151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

20. mál
[16:07]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp um kynrænt sjálfræði, breytt aldursviðmið. Ég vil byrja á því að þakka framsögumanni fyrir ræðuna. Í lögum um kynrænt sjálfræði sem voru afgreidd hér á síðasta þingi má segja að það mál sem við ræðum hér hafi verið sett í ákveðið ferli. ´Ákveðið var að leggja til endurskoðun á viðmiðum um aldur þeirra sem breyta skráningu kyns. Á síðasta þingi var ákveðið í meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar að setja aldursviðmið í 18 ár. Þetta var ákveðið þar sem varhugavert gæti verið að börn frá 15 ára aldri gætu breytt skráningu sinni á kyni án þess að afstaða forsjáraðila lægi fyrir. Þetta var þá talið þungbært fyrir barnið og ég tek undir það sjónarmið. Ég er á því að nauðsynlegt sé að tryggja barni og fjölskyldu þess eða forsjáraðila stuðning og ráðgjöf. Samhliða þarf að huga að því að börn með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir gætu þurft aukaaðstoð. Það skal einnig sagt hér að 15 ára aldursviðmið er sagt samræmast rétti barna til að hafa áhrif á eigið líf.

Í nefndaráliti frá síðasta þingi lýsti meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar yfir skilningi á báðum sjónarmiðum. Þá taldi meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar rétt að miða við 18 árin en fela starfshópi að athuga hvort æskilegt væri að aldursviðmiðið yrði 15 ár. Í starfshópnum áttu sæti barnaskurðlæknir, barnainnkirtlalæknir, barnasálfræðingur, fulltrúi Intersex Íslands, fulltrúi Samtakanna '78, kynjafræðingur, siðfræðingur og tveir lögfræðingar, annar með sérþekkingu á réttindamálum barna en hinn með þekkingu á mannréttindum. Lauk hópurinn störfum í ágúst 2020 og var niðurstaða hans að sjálfstæður réttur til að breyta opinberri skráningu kyns ætti að miðast við 15 ára aldur. Með leyfi forseta:

„Starfshópurinn telur að unglingar hafi við þann aldur almennt nægan þroska til að taka afstöðu til þess hvort rétt sé fyrir þau að breyta kynskráningu og geri sér grein fyrir afleiðingum þeirrar ákvörðunar.“

Í skýrslunni lagði starfshópurinn þó áherslu á að jafnframt yrði að tryggja stuðning við unglinga sem ekki nytu stuðnings forsjáraðila við breytingu á skráningu kyns og benti á leiðir til þess. Þá lagði starfshópurinn til að réttur einstaklinga undir 18 ára aldri til að breyta aftur kynskráningu sinni yrði leyfður.

Þá er það frumvarpið sjálft en í 1. gr. eru lagðar til breytingar á 4. og 5. gr. laga um kynrænt sjálfræði þess efnis að réttur til að breyta opinberri skráningu kyns og samhliða nafni miðist við 15 ára aldur í stað 18 ára. Lagt er til að sérhver einstaklingur sem hefur náð 15 ára aldri hafi rétt til að breyta skráningu á kyni sínu í þjóðskrá. Síðan er sagt að börn yngri en 15 ára geti með fulltingi forsjáraðila sinna breytt opinberri skráningu kyns síns.

Ég get vel tekið undir að unglingar sem upplifa kynmisræmi eru afar viðkvæmur hópur. Þeir geta orðið fyrir áreitni og ofbeldi, bæði líkamlegu og andlegu, niðurlægingu og mismunun. Það á við um fleiri hópa. Þetta getur orsakað óöryggi, félagslega einangrun, vanlíðan og geðræn vandamál eða áskoranir. Ég tek undir að sjálfsmynd og sjálfsmat eru mikilvægir þættir félagslegrar heilsu. Starfshópurinn náði þeirri niðurstöðu að 15 ára barn hefði nægan þroska til að taka ákvörðun um að breyta kynskráningu sinni. Starfshópurinn sagði einnig að ákvörðunin væri afturkræf og einföld í framkvæmd en benti jafnframt á mikilvægi þess að auðvelt yrði fyrir börn að breyta aftur ef þeim snerist hugur.

Í mínum huga er þetta stór ákvörðun og ef barn ætlar að breyta opinberri kynskráningu upp að 18 ára aldri verði það að vera gert í samráði við foreldra eða forsjáraðila. Ég læt þetta duga.