151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[20:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Ég geri ráð fyrir að hæstv. forseti vilji fara að ljúka þessari umræðu og hefði eins og meiri hlutinn viljað hafa hana styttri og helst enga. En ég get ekki látið hjá líða hér í lokin að nefna aðeins það sem ég vék stuttlega að áðan sem er tilraun læknanna til að rökstyðja að heimila eigi a.m.k. tvær tegundir aðgerða. Þó eru mjög veruleg skilyrði sett fyrir því að fá yfirleitt að framkvæma þær aðgerðir. Það eru aðgerðir vegna of stuttrar þvagrásar og lims drengja sem vex ekki eðlilega. Læknarnir útskýra að í báðum tilvikum sé með tímabæru inngripi hægt að lækna þessi atriði og þar með bæta líf barnanna mjög verulega. Líka er útskýrt hver áhrifin af því að lækna þetta ekki muni vera fyrir börnin. Ég ætla að hlífa hæstv. forseta við því að rekja það þó að kannski væri full ástæða til. Allt gengur það út á að útskýra að sé ekki brugðist við a.m.k. þessum tveimur atriðum muni það hafa mjög veruleg áhrif á börnin líkamlega og að öllum líkindum líka andlega, líklega út lífið.

Í stað þess að rekja með hvaða hætti það gerist ætla ég að nefna aðeins andmælin við því að þetta sé leyft. Í skýringum við lagagreinarnar segir, með leyfi forseta:

„Helstu sjónarmið sem styðja þá leið að setja sérreglu um aðgerðir vegna of stuttrar þvagrásar eru til að mynda sérstaða þessa kyneinkennis. Of stutt þvagrás fellur undir skilgreiningu frumvarpsins á ódæmigerðum kyneinkennum …“

Svo segir: „…kyneinkenni intersex fólks liggi á milli okkar stöðluðu hugmynda um karl- og kvenkyn.“

En þegar um er að ræða of stutta þvagrás liggur það einkenni ekki milli okkar stöðluðu hugmynda, svo að ég noti orðalag frumvarpsins um karlkyn og kvenkyn. Það snýst um að lækna kvilla sem er vel læknanlegur og skiptir verulegu máli fyrir barnið. Þá er sett út á það að með lækningum á þessu atriði sé verið að skipta börnum með ódæmigerð kyneinkenni í tvennt. En það kemur eingöngu til vegna þess að uppleggið var það að halda því fram að ódæmigerð kyneinkenni séu allt kvillar sem tengjast þvagfærum eða kynfærum barna. Það er í raun rauður þráður í þessu frumvarpi að til að ná pólitíska markmiðinu um að kyn sé félagslegt fyrirbæri, eins og það var orðað hér einhvers staðar, megi ekki ráðast í aðgerðir sem fela í sér mikla lækningu fyrir börn vegna kvilla sem tengjast kynfærum eða þvagfærum.

Þetta eru auðvitað öfgar, herra forseti, og öfgarnar skína í gegn í þessu frumvarpi öllu. Það byggist ekki á vísindum, það byggist ekki á lækningum, það byggist ekki á rétti foreldra til að gera það sem er best fyrir barnið heldur því að ná einhverjum allt öðrum markmiðum, markmiðum sem, nái þetta fram að ganga, bitna á börnum og geta bitnað á býsna mörgum börnum. Skilgreiningin er það víðtæk. Sagt er að 1,7% þeirra barna sem fæðast á Íslandi falli undir þetta. Það mun þýða að foreldrar barna munu leita til útlanda eftir lækningu fyrir börnin sín, þeir foreldrar sem hafa efni á því. Önnur börn munu þjást, jafnvel alla ævi, fyrir það að þetta frumvarp hafi náð í gegn.

Þetta frumvarp er til skammar fyrir þessa ríkisstjórn. Það er til skammar að hún hafi reynt að lauma því hér í gegn án umræðu. Frumvarpið var augljóslega ekki tilbúið. Það hafði ekki fengið eðlilega umfjöllun í nefnd hjá þeim sem þekkja best til, þekkja til sviðs lækninga og vísinda. Því miður er þetta lýsandi fyrir það sem maður hefur kynnst frá þessari ríkisstjórn. Þetta eru allt umbúðir, þetta eru allt frasar og fögur orð en þegar innihaldið er skoðað leiðir það til þveröfugrar niðurstöðu.