151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kosningalög.

339. mál
[22:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni framsöguna. Ég er sérstaklega ánægður með það sem kom fram í andsvari við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson varðandi tímarammann vegna þess að ég held að mjög æskilegt væri að við næðum að klára þetta núna í vetur þannig að hægt væri að kjósa eftir nýjum lögum í haust. En við þurfum að vera með svigrúm til að takast það ekki og miða þá bara gildistökuna við það, þannig að þá verði kosið eftir nýjum lögum í kosningunum þar á eftir, vegna þess að það skiptir máli að þetta frumvarp fái vandlega skoðun og rækilega yfirferð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Það er sannarlega margt sem þarf að breyta. Ég verð að viðurkenna að ég sakna vel ydduðu ritblýanna og ýmissa svona „kúríósíteta“ sem hafa verið í lögum. En flest virðist nú vera til bóta. Ég er sérstaklega ánægður með að skjóta eigi varanlegum stoðum undir starfsemi landskjörstjórnar til að þar safnist saman þekkingin og stofnanaminnið sem þarf til að tryggja góða framkvæmd kosninga. Varðandi það langar mig bara rétt að spyrja hvort ekki hafi verið búið almennilega um heimildir til söfnunar tölfræði um kjósendur. Það hefur orðið einhver misbrestur á því í síðustu kosningum að Hagstofan hafi getað fengið aldursdreifingu kjósenda frá kjörstjórnum. Þetta þarf náttúrlega allt að vera á hreinu.

Síðan varðandi yfirkjörstjórnirnar. ÖSE hvetur til þess að störf þeirra séu samræmd en í frumvarpinu eru lagðar niður sex yfirkjörstjórnir kjördæma og við hlutverki þeirra taka 73 yfirkjörstjórnir sveitarfélaga. Ég velti fyrir mér hvort samræmingarverkefnið sé ekki þeim mun flóknara, hvort þetta sé ekki ákveðin þversögn miðað við það markmið sem á að nást varðandi yfirkjörstjórn. Þurfum við ekki jafnvel að endurskoða þetta?