151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[16:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í umfjöllun um einstakar greinar frumvarpsins — og ég vil nú byrja á að þakka hv. framsögumanni fyrir hennar ágætu ræðu — segir um 1. gr., með leyfi forseta:

„Skilgreiningin er ekki í grundvallaratriðum læknisfræðileg heldur byggist á því að kyn sé að verulegu leyti félagslegt fyrirbæri. Í frumvarpinu er þannig gengið út frá því að ódæmigerð kyneinkenni séu hluti af samfélagslegum fjölbreytileika en ekki læknisfræðilegt vandamál.“

Í 4. gr. þar sem talað er um hvað þurfi að meta þegar á að breyta þessum kyneinkennum segir hins vegar að ef barnið sé, með leyfi forseta, „ófært um að gefa til kynna vilja sinn skal þó heimilt að breyta varanlega kyneinkennum þess ef heilsufarslegar ástæður krefjast, að undangengnu ítarlegu mati á nauðsyn breytinganna og afleiðingum þeirra til skemmri og lengri tíma“.

Síðan segir: „Félagslegar, sálfélagslegar og útlitslegar ástæður teljast ekki heilsufarslegar.“ (Forseti hringir.)

Þannig að hér er verið að segja að það þurfi heilsufarslegar ástæður til að mega ganga í gegnum þessar breytingar þó svo að skilgreiningin sé sú (Forseti hringir.) að þetta sé félagslegt vandamál.