151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[17:48]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrra andsvari sagði hv. þingmaður að ég hefði farið með fjölda rangfærslna. Nú segir hv. þingmaður að rangfærslan hafi verið sú að ég hafi sagt að heilbrigðisstarfsmenn væru á móti þessu og hefðu ekki komið að málum. Ég fjallað einmitt um það, eins og hæstv. forseti tók eflaust eftir, með hvaða hætti aðkoma heilbrigðisstarfsfólks hefði verið að þessu máli og benti á að varnaglarnir sem þó væru til staðar væru eflaust frá því fólki komnir. En það sem liggur fyrir er að nefndin hefur ekki, og raunar ekki heldur nefndin sem undirbjó frumvarpið, lagt verulega áherslu á að leita til vísindamanna, til heilbrigðisstarfsfólks, til lækna, til sérfræðinga á þessu sviði sem varðar líkama fólks, líkama barna, heldur þvert á móti leitað til, að því er virðist, pólitískra samherja sem taka undir setningar eins og þá sem ég vísaði í áðan, að þetta sé í rauninni ekki læknisfræðilegt mál heldur byggist á því að kynin séu að verulegu leyti félagslegt fyrirbæri, sama fólk og segir svo reyndar að ekki megi veita börnum lækningu af félagslegum ástæðum, eins sérkennilegt og það nú er.

Hv. þingmaður fór svo rangt með og hélt því fram að ég hefði sagt að heiti frumvarpsins ætti að vera börn með meðfædda kvilla sem hægt er að lækna. Það var ekki það sem ég sagði en hins vegar liggur fyrir, talandi um meðfædda kvilla, að með frumvarpinu er fjöldi barna með meðfædda kvilla sem hægt er að lækna sviptur möguleikanum á því að fá slíkar lækningar eins og svo fjölmörg börn hafa fengið undanfarin ár og áratugi og lifað betra lífi fyrir vikið.