151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[14:32]
Horfa

Páll Magnússon (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er beinlínis hörmulegt að hlusta hér á málflutning hv. þingmanns og formanns Miðflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Það stendur upp úr hv. þingmanni bunan um að þetta snúist ekki um mannréttindi, þetta snúist ekki um frelsi, þetta séu merkimiðastjórnmál. Spurðu fólkið sem í hlut á, hv. þingmaður, hvort þetta séu mannréttindi, frelsismál eða merkimiðastjórnmál. Þvættingurinn um að það sé verið að meina börnum um læknishjálp — er það það sem Læknafélagið mælir einróma með að verði gert, Læknafélag Íslands sem mælir með samþykkt þessa frumvarps, sérfræðingahópurinn, barnaskurðlæknarnir, barnalæknarnir á Landspítalanum? Eru þeir að mæla með því að börnum verði meinað um læknisaðstoð? Hvers lags þvættingur er þetta, hv. þingmaður?