151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[14:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mannréttindi þróast og það er alls ekki mjög langt síðan sjálfsákvörðunarréttur barna var viðurkenndur alþjóðlega með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þann sáttmála höfum við fullgilt. Sá sáttmáli viðurkennir sjálfsákvörðunarrétt barna, líka yfir eigin líkama og við erum að stíga stórt skref í því að vernda betur sjálfsákvörðunarrétt barna yfir eigin líkama með þessu frumvarpi. Tíminn kann að hafa farið fram hjá nokkrum þingmönnum í þessum sal, en við hér, mikill meiri hluti, erum sem betur fer mjög meðvituð um að börn eiga sjálfsákvörðunarrétt yfir sínum eigin líkama, rétt eins og fullorðnir. Með þessu frumvarpi er einungis verið að stíga stór og sterk skref til að virða betur þann sjálfsagða grundvallarrétt allra barna. Ég er glöð yfir því hvað við erum mörg þar.