151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[20:02]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Forseti. Þessi umræða í dag hefur verið mjög áhugaverð og hefur eiginlega dregið það fram hvers vegna þetta mál á ekki að vera hér til afgreiðslu akkúrat núna. Það var auglýst eftir því áðan í andsvörum ágæts þingmanns, hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur, hvort Miðflokkurinn ætti ekki fulltrúa í allsherjar- og menntamálanefnd. Svarið er jú, Miðflokkurinn á nefndarmann í umræddri hv. nefnd og hann er í ræðustól núna. Og þá verður að segja hverja sögu eins og hún er. Núna fyrir helgina, þegar hafði gengið á með heimsóknum ýmissa félagasamtaka vegna þessa máls og kom einn læknir fyrir nefndina og þeirri heimsókn var lokið, var boðað að taka ætti málið úr nefnd. Sá sem hér stendur spurði hvort ekki væri hægt að fá fleira læknismenntað fólk eða heilbrigðisstarfsmenn fyrir nefndina og svarið var: Nei, við vorum þar í fyrra. Eftir þá umfjöllun var málið tekið úr nefnd. Það segir sig sjálft að einn maður af níu gat ekki staðið gegn því að öðru leyti en að taka ekki þátt í því að taka málið úr nefndinni og lýsa sig andvígan því að það væri gert.

Í ljós hefur komið að þetta frumvarp, sem í sjálfu sér snýst um læknisfræðilega hluti, er sett fram á félagsfræðilegum grunni. Það er búið að ítreka það hér nokkrum sinnum að í margumræddum starfshópi sem samdi frumvarpið hafi verið barnaskurðlæknir, barnainnkirtlalæknir og barnasálfræðingur, það er alveg rétt, og síðan fulltrúar ýmissa samtaka. Einnig hefur verið sagt að það sé ástæðan fyrir því að Læknafélag Íslands hafi ekki skilað inn umsögn í þetta sinn. Og það er alveg hárrétt sem hv. þingmenn hafa sagt að það er engum aðila eða einstaklingi skylt að senda inn umsögn um frumvarp, ekki síst ef það hefur verið áður á dagskrá. En af því að þetta mál var tekið úr nefndinni og þeim sem hér stendur sagt að það sem hann fann að hefði verið á dagskrá í fyrra, sem kann vel að vera en hann var ekki í nefndinni þá, þá hneigist maður að því að spyrna við fótum. Þess vegna fer ég fram á það, herra forseti, að frumvarpið verði tekið aftur til allsherjar- og menntamálanefndar milli 2. og 3. umr. til að hægt sé að bæta úr skorti á gestakomum úr hópi heilbrigðisstarfsfólks sem hefur verið í meðferð málsins til þessa.

Herra forseti. Ágætur þingmaður Viðreisnar sagði áðan að það væri engu líkara en að þingmenn Miðflokksins hefðu hoppað út úr tímavél og það má vel vera. Við í þingflokki Miðflokksins erum gamaldags að því leyti að við viljum gjarnan gera hlutina vel og þannig að við hröpum ekki að niðurstöðu að lítt athuguðu máli. Ég verð að segja fyrir mig persónulega, herra forseti, að ég ber allt of mikla virðingu fyrir þessu máli og þá sem það snertir heldur en svo að ég vilji samþykkja það í núverandi búningi að lítt athuguðu máli. Ég get ekki neitað því að við umræðuna núna hvarflar hugurinn svona eitt og hálft ár aftur í tímann þegar hér í þingsal var til afgreiðslu og umræðu frumvarp um fóstureyðingar, sem heitir frumvarp um þungunarrof. Það gekk hér á með miklum umræðum um að svo illa væri komið fyrir fjölda kvenna að þær aðgættu ekki að þungun sinni og þyrftu þess vegna að fara til útlanda til að rjúfa þungun, voru komnar fram yfir þann tíma sem hér var hægt að framkvæma slíka aðgerð. Eftir mikla eftirgangssemi fékkst það fram að fjöldi þessara kvenna sem hafði þurft á þessari þjónustu, sem kölluð var, að halda voru fjórar til sex konur á ári. Við breyttum landslögum fyrir allan þorra kvenna undir því yfirskyni eða með þeim rökum að annars myndu konur streyma til útlanda í fóstureyðingu.

Hvers vegna fer ég til baka í þennan tíma? Jú, það er vegna þess að hér hefur verið rætt um að það séu kannski 60 börn á Íslandi sem fæðast á hverju ári með fæðingargalla sem snerta kynfæri og þvagfæri. Hafa verið leiddar að því líkur, m.a. af hálfu þingmanna Miðflokksins, að ef skilgreiningin væri sú sama og t.d. vestur í Ameríku væru þetta eitt til tvö börn á ári. Mér finnst, herra forseti, rétt að fá það óyggjandi fram, t.d. í nefnd á milli 2. og 3. umr., hvor talan er rétt. Erum við að tala um eitt til tvö börn á ári, skilgreind eins og gert er t.d. í Ameríku, eða erum við að tala um 60–70 börn?

Það hefur líka komið fram og ég ætla að taka undir þann málflutning, herra forseti, að margt af því sem segir í þessu frumvarpi er ekki hægt að líta á öðruvísi en að foreldrum sé ekki treyst fyrir velferð barna sinna í því efni sem hér er undir, þegar svo er í nánast 100% tilfella. Auðvitað er til fólk sem veit ekki fótum sínum forráð og þá ekki barna sinna og þá er yfirleitt gripið til viðeigandi ráðstafana, en ég get ekki tekið undir það að meiri hluti foreldra á Íslandi sé þannig þenkjandi að hann beri ekki velferð barna sinna það mikið fyrir brjósti að hann geti ekki tekið ákvörðun fyrir börn sín ung að aldri í stað þess að láta börnin sjálf í fyrsta lagi burðast með þennan fæðingargalla í drjúgan tíma og að þau eigi svo að eiga þátt í því, enn þá börn, að ákveða hvað gera skuli.

Nú ætla ég að taka skýrt fram að ég vil ekki að málflutningur minn og málflutningur Miðflokksins sé dreginn inn í einhverja ímyndaða andúð á intersex fólki eða fólki sem hefur ekki skýra kynvitund eða fólki sem á einhverjum tímapunkti vill breyta kyni sínu til allrar framtíðar. Langt fjarri því, herra forseti, fjarri því. Enda væri í sjálfu sér fróðlegt líka að fá tölur yfir þá sem hafa gengið undir kynleiðréttingu á Íslandi og hvort mikill meiri hluti þeirra aðila hafi verið með svokölluð ódæmigerð kyneinkenni eða hvort hreinlega sé um að ræða, eins og ég hef grun um að sé í miklum meiri hluta tilfella, einstaklinga sem upplifðu sig einfaldlega í röngum líkama og fóru þess vegna í kynleiðréttingu, sem náttúrlega er ekki nema eðlilegur hlutur þegar það ástand er uppi.

Þess vegna segi ég aftur að ég vil fá þetta mál til umræðu í nefndinni milli 2. og 3. umr. vegna þess að ég vil mjög gjarnan að heilbrigðisstarfsfólk, læknar sem annast þessi börn sem þarna um ræðir, bæði í frumbernsku og síðar, sannfæri mig þannig að ég geti sannfært aðra um að við séum að gera rétt með því að samþykkja þetta frumvarp eins og það liggur fyrir.

Ég segi aftur, herra forseti: Jú, ég sit í þessari nefnd en ég hafði ekki hugmyndaflug í það að þegar öll þessi ágætu samtök sem þarna komu við sögu sem gestir höfðu farið á braut ásamt einum lækni, væri bara nóg komið og menn vildu rífa málið úr nefndinni án þess að fleiri kæmu fyrir hana, burt séð frá því hvort hinir sömu höfðu skilað inn umsögn eða ekki. Það skiptir ekki í sjálfu sér öllu máli. Hér var sagt áðan að við þingmenn þættumst vera svo rosalega flott og klár og allt það — síður en svo, herra forseti. Þess vegna þurfum við góða leiðsögn þegar mál af þessari stærðargráðu, eins og þetta mál er, eru undir. Það verður að vera hafið yfir allan vafa í okkar hugum að við séum að gera rétt og það á ekki við um þetta frumvarp í tilfelli þess sem hér stendur. Mér finnst ekki rétt að við hröpum að því að samþykkja þetta frumvarp án þess að gaumgæfa það enn þá frekar.

Ég segir aftur: Ég frábið mér það að málflutningur sá sem við Miðflokksmenn höfum verið með hér í dag sé dreginn upp sem einhver andúð á intersex fólki eða fólki með ódæmigerð kyneinkenni yfir höfuð, alls ekki, herra forseti, alls ekki.

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki heldur hvað mönnum liggur svona á með þetta mál núna. Ég skil það ekki alveg. Ég skil ekki ástæðurnar fyrir því að við tökum okkur ekki þann tíma sem við þurfum til að ganga frá málinu og ég skil ekki þann asa varðandi síðustu grein frumvarpsins, um að lög þessi öðlist þegar gildi, að það skemmi málið á einhvern hátt eða þann málstað sem það er að verja ef það verður ekki að lögum á morgun eða hinn heldur kannski fyrstu dagana eða síðustu dagana í janúar. Ég skil ekki muninn, þ.e. ef við öðlumst á þeim tíma dýpri skilning á málinu og hvernig það er til komið og gerum jafnvel á því þær breytingar sem nauðsynlegar eru til að það verði þannig að hægt sé með góðu móti að samþykkja það. Ég get ekki tekið undir það, herra forseti, að það að vilja vanda til verka í þessari málstofu sé eitthvað gamaldags, hallærislegt eða forpokað. Það er þá næsta víst að að lokinni þessari umræðu þá hlaupum við Miðflokksmenn bara inn í torfkofana aftur, það er ekkert að því. En ég segi aftur: Ég og félagar mínir, við biðjumst ekki afsökunar á því að vilja vanda til verka í þessari málstofu. Það hefur áður gerst, herra forseti, nýlega, að eftir allnokkra umræðu sem sumir kölluðu málþóf þá gátum við haft áhrif á ákveðið mál til hins betra. Ég held að enginn sé fegnari eftir þá meðferð en þeir sem ekki tóku til máls í umræðunni en hefðu þurft að uppfylla ýtrustu skilyrði þess máls ef ekki hefði komið til fyrir þá baráttu sem við Miðflokksfólkið höfðum uppi um að vanda til verka og ganga um og búa þannig um hnúta að málið yrði þannig að hægt væri að verja það. Nákvæmlega sama afstaða, herra forseti, er uppi nú. Við viljum einfaldlega að það séu fengnir vitnisburðir eða ummæli, umsagnir eða upplýsingar frá fleiri aðilum sem eru heilbrigðisstarfsmenn en hafa til þessa komið fyrir hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Ég sagði áðan að mér fyndist í þessu frumvarpi ekki bara örla á vantrausti heldur væri haft uppi töluvert vantraust í garð íslenskra foreldra. Það getur vel verið að einhver komi og sannfæri mig um að ég hafi rangt fyrir mér, þó að ég sjái það ekki alveg fyrir mér núna, en mér finnst heldur ekki að við séum að gæta að rétti þeirra sem þetta frumvarp snertir, þ.e. barnanna sjálfra, í þeirri gerð sem það er núna. Meðan þessi efi er uppi, efi á tvennan hátt, er ekki hægt að ganga frá frumvarpinu eins og það lítur út og það þurfa að koma fram frekari upplýsingar en hafa komið fram.

Nú sé ég að hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir er mætt til leiks. Það gleður mig af því að hún auglýsti eftir mér áðan og ég er kominn hingað núna og er búinn að gangast við því að vera í þessari nefnd, allsherjar- og menntamálanefnd, og hef útskýrt með hvaða hætti þetta mál var tekið úr nefnd gegn mínum vilja. Það er í sjálfu sér ágætt og við getum þá vonandi sammælst um það, herra forseti, að málið verði tekið aftur til nefndarinnar milli 2. og 3. umr., þannig að við getum haldið áfram að gaumgæfa það og vinna það með þeirri alúð og með þeim sóma sem það á skilið.

Ég segi aftur: Málið er stórt, málið er nauðsynlegt, en það er bara ekki í réttum búningi eins og það er akkúrat núna og það þarf að útskýra fyrir mér og fleirum af hverju það er sett upp með þessum hætti. Og með mikilli virðingu fyrir öllum þeim sérfræðingum á vegum samtaka sem komu fram og samráðshópnum sem samdi þetta frumvarp, þá ætla ég að segja aftur: Tveir læknar, einn barnasálfræðingur í þessum tólf eða fimmtán manna hópi eða hvað þetta var og einn af þessum heilbrigðisstarfsmönnum kom fyrir nefndina meðan sá sem hér stendur hefur setið þar — að mínu mati er það bara ekki nóg, eins og fram hefur komið í mínu máli.

Herra forseti. Ég ætla að ánýja það að málið verði tekið aftur til nefndarinnar milli 2. og 3. umr., boðaðir verði gestir sem ég mun biðja um, nokkur listi af læknum og heilbrigðisstarfsmönnum, til að útskýra fyrir mér og öðrum hvers vegna við eigum að samþykkja þetta frumvarp eins og það lítur út núna eða hvaða breytingar þarf á því að gera til að það verði þannig að okkur sé sómi að. Ég hef vitnað til þess, herra forseti, að við höfum kastað til þess höndum hér áður og við þurfum ekki að gera það að venju. Við skulum vanda okkur.