151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:52]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. framsögumanni, Ásmundi Friðrikssyni, kærlega fyrir ræðuna. Ég fagna því að nefndin hafi mætt þeirri gagnrýni sem kom fram hér, m.a. frá mér við 1. umr. um málið, að það væri auðvitað ótækt að verktakagreiðslur íþróttafélaga féllu ekki undir þá lausn sem formuð er í þessu frumvarpi. Nú er búið að taka tillit til þess. Ég man að á þeim tíma talaði hæstv. félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, á þeim nótum að vandamál varðandi verktakagreiðslur íþróttahreyfingarinnar yrðu leyst í öðru frumvarpi. Kom það eitthvað til umræðu við vinnu nefndarinnar? Er líka verið að vinna eitthvað í þessum efnum annars staðar í kerfinu, ef svo má segja? Hefur hv. framsögumaður meiri hluta nefndarinnar upplýsingar um það?

Það sem mig langar aðallega að koma inn á er það sem kemur undir fjárhæð greiðslna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Launagreiðanda er skylt að greiða launatengd gjöld, svo sem iðgjald lífeyrissjóðs, tryggingagjald og sjúkrasjóð, gjöld sem verktaka sjálfum er gert að greiða. Leggur meiri hlutinn því til að hámarksgreiðsla fyrir tilteknar verktakagreiðslur miðist við 70% þeirrar upphæðar sem reikningur verktaka hljóðar upp á …“

Launatengdu gjöldin falla auðvitað ekki niður. Ef þarna er ætlunin að mæta þeim einum og sér er nauðsynlegt að þetta verði tekið til endurskoðunar. Í öllu falli er nauðsynlegt að útskýra betur í hverju munurinn liggur því að verktakinn sem rukkar íþróttafélagið þarf að skila þessum gjöldum af reikningi sínum. Það er því einhver hugsanafeill í því ef einvörðungu er verið að horfa til launatengdu gjaldanna. Gæti hv. þingmaður, framsögumaður málsins, (Forseti hringir.) kannski útskýrt í hverju þetta liggur?