151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[19:32]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð nú að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér þetta mál sérstaklega. Ég sit ekki í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég hef setið og hlustað á þessa umræðu. Ég hef reynt að átta mig á skilgreiningunni á ódæmigerðum kyneinkennum í frumvarpinu og ég er eiginlega engu nær. Ég vildi gjarnan spyrja hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson, sem ég heyri að hefur kynnt sér málið mjög vel, hvort hann geti upplýst mig aðeins nánar í einföldu máli hvað ódæmigerð kyneinkenni eru. Er þetta líffræðilegur kvilli, sem er þá læknanlegur, alveg jafn ljóst í sjálfu sér hvors kyns viðkomandi barn er, eða er það óljóst hvers kyns barnið er? Er þetta þá einhver öðruvísi kvilli en bara aðrir kvillar sem við erum að glíma við? Það eru ýmsir líffræðilegir kvillar sem við tökum bara ákvörðun fyrir börnin um að laga. Er þetta öðruvísi eða er þetta bara einn af þessum kvillum sem við getum lagað eða hvað er þetta nákvæmlega? Nú er það þekkt að við tökum alls konar ákvarðanir fyrir börn með velferð þeirra í huga og það er eiginlega hlutverk okkar foreldranna að gera það. En er þetta eitthvað sérstakt þegar kemur að kynfærum eða þvagrás umfram aðgerðir í góm eða á hrygg eða eitthvað? Getur hv. þingmaður upplýst þetta?