151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[15:59]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, nr. 98/2004. Eins og hv. flutningsmaður málsins fór vel yfir áðan bárust nokkrar umsagnir og fengum við sömuleiðis á fund okkar tvo gesti vegna málsins. Þetta mál lætur e.t.v. ekki mikið yfir sér en hér er um að ræða mikilvægt jafnréttismál, jafnrétti til búsetu. Það mál sem við fjöllum um hér snýr í raun að því að jafna möguleika fólks á því að búa og starfa um land allt í hinum dreifðu byggðum, ekki eingöngu í þéttbýlinu. Þetta er mál sem snýst um jöfnuð. Þingflokkur Samfylkingarinnar styður að sjálfsögðu þetta mikilvæga jafnréttismál og meginmarkmið málsins en ég setti þó fyrirvara við nefndarálitið. Það er fyrst og fremst vegna tveggja atriða sem ég vil gera stuttlega grein fyrir hér.

Staðreyndin er að því miður er kerfið sem við erum að vinna með meingallað og hefur sú staðreynd verið þekkt lengi. Þetta kemur m.a. fram í greinargerð málsins sjálfs frá ráðuneytinu. Því miður hefur aukning á niðurgreiðslum verið étin upp á skömmum tíma með gjaldskrárhækkunum dreifiveitna. Ég er ekki að gefa í skyn að þær hækkanir hafi ekki verið byggðar á málefnalegum grunni heldur er ég einfaldlega að lýsa staðreynd. Það þýðir að í raun hefur það of oft gerst að niðurgreiðslurnar skili sér ekki til neytenda í þeim mæli sem ætlast var til. Sömuleiðis hefur munurinn á örfáum árum vaxið á ný og enn sitja þeir sem búa í dreifbýlinu eftir með sárt ennið.

Það er því alveg ljóst, frú forseti, að kerfið eins og það var sett upp virkar ekki nægilega vel í þágu þeirra sem það á að þjóna. Ég held að það sé því algjört lykilatriði að gera þurfi skýra kröfu um að hæstv. iðnaðarráðherra komi fram með raunverulegar tillögur til breytinga og það strax í vor. Þetta mál er búið að þvælast í kerfinu í lengri tíma og það er löngu tímabært að taka það upp og ljúka því í eitt skipti fyrir öll þannig að allir landsmenn sitji við sama borð.

Frú forseti. Nú þegar er ljóst að líklega verða einhverjar hækkanir á gjaldskrám dreifiveitna um áramótin en eins og komið er inn á í nefndarálitinu verða þær vonandi ekki að raunveruleika enda mikilvægt að slíkar hækkanir vinni ekki gegn markmiðum málsins sem við fjöllum um í dag. Því miður er sömuleiðis ljóst að við náum ekki að fjalla um og breyta kerfinu nú fyrir áramót. Því veljum við að styðja málið eins og það er lagt fram í dag. Hæstv. ráðherra sagði í andsvari við 1. umr. málsins að hún hygðist leggja fram á vorþingi tillögur að breytingum og ég skora á ráðherra að standa við það því að eins og ég kom inn á áðan er alveg ljóst að þetta kerfi virkar ekki eins og það er. Þegar staðan er sú er það eina skynsamlega í stöðunni að finna aðra leið að markmiðum málsins sem er að jafna búsetumöguleika.

Frú forseti. Annað atriði en vissulega veigaminna sem ég var svolítið hissa á í nefndarálitinu er að vísað er til næstu fjármálaáætlunar að tryggja áframhaldandi fjármögnun í stað þess að setja það einfaldlega inn í þá fjármálaáætlun sem nú er til umfjöllunar hjá fjárlaganefnd. Ég vil því einfaldlega beina því til hv. þingmanna sem eiga sæti í fjárlaganefnd að taka til skoðunar hvort ekki mætti bæta úr því án mikilla vandræða og koma þessu inn í þá fjármálaáætlun.

Frú forseti. Ég get ekki lýst því nógsamlega hversu mikilvægt ég tel markmið málsins vera, þ.e. að jafna dreifikostnað á raforku milli dreifbýlis og þéttbýlis. Það er sérstakt að búa jafnvel við hliðina á virkjun en þurfa samt sem áður að greiða tugþúsundum hærra gjald en þeir sem búa í þéttbýli. Íslendingar báru gæfu til þess á sínum tíma að jafna kostnað vegna símtala milli landshluta. Okkur ber nú að sýna sama kjark á nýju ári og jafna á sama hátt kostnað vegna dreifikerfis raforku milli þéttbýlis og dreifbýlis.