151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kosningalög.

339. mál
[22:12]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög gild spurning. Ég get sjálfsagt gengist við því að hafa sjálfur haft uppi þau orð að það væri æskilegt ef menn ætluðu að kjósa eftir þessum nýju lögum 25. september á næsta ári að frumvarpið gæti orðið að lögum strax núna um áramótin. Ég ætla ekki að segja að það þætti óhæfilegt ef svo tækist til að Alþingi ynni þetta mál hratt og vel og góð samstaða yrði um það og það yrði gert að lögum í febrúar eða fyrir miðjan mars, eitthvað svoleiðis, að það þætti of nálægt komandi alþingiskosningum. En það er alveg ljóst að þar verður að vera verulegt bil á milli. Það er ekki við hæfi að vera að hreyfa til kosningalöggjöf þegar komið er of nálægt kosningum þannig að ég myndi nú segja að menn hefðu ekki mikinn tíma eftir áramótin ef menn á annað borð vildu, hefðu áhuga á, sem væri auðvitað ákaflega æskilegt, að hægt væri að notast við þessa nýju metnaðarfullu endurskoðuðu kosningalöggjöf strax í næstu alþingiskosningum. En ég legg sérstaka áherslu á að það á ekki að ráða hér of mikið ferð. Okkur er ekkert að vanbúnaði í sjálfu sér að kjósa eftir gömlu lögunum. Við gerum það þá bara einu sinni enn og það eru bara á þeim sömu ágallarnir. Við fengjum þá sjálfsagt í hausinn sömu athugasemdirnar en ég tel að það hafi allt saman gengið ágætlega. Menn gætu að sjálfsögðu einfaldlega haft gildistöku þessara laga þannig að þau tækju við bak alþingiskosningum í september á næsta ári og t.d. að kosið verði eftir þeim í fyrsta sinn við sveitarstjórnarkosningar vorið 2022. Ég minni á að sveitarfélögin voru með í þessu starfi, eru mjög áhugasöm um þetta mál og framgang þess, líta til þessara breytinga með mjög jákvæðum augum. Það gerir líka Hæstiréttur sem losnar við það hlutverk sem honum hefur þótt óþægilegt, að vera aðili að kosningaframkvæmd, þ.e. kosningu forseta Íslands, (Forseti hringir.) þannig að samstarfsaðilar okkar, samstarfsaðilar Alþingis um þetta mál líta held ég allir til þess með velvilja að þessari vinnu verði lokið.