151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[19:52]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að halda áfram þar sem frá var horfið í fyrstu ræðu minni um þetta stóra og mikla mál, ég náði ekki að koma öllu að í fyrri ræðu. Ég vil segja það í upphafi, forseti, fyrir þá sem sitja heima og fylgjast með þessari umræðu hér á Alþingi, að það er vel hugsanlegt að einhverjir skilji ekki alveg um hvað þetta mál snýst. Þess vegna ætla ég að reyna að setja það í einfalt samhengi svo landsmenn skilji. Þetta mál er í raun og veru það sama og að meina foreldrum að bólusetja börnin sín. Það er ósköp einfalt. Verið er að taka ákvörðunarvaldið af foreldrunum þegar barn fæðist með ódæmigerð kyneinkenni eins og kallað er, en það er í raun og veru bara fæðingargalli á kynfærum. Ef barn fæðist með kynfæri sem eru ekki venjuleg, ef má orða það þannig, þá hafa foreldrar tekið þá ákvörðun að barnið skuli fara í skurðaðgerð, í samráði við sérfræðinga auðvitað, til að laga það. En með þessu frumvarpi er verið að banna að þetta sé gert, nema hreinlega að lífshætta vofi yfir barninu. Þess vegna snýst þetta um velferð barnsins og skyldur gagnvart því. Ef við tökum annað dæmi um barn sem fæðist með skarð í vör, þá er það svona ódæmigert andlitseinkenni, ef við getum sagt sem svo, ef við setjum það í samhengi við þetta. Þeir hlutir eru alltaf lagaðir af skurðlæknum og sérfræðingum.

En það sem veldur mér áhyggjum hvað þetta mál varðar og mér finnst hafa verið lítið rætt hér, herra forseti, er hvað gerist ef þessi fæðingargalli á kynfærum er ekki lagaður. Við höfum frábæra tækni í dag. Gríðarlegar framfarir hafa orðið í aðgerðum á fáeinum árum þannig að það er orðið mjög auðvelt að gera margar slíkar aðgerðir. Þegar þær eru gerðar á ungum börnum er það miklu auðveldara en síðar á lífsleiðinni og þegar það er auðveldara fyrir skurðlækninn er það auðveldara fyrir barnið. En það sem ég vildi koma inn á, herra forseti, er það sem mér finnst hafa verið allt of lítið rætt hér. Það er að ef barn fæðist með fæðingargalla á kynfærum og það er ekki lagað þá held ég að það sé nánast algjörlega öruggt að sá galli muni leiða til eineltis gegn viðkomandi barni, það er bara þannig. Það er harður heimur þarna úti og þegar einelti er annars vegar þá geta þeir sem eru gerendur í því verið ansi grimmir, því miður. Einelti í grunnskólum hefur aukist á síðari árum eftir að það fór minnkandi eftir hrunárin. Það er meðal niðurstaðna úr eineltisrannsókn í grunnskólum fyrir ekki svo löngu síðan og þar kemur fram að einelti í fimmta til tíunda bekk mælist nú um 6,2% að meðaltali í grunnskólum á Íslandi og sú tala var farin niður í 4,8% árið 2012 en var 7,6% haustið 2007. Einelti í skólum í Reykjavík á síðasta ári mældist um 5,5% en var hins vegar 6,9% árið 2007. Hvað veldur því? Kreppan skall á 2008 og það virðist hafa áhrif. Þegar þjóðin sigldi inn í kreppu voru skólar mjög meðvitaðir um það að einelti gæti aukist og nú er þjóðin svo sannarlega í efnahagskreppu og því miður benda rannsóknir til þess að þá geti einelti einnig aukist.

Hv. þm. Brynjar Níelsson hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði að þarna værum við að kljást við líffræðilegan galla sem hægt er að laga en við höfum ákveðið að laga það ekki í þessu frumvarpi. Brynjar Níelsson, sá ágæti hv. þingmaður, er eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur komið og tekið til máls í þessu máli og ég er ákaflega hissa að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn skuli standa að baki þessu máli. Framsóknarflokkurinn hefur komið í andsvör og tekið þátt í þessari umræðu en Sjálfstæðismenn ekki. Þeir hafa ekki fylgst með þessari umræðu í þingsal og mér finnst umhugsunarefni að Sjálfstæðismenn skuli yfir höfuð hafa hleypt þessu máli alla leið inn í þingsal. Þeir hefðu svo sannarlega getað stöðvað það í ríkisstjórninni og séð til þess að þetta mál, sem verður brátt að lögum, hefði ekki komið hingað í þingsal.

En því miður er það reyndin og þess vegna höfum við í Miðflokknum miklar áhyggjur af þessu máli, við höfum flutt hér nokkrar ræður í dag til að reyna að útskýra hversu slæmt þetta mál er, hversu vanbúið það er og hvaða upplýsingar vantar í frumvarpið. Ég hef rakið það hér sérstaklega að það eru hreinar og beinar rangfærslur í frumvarpinu þegar kemur að því hve mörg börn á Íslandi fæðast með galla á kynfærum og maður veltir því fyrir sér hvort verið sé að réttlæta fremur þetta frumvarp með því að setja fram tölur sem standast ekki. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu er sagt í greinargerð hópsins sem vann þetta frumvarp að u.þ.b. 68 börn á ári fæðist á Íslandi með ódæmigerð kyneinkenni. Verið er að útvíkka svo þetta hugtak að það er engu lagi líkt og þær tölur eru algjörlega á skjön við það sem er t.d. í Bandaríkjunum. Allar rannsóknir sem ég las í kringum þetta mál, frá Harvard-háskóla og fleiri virtum læknatímaritum, segja að þetta sé eitt barn af sirka 4.500–5.000 börnum. Ég sá eina rannsókn þar sem var sagt að það væri eitt barn af hverjum 2.000 þannig að þetta ættu að vera 1–2 börn á Íslandi sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni en þeir sem standa að þessu frumvarpi, ríkisstjórnin, stjórnarflokkarnir, Vinstri græn, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, segja að það séu 68 börn. Það sýnir bara vinnubrögðin við þetta frumvarp, þau eru ekki betri en þetta. Þannig að maður spyr sig: Er verið að reyna að réttlæta þetta mál frekar með því að setja fram tölur sem standast ekki? Það er bara ósköp einfalt, herra forseti.

Mér hefur ekki gefist tími til að fara yfir einstakar greinar þessa frumvarps en ég vil í lokin koma aðeins inn á 4. gr., þar sem er talað um að börn eigi að fá að njóta réttar til líkamlegrar friðhelgi í tengslum við kyneinkenni sín og eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu. Það er alveg rétt. Sú heilbrigðisþjónusta sem er í boði með þessum aðgerðum er fullkomin. En þessi fallega lýsing hér stangast algerlega á við meginefni þessa frumvarps, sem er að neita þessum börnum um þessa fullkomnu heilbrigðisþjónustu þegar þau fæðast. Þau þurfa að bíða þar til þau geta tekið ákvörðun og það geta verið erfið ár, mjög erfið ár, fyrir þessi börn í skóla þegar þau líta öðruvísi út en hin þegar kemur að kynfærum og það er bara ávísun á einelti sem getur haft varanleg, skaðleg og alvarleg áhrif á einstaklinginn. Við í Miðflokknum viljum ekki standa að því og erum þess vegna á móti þessu frumvarpi.