151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[16:11]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrr á árinu var frestað gildistöku þess að þingmenn og ráðherrar hækkuðu í launum. Í staðinn á það að gerast núna um áramótin sem þýðir að fjárheimild vegna þess ætti að vera skýr. Í stjórnarskrá Íslands segir að ekkert gjald megi greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Við eigum að vita upp á hár hver hækkun launa þingmanna og ráðherra verður á næsta ári. Það ætti að leita eftir fjárheimild fyrir henni í fjárlögum næsta árs. Ég hef ítrekað spurt hver þessi hækkun verði. Ég hef ítrekað fengið að heyra að svör berist strax eftir fundinn, strax eftir helgi, á morgun. Núna er eftir helgi, eftir fundinn og á morgun. Ekkert svar hefur borist. Ég er ósamþykkur því að þetta sé komið á þennan stað. Ég hefði viljað greiða atkvæði gegn hækkuninni eins og Píratar (Forseti hringir.) lögðu til þegar hækkun launa þingmanna var frestað fyrr á árinu. Ég kvarta undan því að (Forseti hringir.) fjárheimildar sé ekki getið vegna þessara breytinga fyrir næsta ár.