151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

397. mál
[17:45]
Horfa

Flm. (Bergþór Ólason) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé andsvarið og hefði nú orðið sár hefði hv. þingmaður ekki komið upp í andsvar við mig um þetta mál. Það er auðvitað algerlega augljóst að sú yfirburðastaða sem Ríkisútvarpið hefur á fjölmiðlamarkaði hefur áhrif á umræðu í samfélaginu. Það stenst beinlínis enga skynsemisskoðun að halda öðru fram þegar Ríkisútvarpið hefur úr um 7 milljörðum að spila á ári, þar af 5 sem koma í gegnum nefskattinn sem hér er til umræðu. Þetta frumvarp gengur fyrst og fremst út á það að styrkja og bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla í þessum slag við þetta allt um drottnandi fyrirbæri sem Ríkisútvarpið er.

Af því að ég veit að hv. þingmaður er mikill áhugamaður um alþjóðasamninga og plögg sem koma frá alþjóðastofnunum þá segir beinlínis í 37. gr. tilskipunar Evrópuráðsins, nr. 65/2007, að fjölmiðlalæsi snúist um að gera neytendum kleift að nýta sér fjölmiðla á öruggan og skilvirkan hátt. Hluti af þessu er að fjölmiðlun, fréttaflutningur, dagskrárgerð, sé fjölbreytt í hverju samfélagi. Ég leyfi mér að fullyrða að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem hefur starfað sem blaðamaður, telji stöðu fjölmiðla og hlutverk þeirra í að upplýsa íbúa hverrar þjóðar ekki til fyrirmyndar í alræðissamfélögum þar sem ein ríkisfréttastofa stýrir því með hvaða hætti mál eru lögð fram og kynnt. En það sem undirstrikar viðkvæmni hv. þingmanns — nú er tíminn búinn. Ég fer í þetta í seinna andsvari af því að ég gef mér að hv. þingmaður komi hér upp aftur. Ég gef mér jafnframt að forseti leyfi ekki (Forseti hringir.) fleiri slott heldur en þetta eina þannig að nú ráðlegg (Forseti hringir.) ég þingmanninum að nýta tímann vel í spurningar (Forseti hringir.) en ekki eyða honum í almennar vangaveltur eins og áðan.