151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[19:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekki bara blind pólitík, þetta eru í raun trúarbrögð. Þess vegna er þetta tengt sérstaklega við þá kvilla sem tengjast þvagfærum eða kynfærum. En eins og segir í rökstuðningi í frumvarpinu þá eru fæðingarkvillar hluti af einkenni einstaklingsins og það má ekki svipta einstaklinginn því einkenni, jafnvel þó að einkennið geti orðið til trafala fyrir viðkomandi fyrir lífstíð. En nú skal ég segja hv. þingmanni hvað er hugsanlega brjálæðislegast af öllu í þessu samhengi. Það kemur í raun fram að kvilla sem geti leitt til eineltis megi ekki lækna nema barnið sé orðið fullorðið og biðji um það þá. Kvillar sem geti leitt til eineltis séu það mikilvægur hluti af einkenni barnsins, af því að þeir geta leitt til eineltis, að það megi ekki lækna þá. Þetta er náttúrlega algjört brjálæði, virðulegur forseti. En þessu er lýst í frumvarpinu og er til marks um að þetta er ekki bara blind pólitík heldur einhvers konar öfgatrú. Það að einhver verði fyrir einelti vegna einhvers þýðir að jafnvel þó að hægt sé að hjálpa viðkomandi á tiltölulega einfaldan hátt megi ekki gera það vegna þess að hlutir sem geti leitt til eineltis séu vernduð einkenni. Þess vegna segi ég, virðulegur forseti, að þetta er ómannúðlegt mál. Þetta er mál sem er augljóslega ekki tilbúið til að koma til umræðu í þingsal, enda hefur ekki verið fjallað um það sem skyldi af sérfræðingum á því sviði sem málið heyrir undir. Þetta er öfgatrú sem er ætlast til að Alþingi innleiði hér með sem minnstri umræðu.