151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[16:28]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Ég vildi rétt koma hingað upp og fagna því að við séum að klára þetta ferli, a.m.k. í bili, jöfnunina á dreifingu raforku. Það hefur komið fram í umræðunni að 2015 var þetta nánast jafnað að fullu ef ég man rétt. Á þessum fimm árum hefur myndast gat upp á milljarð í að nægilegt fjármagn sé til að jafna dreifinguna. Í frumvarpinu er verið að leggja til að hækka, eða verðbæta raunar, frá 2015 um 130 milljónir. Síðan koma 600 milljónir í gegnum fjárlög. Einnig eru 90 milljónir í fjárlögum frá og með 1. september 2021. Eftir það 270 milljónir á ári og þá er búið að ná þessari jöfnun að fullu. Með því sem er verið að gera hér er dreifikostnaður jafnaður úr 49% í 85%. Það er því verið að taka stór skref og við náum þessu síðan að fullu í haust.

Ég tek undir með hv. þingmönnum sem hafa rætt um að við þurfum síðan að finna sjálfbærari leið til lengri tíma þannig að kerfið virki rétt í stóra samhenginu og við þurfum ekki að standa í þessum málum í gegnum fjárlög eins og við erum að gera núna að einhverju leyti. Við ættum heldur að reyna að finna sjálfbærari lausn. Ýmislegt hefur verið skoðað og í góðri vinnu atvinnuveganefndar við vinnslu málsins var ýmislegt reifað fyrir nefndinni. Við þurfum að vinna enn frekar í þá átt að klára þessi mál á næstu árum með betri hætti. Það kemur líka fram í þessari umræðu að það er mikil fjárfesting í gangi núna í dreifiveitunum og henni var flýtt eftir óveðrið í fyrra. Á næstu fimm árum þarf að klára að koma strengjum í jörð þannig að þetta verði mestallt komið í jörð. Þetta kemur að einhverju leyti fram í verðskránni en á að jafnast út til lengri tíma.

Það er einn punktur sem mig langar kannski fyrst og fremst að minnast á hér og kemur fram í nefndarálitinu en það er hvernig stórnotendur eru skilgreindir í kerfinu. Þetta er atriði sem tengist raunverulega atvinnu- og nýsköpun vítt og breitt um landið. Við þurfum að lækka þau mörk sem skilgreina stórnotendur sem komast þá úr þessari dýru dreifingu á raforku. Við þurfum að vinna það betur. Þessi umræða var töluvert í gangi í vinnu orkustefnunefndar sem skilaði af sér í haust.

Ég vildi rétt impra á þessu hér vegna þess að þetta er atriði sem mér þykir gríðarlega mikilvægt og við þurfum virkilega að taka okkur tak í að finna út hvernig ætlum að fara með þau mál í framtíðinni.