um það, en ekki um að Alþingi væri ekki heimilt að fara að sínum eigin þingsköpum og greiða atkvæði í samræmi við þau, enda er Alþingi sjálfstætt og sjálfráða í störfum sínum og enginn segir því fyrir verkum.