151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[17:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki vinnu þessa starfshóps og sé að það voru tveir læknar í þessum tíu manna hópi og annar þeirra er, eftir því sem ég kemst næst, eini læknirinn sem kom fyrir nefndina til að fjalla um málið, þ.e. mál sem viðkomandi hafði sjálfur unnið að. En ég geri ráð fyrir að þessir læknar eigi, eins og ég gat um í ræðu minni, heiðurinn af þeim varnöglum sem þó eru slegnir í þessu frumvarpi enda kom fram að þessir varnaglar hefðu verið gagnrýndir í starfshópnum og af hálfu þeirra sem komu fyrir nefndina. En hv. þingmaður kemur hér upp og segist ekki ætla að fara yfir allar rangfærslurnar sem ég hafi flutt. Ég var eingöngu, herra forseti, að vitna í frumvarpið sjálft og því spyr ég hv. þingmann: Var þetta bara enn ein yfirlýsingin út í loftið eins og einkennir því miður umræðu um þetta mál? Eða getur hv. þingmaður nefnt eina, ég bið ekki meira, eina rangfærslu í máli mínu hér?