151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[20:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég var kominn að kafla 2.2. í greinargerð með frumvarpinu sem fjallar um svokölluð tilmæli alþjóða- og mannréttindastofnana um réttindi intersex fólks og fólks með ódæmigerð kyneinkenni. Í þessum kafla eru rakin ýmis skjöl og ýmsar ályktanir frá hinum og þessum samtökum. Kaflinn er mjög áhugaverður og lýsandi fyrir það hvernig þátttaka Íslands í alþjóðastarfi er stundum mistúlkuð viljandi. Ég tel reyndar að þessi kafli væri mjög áhugaverður í stjórnmálafræði til að kynna sér einmitt þá staðreynd. Í upphafi þessa kafla segir, með leyfi forseta:

„Á síðustu árum hafa ýmsar alþjóða- og mannréttindastofnanir hvatt ríki til að setja lög um eða banna ónauðsynlegar meðferðir á einstaklingum með ódæmigerð kyneinkenni, til að mynda óafturkræfar skurðaðgerðir og ófrjósemisaðgerðir án upplýsts samþykkis.“

Herra forseti. Með frumvarpinu er ekki verið að leggja til ófrjósemisaðgerðir heldur þvert á móti. Það að börn fái ekki nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á þeim tíma sem hentar best til þess getur í mörgum tilvikum leitt til ófrjósemi svo að það er í raun verið að stuðla að því að fleiri börn fá ekki að njóta frjósemi. Síðar segir:

„Slíkar læknismeðferðir eru oft framkvæmdar án upplýsts samþykkis barnsins og oft án þess að heilsufarslegar ástæður krefjist og byggjast á fordómum, staðalímyndum o.fl. Ónauðsynlegar læknismeðferðir án upplýsts samþykkis fela í sér brot gegn mannréttindum viðkomandi barna og geta haft í för með sér alvarlegar neikvæðar afleiðingar.“

Þarna er aftur verið að vísa til einhvers alls annars en er til umræðu í frumvarpinu. Maður hlýtur að spyrja: Hvað með það þegar börn fá ekki lækningu, þegar þeim er meinað um lækningu? Er það ekki brot á mannréttindum þeirra? Maður skyldi ætla það.

Næst er vísað til samnings á vegum Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðsins um bann við pyndingum, herra forseti. Maður hlýtur að spyrja: Er mönnum alvara með því að setja þetta inn í frumvarpið og setja það í samhengi við það að settar verði verulegar takmarkanir á það, og jafnvel bann við því, að börn fái lækningu, eins og framkvæmd hefur verið í mörg ár og áratugi? Og svona heldur þetta áfram.

Ég geri ekki ráð fyrir að ég hafi tíma, herra forseti, til að lesa allar þær tilraunir sem hér eru gerðar til að endurtúlka og snúa út úr alþjóðasamningum og ályktunum alþjóðastofnana. En það er gegnumgangandi í þessum tiltölulega langa kafla að hvað eftir annað eru setningar teknar úr slíkum ályktunum og þær settar í algjörlega nýtt samhengi. Hér er áréttað að Evrópuráðið hafi talað gegn normaliserandi meðferð, þ.e. gegn því að börn fái meðferð sem færir þau í „normal“ horf, þ.e. á íslensku í eðlilegt eða hefðbundið horf.

Áður en ég segi þetta gott af þessum kafla sem, eins og ég nefndi, er of langur til að fara í gegnum allar mistúlkanirnar, vil ég nefna að í frumvarpinu segir, og er þá vísað til ákveðinnar nefndar Sameinuðu þjóðanna:

„Það byggist á rétti til heilsu og heilbrigðisþjónustu og einnig á réttindum barna samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.“

Ég vek sérstaka athygli hæstv. forseta á orðunum „félagsleg réttindi“ því að í frumvarpinu er ítrekað tekið fram að félagslegar ástæður réttlæti ekki lækningu á börnum. Engu að síður leyfa menn sér að vísa í samning um félagsleg réttindi.

Næst tekur við kaflinn um markmið lagasetningar og þar eru auðvitað mun fleiri atriði en ég hef tíma til að fjalla um jafnvel í nokkrum ræðum í viðbót, en ég mun reyna að gera þessu sem best skil í næstu ræðu.