151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[16:08]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, langþráð mál, lengi beðið eftir því. Þetta er mikilvægt frumvarp og löngu tímabært. Það má eiginlega furðu sæta að slík og þvílík mismunun skuli hafa fengið að viðgangast og það svo lengi. Þetta er gott lítið skref í rétta átt en það er of stutt, of lítill áfangi í sjálfsagða réttlætisátt. Það er ekki verið að biðja um teppalagningu upp að hverju húsi, malbik um alla jörð, pósthús eða banka í göngufjarlægð fyrir landsbyggðarfólk, bónusverð í allar búðir. Nei, það er verið að krefjast þess að ljós og hiti sé í boði á sama verði með sömu kjörum fyrir alla landsmenn, að þjóðin öll hafi eðlilegan aðgang að þessari sameiginlegu auðlind á jafnræðisgrundvelli. Þetta er ekki lítið hagsmunamál fyrir fólk sem býr á landsbyggðinni, hvort sem það er í þéttbýli úti á landi eða í dreifbýli, og að hluta til snertir þetta líka atvinnurekstur.

Við tölum mikið um jöfnun lífskjara í öllu landinu. Það segir réttilega í greinargerð með frumvarpinu að háir taxtar á dreifikostnaði raforku í dreifbýli stuðli í auknum mæli að fólksfækkun, samdrætti í atvinnurekstri og tilheyrandi neikvæðum byggðalegum áhrifum. Þetta er allt satt og rétt. Það er náttúrlega fráleitt að munur á raforkukostnaði í þéttbýli og víða á landsbyggðinni, eða þar sem grófust eru dæmin, sé upp undir 60% þegar upp er staðið. Rafmagn til lýsingar og upphitunar á ekki að vera lúxus en því miður er þetta raunin víða úti á landi og mörg dæmi um að alveg upp undir 20% af ráðstöfunartekjum heimilisins fari í þennan eina útgjaldaliði, að halda á sér hita og geta kveikt ljós. Þetta er algerlega fráleitt en hefur fengið að viðgangast lengi.

Í nútímasamfélagi er raforkan óaðskiljanlegur hluti af daglegu lífi hvers manns. Án hennar lifum við ekki hinu hefðbundna lífi hvar sem við búum. Ríkisstjórnin hefur látið þetta gott heita allt kjörtímabilið en bregst nú við á elleftu stundu. Það er gott, betra er seint en ekki. Við þessa breytingu hefur ráðherra gefið landsbyggðarfólki loforð um að munurinn á raforkukostnaði heimila í dreifbýli og þeirra sem njóta eðlilegra raforkukjara verði ekki meiri en 15%. Krafan er auðvitað sú að fullum jöfnuði verði náð strax. Úr þessum ræðustól var fullyrt fyrir nokkrum dögum að það yrði þegar á næsta ári en það er ekki rétt. Það verður ekki fyrr en í fyrsta lagi 2025 og það getur margt gerst á svo langri leið. Þangað til situr fólk sem býr á landsbyggðinni á hakanum. Dæmi: Landsnet hefur boðað 10% taxtahækkun, eins og fram hefur komið, á gjaldskrá dreifiveitna nú strax um áramót. Ef þau áform verða að veruleika verður strax á ný hoggið í þessa hagsbót. Það er skammarlegt hvernig farið er að og alveg ljóst að það verður að rjúfa þessa víxlverkun, hætta þessum skollaleik. Það er nauðsynlegt að fara í kerfisbreytingu eins og fram hefur komið, m.a. hjá hv. þingmanni sem talaði hér á undan mér, leggja til grundvallar að þetta sé sameiginleg grunnþjónusta sem eigi að vera í boði fyrir alla landsmenn á sambærilegu verði en að það muni ekki allt að 60% eftir því hvar búið er, það sé ein gjaldskrá fyrir alla landsmenn.

Stundum er það, frú forseti, meira að segja þannig að uppsprettan, auðlindin er í næsta nágrenni við þann stað þar sem raforkan er keypt hvað dýrustu verði. Slík nálgun er ekki að skapi jafnaðarmanna en það er ekki áhyggjuefni þessarar ríkisstjórnar eins og sjá má á þessu máli og svo mörgum öðrum.

Ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar skipaði starfshóp vorið 2017 sem skilaði af sér í fyrravor og vann ágætt verkefni sem var að greina möguleika og gera tillögur um uppfærslu á flutningskerfi í dreifbýli, reyndar með áherslu á þrífösun rafmagns. Nefndin skilaði af sér skýrslu sem heitir Skýrsla starfshóps um raforkuflutning í dreifbýli, mjög gagnlegt og gott innlegg í þessa umræðu og staðfestir allt sem komið hefur fram. Nefndin reifaði m.a. ýmsar hugmyndir varðandi sameinaðar gjaldskrár í dreifbýli og einnig sameiningu veitna. Þar var auðvitað staðfest að slík úrræði sem við erum að nefna, sameinaðar gjaldskrár, myndu leiða til jöfnunar og til bættrar stöðu neytenda og fyrirtækja í dreifbýli. Því veldur það vonbrigðum að ekki skuli gengið lengra í þessu frumvarpi í sjálfsagða réttlætis- og umbótaátt fyrir raunar alla. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu í vinnu sinni að með einni dreifiveitugjaldskrá í landinu, án nokkurra mótvægisaðgerða en þær gætu verið nokkrar, gæti mesta hækkun í þéttbýli orðið 15–17% en lækkun í dreifbýli hins vegar veruleg eða á bilinu 42–43%. Þá sér hver maður í hvaða stöðu málið hefur verið og fengið að þróast átölulaust um margra ára skeið og alltaf sigið á ógæfuhliðina. Ríflega 50% af neytendum fengju um 8,5% hækkun með þessari kerfisbreytingu ef engar mótvægisaðgerðir færu fram. Þetta kom sömuleiðis fram í ræðu hv. þm. Ásmundar Friðrikssonar sem talaði áðan. Hann var með aðrar tölur í rauninni en allt hnígur þetta að hinu sama. Þetta er hagsmunamál, samfélagslegt verkefni sem þarf að vinna að með einum eða öðrum hætti. Leiðirnar eru til. Þær kunna að vera grýttari að einhverju leyti en þær eru færar.

Það á auðvitað að vera sjálfsagt mál að tryggja eins og kostur er að algengustu lífsnauðsynjar, sem þetta auðvitað er, raforka, að almenn þjónusta standi til boða á sama verði hvar sem er á landinu. Raforkan er auðvitað einn þáttur þessa, óaðskiljanlegur hluti af daglegum veruleika, heitt og kalt vatn, ég tala nú ekki um vöruverð og flutningaþjónustu. Það er kannski snúnara fyrir opinber yfirvöld að koma að því en nauðsynlegt að huga eftir sem áður að þeim þáttum líka.

Við sem erum orðin eldri en tvævetur munum eftir því þegar greitt var sérstaklega fyrir langlínusamtöl og skref voru misstór í símasamskiptum. Eitt gilti fyrir bæjarfélög, eitt gilti fyrir höfuðborgarsvæðið en ef fólk hringdi út á land þurfti að greiða miklu meira fyrir það. Þeir sem bjuggu úti á landi urðu fyrir miklum búsifjum vegna þessa. Hverjum dettur í hug að hægt væri að snúa til baka til þessa kerfis? Er þetta ekki sjálfsagt réttlætismál? Gildir ekki nákvæmlega sama um þá grunnþjónustu sem er raforka?

Frú forseti. Að lokum er það áréttað enn og aftur að með þessu frumvarpi er sjálfsögðum og fullum jöfnuði alls ekki náð og öfl í samfélaginu eru þegar byrjuð viðleitni sína til að breikka bilið aftur. Sá sem hér stendur spyr: Mun ríkisstjórnin láta það viðgangast?