151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

skattar og gjöld.

314. mál
[21:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það verður að játast að ég er bara ekki nægilega snjall til að fylgjast með þeim útreikningum sem hv. þingmaður viðhafði hér vegna þess að ég skildi þá ekki. Það verður að viðurkennast að það er fátt um svör hjá mér þegar ég skil ekki þessa útreikninga sem hv. þingmaður bar hér á borð. Hann spyr hvort samráð hafi verið haft við einhverja ákveðna aðila. Já, það var auðvitað haft samráð við atvinnuvegaráðuneytið um þessa breytingu og það var hvatt til þessarar breytingar af atvinnuvegaráðuneytinu vegna þess að atvinnuvegaráðuneytið skilur hvað hér er í húfi. Það skilur hvað hér er í húfi. Ég fullyrði, hv. þingmaður, og ég veit að þetta getur farið í taugarnar á hv. þingmanni, en ég fullyrði að þessi breyting, sá hvati sem er verið að setja hér inn gagnvart ökutækjaleigum er stórt skref í því að gera íslenskum ökutækjaleigum kleift að taka af fullum þunga þátt í þeim orkuskiptum sem við erum öll sammála um að við þurfum að fara í gegnum. Og af hverju hv. þingmaður getur ekki fagnað slíku skrefi er óskiljanlegt þegar á sama tíma er verið að ýta undir og styrkja þessi mikilvægu fyrirtæki í þeirri mikilvægu atvinnugrein sem við bindum öll vonir við að nái sér aftur á strik á komandi mánuðum. Það er óskiljanlegt í mínum huga, frú forseti, óskiljanlegt.