151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[20:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar í þessari ræðu minni að beina því til hv. allsherjar- og menntamálanefndar að taka til skoðunar mál sem dómur féll í í London í Bretlandi 1. desember sl. og fjallaði einmitt um sjónarmið sem upp kunna að koma í tengslum við mál sem fyrirséð er að munu koma upp vegna þess frumvarps sem nú liggur fyrir. Þetta er mál sem var mikið í fréttum úti síðustu tvær vikurnar. Ég held að það væri skynsamlegt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd kallaði til lögfræðinga, sérfróða um þessi mál, til að nefndin sé fyllilega upplýst um það hvaða sjónarmið kunni að koma upp þegar á reynir. Það kemur fram í frumvarpinu, ég held að ég fari rétt með það, að það hafi ekkert mál verið tekið fyrir hjá nefndinni sem nú er ætlunin að leggja af með þessu frumvarpi og ný að koma staðinn. Ég held að ekkert mál hafi komið fyrir hana síðan lögin voru samþykkt í fyrra. Þannig að ég held að nauðsynlegt sé að hv. allsherjar- og menntamálanefnd kalli til sérfróða lögfræðinga sem fari yfir þau lögfræðilegu álitaefni sem uppi kunna að vera.