151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

greiðslur til íþróttafélaga vegna launakostnaðar á tímum kórónuveirufaraldurs .

362. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Við getum auðvitað rætt þetta fram og til baka og ég skil þessi skilaboð þingmannsins ágætlega og átta mig vel á þeim. Það var farið vel yfir þetta í nefndinni, þessi sjónarmið komu fram og menn skilja þau. Ég held að í ljósi þess að við tókum verktakana inn, og það var náttúrlega gríðarlega mikilvægt að það næðist, sé kannski ekki óeðlilegt að miða við önnur sambærileg lög sem við höfum verið að setja í þessu Covid-ástandi, um hlutabætur, hlutabótastyrki og allt það sem við erum að gera. Þar eru alls staðar þök og hámörk og það er íþróttahreyfingin eðlilega líka að fá á sig í þessu máli. Í stóru myndinni erum við samt sem áður að koma gríðarlega vel að íþróttahreyfingunni. Við erum að hjálpa henni til að vera klár þegar flautað verður til leiks á ný. Ríkið hefur líka styrkt starfsemi hennar með almennum lögum sem gilda um þá starfsmenn sem vinna á skrifstofum hjá íþróttafélögunum; almenna starfsmenn, skrifstofufólk, framkvæmdastjóra og aðra sem hafa getað fengið hlutabótaleið eða þær leiðir sem ríkið hefur verið að bjóða upp á. Við höfum því verið að dekka það bara nokkuð vel. Ég meðtek skilaboðin frá hv. þingmanni, en meiri hlutinn leggur þetta fram svona. Þannig geri ég ráð fyrir að við reynum að ljúka málinu.